Greinasafni: Veitingar
Hótel Aldan, Fullkominn staður á hjara veraldar
Hótel Aldan, Seyðisfirði
Fullkominn staður á hjara veraldar

Einn glæsilegasti fjörður landsins blasir við eftir 26 kílómetra ökuferð frá Egilsstöðum.  Stórfenglegt útsýni bætir fyrir akstur á bröttum vegaköflum og  ljósmyndarar mega hafa sig alla við bak við linsuna. Seyðisfjörður býður okkur velkomin. Seyðisfjarðarkaupstaður hefur  á síðastliðnum árum getið sér gott orð fyrir fjölskrúðugt menningarlíf en þar er árlega haldin Listahátíðin Á seyði,  sumartónleikaröðin Bláa kirkjan og LungA (Listahátíð ungs fólks, Austurlandi).  Á Seyðisfirði má finna menningarmiðstöðina  Skaftfell sem stendur fyrir öflugu sýningarhaldi allt árið, gestavinnustofum fyrir listamenn,  kaffistofu/bókasafni með áherslu á myndlist og þess má einnig geta að í kaupstaðnum er eina starfandi kvikmyndahúsið á Austurlandi.
Seyðisfjörð prýða heilleg og falleg timburhús frá aldamótunum 1900, en þau setja sterkan svip á bæinn. Í þremur þessara húsa ræður Hótel Aldan ríkjum, þekkt fyrir fyrsta flokks gistingu og veitingar. Gaman er að þekkja sögu hótelsins, en mikil áhersla hefur verið lögð á að viðhalda sögulegum anda hússins  þó nútíma þægindi séu í fyrirrúmi.  Fagmannlegur veitingastaðurinn og móttakan eru í gömlu verslanahúsnæði og má sjá upprunalegar innréttingar víða.

Stjörnubjartar nætur
Gistiaðstaðan státar af yfirráðum tveggja húsa, gamla Landsbankanum og gömlu pósthúsi og hefur eigendunum tekist sérstaklega vel til með innréttingar og aðbúnað herbergjanna.  Danskir innfluttir antíkmunir og indverskur húsbúnaður  vefja mann örmum sínum á einkar skemmtilegan hátt og fá gesti til að gleyma stund og stað, ekki síst þegar hægt er að njóta stjörnubjartrar nætur í gegnum þakglugga ofan við rúmstæðið. Glæsileg herbergin bera yfirbragð gæða og góðrar, látlausrar nærveru.  Tekið er tillit til fjölskyldustærðar, en vegna sveigjanlegrar hönnunar er hægt að nýta sum herbergin þannig að þau myndi "svítur" eða herbergi fyrir 4 til 6 persónur, án þess að bæta við auka rúmum.

Fengur dagsins
Gratineraður geitaostur , truffluolía, ítalskt kaffi, hvítt damask og kristall er ef til vill ekki það sem kemur fyrst í hugann þegar einn afskekktasti  fjörður  landsins er heimsóttur, en Hótel Aldan er ekki þekkt fyrir minna. Í hádeginu og á kvöldin gleðja sólkoli, lúða, lax og humar  bragðlaukana til móts við villibráð, svo eitthvað sé nefnt, og njóta margir réttanna góðs af grösugum fjöllum nærsveita. Villtir sveppir og ber eru notuð eftir árstíma en á matseðli veitingastaðarins er áhersla lögð á austfirskt hráefni, íslenskar jurtir og lífrænt ræktað grænmeti frá Vallanesi á Héraði.  Kaffihúsið er opið daglega til klukkan 17, en þar geta gestir notið góðs af ítölsku kaffi, úrvals kökum auk minni rétta.

Hægt er að sérpanta humar og hreindýraveislur auk þess að uppfylla nær allar séróskir frá gestum þegar bókað er fyrirfram. Persónuleg þjónusta setur svip sinn á allt umhverfi og augljóst er að mikill metnaður býr að baki öllu sem viðkemur reksti hótelsins.

Dásamlegt er að njóta þess sem Hótel Aldan hefur upp á að bjóða, fullkominn staður á hjara veraldar.

Hótel Aldan
Norðurgata 2 • 710 Seyðisfjörður
+354 472 1277
hotelaldan@simnet.is
www.hotelaldan.com

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga