Lystigarður Akureyrar

Lystigarður Akureyrar
Lifandi Plöntusafn undir berum himni

Það sem af er sumri, hefur verið einmuna blíða á landinu – og það má með sanni segja að Lystigarðurinn á Akureyri skarti sínu alla fegursta. Þeir sem eiga ferð um norðurland, ættu fyrir alla muni að gera hlé á keyrslu og dekra við augu, nef og eyru í garðinum fræga – einkum þar sem nú er einnig hægt að dekra við bragðlaukana í leiðinni. Einkum þeir sem verða á ferðinni 29. júní en þá verður 100 ára afmælis garðsins minnst.

Það var árið 1909 sem fjórar frúr á Akureyri létu sameiginlegan draum rætast: Að setja á laggirnar lystigarð fyrir almenning þar sem bæjarbúar ættu þess kost að dvelja sér til hressingar og ánægju eða eins og þær komust að orði „...bærinn þarf að eignast stóran skemmtigarð þar sem öllum er leyft að dvelja hvenær sem er.   Þessar konur voru þær Anna Stephensen, Alma Thorarensen, María Guðmundsson og Sigríður Sæmundsen. Þær rituðu bréf til bæjarstjórnar og sóttu um að fá landspildu undir skrúðgarð. Svar bæjarstjórnar var jákvætt og fengu þær úthlutað 4 engjadagsláttum á Eyrarlandsholti.

Strax sumarið 1910 byrjuðu konurnar að girða, planta út trjám og runnum. Árið 1911 voru lagðir stígar og þeir malarbornir og einnig var þá grafinn brunnur neðst í hvamminum sem var 10 fet á dýpt og 3 fet að þvermáli. Þangað sóttu konurnar vatn til að vökva nýgræðinginn. Allt var unnið á höndum því öll þau tæki og tól sem við þekkjum í dag voru ekki til á þeim tíma. Þær notuðust aðallega við hjólbörur, fötur og handskóflur. Þegar fundargerðarbók Lystigarðsfélagsins er handfjötluð geislar hreinlega frá henni atorkunni og kraftinum sem lá að baki því að reisa lystigarð og halda honum við. Það má svo sannarlega segja að það er eitt að fá hugmyndina og annað að framkvæma hana. Mikið var í húfi, það þurfti að sýna bæjarstjórninni að hugmynd um almenningsgarð voru ekki orðin tóm. Bæjaryfirvöld áttu ekki að iðrast þess að hafa veitt þeim landið.

Á haustdögum 1912 var garðurinn formlega opnaður. Fyrst í stað var hann aðeins opinn eftir hádegi á sunnudögum. Öll starfsemi Lystigarðsins var fjármögnuð með vinnuframlagi félagsmanna, skemmtunum af ýmsu tagi, tombólum og kökusölu. Félagar greiddu árgjald sem var 2 kr. til að byrja með en þeir sem gerðust ævifélagar greiddu 10 krónur. Lystigarðurinn var rekinn af Lystigarðsfélaginu allt til ársins 1953. Þá var félagið lagt niður og Akureyrarbær tók þá formlega við rekstrinum og hefur rekið hann síðan. Auglýst var formlega eftir umsjónarmanni 1954 en enginn sótti um stöðuna. Jón Rögnvaldsson tók þá garðinn undir sinn verndarvæng með því skilyrði þó að byggð yrði kaffistofa og gróðurhús.

Grasagarðurinn  var stofnaður 1957. Fegrunarfélag Akureyrar hafði þá forgöngu um að plöntusafn Jóns Rögnvaldssonar í Fífilgerði var keypt til bæjarins og komið fyrir í Lystigarðinum.  Grasagarðurinn er því elsti grasagarður landsins og einn nyrsti grasagarður í heimi. Flestar tegundir sem ræktaðar eru í garðinum eiga sinn náttúrulega uppruna á heimskautasvæðum, norðlægum slóðum eða í háfjöllum víða um heim. 1
Allar götur síðan hefur garðurinn verið rekinn sem grasagarður og almenningsgarður og engan aðgangseyri þarf að borga. Helstu markmið með rekstrinum eru fjölmörg. Eitt mikilvægasta hlutverkið er að finna með prófunum, fallegar, harðgerar tegundir fjölæringa, trjáa og runna sem henta íslenskum aðstæðum. Garðurinn er þannig eins konar genabanki fyrir þær tegundir sem þrífast á norðlægum slóðum. Þar að auki er hann notaður til afþreyingar og nýtist almenningi til fróðleiks og skemmtunar.

Lystigarður Akureyrar
Eyrarlandsstofa • 600 Akureyri
+354 462 7487
bjorgvin@akureyri.is
www.lystigardur.akureyri.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga