Kaffi Hornið býður upp á óendanlega möguleika fisksins
Óendanlegir möguleikar fisksins
Veisla við þjóðveginn
Kavíar frá Rússlandi, gæsalifrarkæfa frá Frakklandi, ítalskt pasta og svissneskur ostur. Einhvers konar einkennisréttir leiða hugann að tilteknu landi, ákveðnu héraði eða vekja minningar um ákveðin þorp. Rík matarhefð annarra landa er heillandi og eitt af því sem við sækjumst eftir á ferðalögum. Oft hefur það gleymst þegar ferðast er innanlands en metnaðarfullum veitingamönnum er að takast að opna huga og munna landsmanna fyrir öðru en skyndibita. Kaffi Hornið á Höfn í Hornafirði er meðal slíkra veitingahúsa og býður það besta úr hafinu matreitt á skapandi og gómsætan hátt.  Hjónin, Ingólfur Einasson og Kristín Óladóttir reka staðinn og auk fisksins og humarsins sem Hornafjörður er svo þekktur fyrir leikur sér að íslensku lambakjöti, kjúklingi og fjölbreyttu meðlæti. Humar Hornafjarðar er meðal vinsælli rétta á matseðlinum og súpan og salatbarinn í hádeginu einmitt sú hressing sem ferðalangar þurfa á langri dagleið.
En hvað finnst Ingólfi skemmtilegast að matreiða? „Fisk því hann er svo fjölbreytilegur. Humarinn einnig því hann veitir óendanlega möguleika. Mér finnst líka mjög gaman að fara á markaðinn velja sjálfur fiskinn fyrir daginn, koma með hann heim í eldhús og flaka hann sjálfur eða gera að honum á þann hátt sem ég kýs. Með því móti tryggi ég að hráefnið sé ævinlega það ferskasta sem völ er á.“

Heimabakað brauð og góðgæti úr héraði
Fleira er alltaf nýtt og ferskt á Kaffi Horninu því Ingólfur og starfsfólk hans, baka öll brauð sem boðið er upp á veitingastaðnum og ekki laust við að súpan bragðist betur þegar meðlætið er þetta heimabakaða góðgæti. Matseðillinn er fjölbreyttur og nautakjöt og lambakjöt úr héraði eru með sérrétta sem Ingólfur hefur þróað.
Hugmyndafræðin sem Kaffi Hornið starfar eftir er svokölluð Slow Food Movement. Það er alþjóðleg hreyfing sem snýst um Slow Food eða hægan mat. Hugsunin þar á bak við er að bjóða fram matvæli sem unnin eru með virðingu fyrir náttúrunni, sanngirni gagnvart vinnandi höndum sem að framleiðslunni koma og markmiðið er ekki fyrst og fremst að ná fram arðsemi. Þessi hreyfing spratt fram sem andsvar við hraða nútímalífs og skyndibitann sem var að verða helsta fæði nútímamannsins. Matvælaframleiðsla tekur tíma, eldun á að hæfa hráefninu og mikilvægt er að gefa sér tíma til að njóta matarins. Hreyfingin snýst ekki fyrst og fremst um nýungar heldur að hlúa að því sem er til staðar. Allt frumkvæði kemur frá einstaklingum sem fyrir eru og þeir móta stefnuna á hverjum stað. Matur í ríki Vatnajökuls er skemmtileg tilraun til að draga fram sérkenni þessa landshluta í matarhefðum og hvernig má nýta þá gnótt og gæði til að auðga upplifun ferðafólks um þetta magnaða landsvæði. Undir hinum stóra hvíta jökli er að finna auðugri hefðir en margan grunar og möguleikarnir á úrvinnslu aðeins takmarkaðir af ímyndunarafli þeirra sem fara höndum um matinn.

Frumlegir hamborgarar
Ingólfur lærði í tvö ár í Zermatt í Sviss og nýtir það besta úr matarhefðum þess fjöllótta lands til að krydda hefðbundna íslenska matargerð. Meðal annars má nefna að stökkar og gómsætar rösti kartöflur passa sérstaklega vel með íslensku nautakjöti eða hálfvilltu fjallalambi nýkomnu ofan af heiðum. Heimabakaðar kökur eru frábær eftirréttur og hressandi með kaffinu en vinsælasti eftirrétturinn á matseðlinum er svo ísinn frá Árbæ. Heimatilbúinn ekta rjómaís úr mjólk kúa sem ganga úti á sumrin. Lakkrís og súkkulaðibragðið þykir spennandi en sú hefð að blanda saman lakkrís og súkkulaði virðist séríslensk og fáar þjóðir sem hafa þróað þá bragðblöndu jafnvel og við. Ekki spillir að andrúmsloftið á Kaffi Horninu er einstaklega notalegt. Hlýlegur viðurinn og vingjarnleiki starfsfólksins hjálpa til við að bjóða gesti velkomna. Hér er ekkert ómögulegt og þeir sem kjósa hamborgara, pítsur, samlokur eða annan þekktan þjóðvegabita fá hann framreiddan með sérstöku handbragði kokksins og brosi frá framreiðslufólki.
„Hér er allt hornfirskt,“ segir Ingólfur að lokum. „Allt starfsfólkið, maturinn og hugvitið sem að baki býr.“

Kaffi Hornið
Hafnarbraut 42 • 780 Höfn í Hornafirði
+354 478 2600
kaffihornid@eldhorn.is
www.kaffihorn.is

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga