Greinasafni: Veitingar
Volcano House, glóandi kaffihús

Volcano House
Glóandi kaffihús

Svæðið við Miðbakkann og gömlu höfnina verður sífellt líflegra. Handverksfólk hefur komið sér fyrir á þessu svæði og áhugaverð veitingahús spretta upp. Eitt það skemmtilegasta er Volcano House, einstaklega notalegur staður þar sem menn geta sameinað jarðfræðiáhugann og matarástina á frábæran hátt. Eigendur Volcano House er fjögur systkini upprunnin í Vestmannaeyjum, Þórir, Svavar, Dagbjört Guðrún og Hörður Gunnarsbörn. Þótt þau hafi flutt burtu áður en gosið hófst 23. janúar 1973 bjó allt þeirra móðurfólk í Eyjum. Hugsanlega varð þetta kveikjan að jarðfræðiáhuga þeirra en ástin á íslenskri náttúru og fróðleiksfýsn hvað varðar mótun landsins var ástæða þess að þau ákváðu að opna þetta sérstæða kaffihús. „Systkini mín eru öll fædd í Vestmannaeyjum,“ segir Hörður. „Ég fæddist hins vegar á Sólvangi en þótt við höfum verið flutt burtu missti nánast allt mitt móðurfólk húsin sín undir hraun. Hús afa og ömmu er undir hrauni og leiksvæði okkar systkinanna. Flestar mínar minningar frá Eyjum eru tengdar landi sem nú er horfið.“

Sannkallað fjölsk
yldufyrirtæki
Hörður og Þórir, sjá að mestu um daglegan rekstur Volcano House. Svavar og Dagbjört eiga hlut í fyrirtækinu og kona Þóris sér um allan bakstur fyrir kaffihúsið. En fjölskyldan er öll meira og minna boðin og búin að hjálpa og nefna má að Haraldur, sonur Harðars vinnur við uppvaskið. Þetta er ekta fjölskyldufyrirtæki þar sem samheldni og sameiginlegur áhugi drífur fólk áfram.  Volcano House er staðsett á horni Tryggvagötu og Geirsgötu og stórir gluggarnir opna útsýn gesta til allra átta. Þarna er hægt að sitja og njóta heimabakaðs sælgætiskaffibrauðs meðan mannlífið í borginni streymir hjá fyrir utan gluggann. En svo má líka nota tímann til að fræðast og kynnast einhverju nýju. Tvær frábærar heimildarmyndir eru sýndar í kvikmyndasal kaffihússins, önnur um Vestmannaeyjagosið en hin um Eyjafjallajökulsgosið. Atburðir sem áttu sér stað með 37 ára millibili og ógnuðu fólkinu í landinu hvor á sinn hátt en betur fór en áhorfðist í báðum tilfellum.
Glæsilegt steinasafn
Steinasafnið í Volcano House er ekki síður þess virði að skoða. Þarna eru ótal fallegar steindir úr íslenskri náttúru. „Hluta af steinasafninu eigum við bræðurnir og hluta höfum við að láni,“segir Hörður. „Árum saman höfum við arkað upp um fjöll, klifið kletta og skriðið skriður í leit að fallegum steinum. Við erum stöðugt að safna sýnum og þekkingu til að gera safnið  áhugaverðara. Auk þess erum við með jarðfræðimenntað starfólk, þannig að gestir geta fengið svör við spurningum sínum. En það eru ekki bara eldgos og náttúruhamfarir sem heilla á Volcano House. Húsgögnin eru skandinavísk hönnun frá sjötta áratug síðustu aldar en þá stóð húsgagna- og húsbúnaðarsmíð í miklum blóma bæði hér á landi og á öðrum Norðurlöndum. Lítil gjafabúð kórónar svo upplifunina og er í raun alveg nauðsyn í þessu skemmtilega samblandi af lifandi safni og veitingahúsi. 

Volcano House
Tryggvagata 11 101 Reykjavík
+354 555 1900
info@volcanohouse.is
www.volcanohouse.is

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga