Greinasafni: Sveitarfélög
Ríki Vatnajökuls; paradís ljósmyndara, matgæðinga og náttúruunnenda

Paradís ljósmyndara, matgæðinga og náttúrunnenda
Ríki Vatnajökuls
Segja má með sanni að í Ríki Vatnajökuls sé að finna allt það sem ferðalangar sækjast  eftir. Á þessu víðfeðma svæði er að finna stórkostlega náttúru, spennandi afþreyingu og upplifun í mat og drykk sem skilar ekki síðri minningum en hið sjónræna. Ríki Vatnajökuls nær frá Lómagnúpi í vestri að Hvalnesi í austri og spannar rúmlega 200 km af hringveginum. Á þessu víðfeðma og fjölbreytta svæði er að finna ótal gönguleiðir, reiðleiðir, hálendisslóðir og aðgengilegar náttúruperlur sem heilla alla. Samgöngur eru með besta móti. Flug til Hafnar í Hornafirði sex daga vikunnar og daglegar rútuferðir yfir sumartímann. Þetta er eitt snjóléttasta svæði landsins og auðvelt að ferðast um það allt árið um kring. En Ríki Vatnajökuls snýst um fleira en náttúruna, það er einnig öflugur klasi  ferðaþjónustu-, matvæla- og menningarfyrirtækja á Suðausturlandi. Fjölbreytt gisting er í boði, tjaldsvæði, gistiheimili, hótel og fleira.

„Hér hefur byggst upp gríðarlega öflug ferðaþjónusta með úrvali valkosta í afþreyingu, mat og gistingu.,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Ríkis Vatnajökuls. „Fyrirtækin ákváðu að bindast samtökum undir merkjum Ríkis Vatnajökuls og eiga með sér samstarf um að bjóða upp á sem besta þjónustu fyrir ferðamenn á svæðinu. Hægt er að kynna sér valkosti á heimasíðu félagsins www.visitvatnajokull.is.“
Þar er líka finna þá viðburði sem lífga munu upp á tilveruna í sumar á þessum slóðum. Meðal þess sem þegar er í deiglunni er Humarhátíð 22.-24. júní og flugeldasýning við Jökulsárlón 25. ágúst. Þessar hátíðir eru báðar orðnar að föstum punktum í tilveru heimamanna og ferðafólks og sífellt fleiri sækja þá.

Paradís ljósmyndara
Ægifögur náttúra gerir Ríki Vatnajökuls að ljósmyndaparadís. Svæðið hefur að geyma fjölmargar náttúruperlur á borð við Jökulsárlón, Skaftafell, Svartafoss, Lónsöræfi, Ingólfshöfða auk ótalmargra annarra. Þessi svæði skapa ljósmyndurum tækifæri til að láta reyna á sjónarhorn og sköpunargleði en þá draga ekki síður að litagleði náttúrunnar í bergmyndunum í fjöllum, steinar og fjölbreytilegur gróður. Kyrrðin utan alfaraleiða ratar síðan sterk inn í myndirnar svo áhorfandinn skynjar friðsæld þessa svæðis sem mótast hefur af ósigrandi og miskunnarlausum öflum náttúrunnar.

Vatnajökull er stærsti jökull í heimi utan heimskautasvæðanna og nú hefur verið skapaður stærsti þjóðgarður í Evrópu um áhrifasvæði hans. Ríki Vatnajökuls nær yfir suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs en það er aðgengilegasti hluti jökulsins.  Heimsókn í Jöklasetrið á Höfn gefur einstaka innsýn í þessa frosnu veröld og áhrif hennar á nánasta umhverfi sitt. Í Skaftafelli má síðan komast í návígi við jökulinn en þar er að finna gönguleiðir við allra hæfi auk gestastofu þjóðgarðsins sem er opin allan ársins hring. Yfir öllu vakir Hvannadalshnjúkur,  hæsti tindur landsins og geisivinsæl fjallgönguleið. 

Menning, fuglar, jöklafjör og fleira gott

Fjölskrúðugt fuglalíf dregur að hópa fuglavina á hverju ári. Öræfasveitin er stærsta skúmabyggð á norðurhveli jarðar og ótal tegundir fugla verpa á svæðinu. Við Höfn í Hornafirði er einnig mikill sælureitur fuglaskoðara því þangað koma árlega fiðraðir flækingar á leið sinni til annarra landa. Á heimasíðu Ríkis Vatnajökuls er að finna bækling þar sem merktir eru áhugaverðir staðir til fuglaskoðunar. Fyrir jarðfræðiáhugafólk væri þá ekki úr vegi að skoða einnig bækling um heillandi jarðfræði þessa svæðis og skoða kort sem bendir á helstu staði.

Fjölbreyttir möguleikar til afþreyingar og skemmtunar bjóðast einnig og má nefna að á Höfn er frábær sundlaug með þremur rennibrautum. Vönduð göngukort sem hægt er að kaupa á svæðinu gefa möguleika á að ferðast á eigin vegum en einnig er hægt að taka þátt í skipulögðum gönguferðum hjá Ferðafélagi Austur-Skaftafellssýslu.  Húsdýragarðurinn í Hólmi veitir börnum og fullorðnum ánægju og í Hoffelli er hægt að hvíla lúin bein í heitum potti eftir skemmtilegar göngur eða fara í fjórhjólaferð um fáfarnar slóðir.
Vélsleðaferðir upp á sjálfan Vatnajökul eða ferðir í jöklajeppum gleymast seint þeim sem reynir og sömu sögu er að segja af jöklagöngum, íshellaskoðun eða ísklifri utan í frosnu jökulstálinu. Ferðir út í Ingólfshöfða á heyvagni til að kynnast nánar fiðruðum íbúum þessa lands og fræðast um sögu landnáms eru spennandi og skemmtilegar og hið sama má segja um skoðunarferðir á bátum frá Hornafirði eða útsýnisflug yfir þetta ævintýraland. En vélknúin ökutæki eru ekki eini ferðamöguleikinn. Hestaleigan í Árnanesi býður  þann möguleika að njóta samveru við íslenska hestinn.  Enginn ætti svo að láta hjá líða að kíkja við á Þórbergssetri á Hala í Suðursveit og njóta ritfærni og hnyttni meistara orðsins, Þórbergs Þórðarsonar.

Veitingastaðir í Ríki Vatnajökuls leggja áherslu á að bjóða upp á mat sem er framleiddur á svæðinu og metnaður veitingamanna gerir það að verkum að fá svæði á landinu bjóða upp á viðlíka sælkeraveislu. Höfn er fræg fyrir humar og ekki að ósekju að talað er um humarbæinn.“ Humarréttir, fiskur, íslenskt lambakjöt og nautakjötsafurðir eru á matseðlum veitingastaða og allir sem kunna að meta góðan mat ættu að koma við á t.d. Humarhöfninni, Ósnum á Hótel Höfn, Kaffi Horninu eða Pakkhúsinu. Ekki spillir að hægt er að skola niður matnum með Vatnajökli, bjór sem er sérstaklega framleiddur fyrir veitingastaði í Ríki Vatnajökuls. Bjórinn er bruggaður úr ísjökum úr Jökulsárlóni og blóðbergi. Já, þetta er sannarlega draumaland ferðamannsins.

Ríki Vatnajökuls

Litlubrú 2 • 780 Hornafirði
+354 470 8080
info@visitvatnajokull.is
www.visitvatnajokull.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga