Greinasafni: Sveitarfélög
Skagaströnd
Skagaströnd
Vagga íslenska kúrekans
Skagaströnd sker sig á ýmsan hátt frá öðrum þéttbýlisstöðum á Íslandi. Umsvifalaust tengja margir staðinn við kántrýtónlist og kúreka norðursins, Hallbjörn Hjartarson. Skagaströnd er einnig þekkt fyrir sjávarútveg og í langan tíma hafa verið gerðir út þaðan aflasælir togarar.
En Skagaströnd hefur upp á svo ótal margt fleira að bjóða en sveitasöngva og fiskerí, þótt vissulega setji hvoru tveggja svip sinn á plássið. Þar má una við leik og störf svo dögum skiptir, einkum þeir sem njóta útiveru og hreyfingar. Sundlaug og líkamsræktaraðstaða er góð, gönguleiðir margar og fjölbreyttar – og svo er það golfvöllurinn... Rétt svona ýkjulaust, verður hann að teljast með fallegustu golfvöllum á landinu, þar sem hann blasir við Strandafjöllunum handan Húnaflóans og sólsetrinu eins og það gerist fegurst. Ekki dónalegt að spila níu holur í kvöldkyrrðinni áður en lagst er til svefns. Á Skagaströnd eru líka söfn og hús með sögu og þótt plássið sé ekki við þjóðveg númer eitt, er vel þess virði að beygja út af vananum rétt norðan við Blönduós og keyra þá 23 kílómetra sem þangað liggja.

Arfur spákonunnar
En byrjum á Spákonufellinu, bæjarfjalli Skagstrendinga og höfuðprýði staðarins. Sagan segir að undir þessu fjalli hafi landnámskonan Þórdís spákona byggt sinn bæ. Hún var talin mikill höfðingi. Þegar hún tók að gamlast fór Þórdís með auðævi sín í kistu einni mikilli upp í Spákonu fellsborg og setti hana þar á klettasyllu. Hún lagði svo á að engin kona gæti eignast fjársjóðinn nema sú sem hvorki væri skírið í nafni heilagrar þrenningar né nokkur góður guðstitill kenndur. Slíkri konu myndi auðnast að sjá kistuna þar sem aðrir sæju bergið eitt. Kæmu þá hrafnar tveir með lykilinn að kistunni. Fjölmargar gönguleiðir eru um Spákonufell og hefur þegar verið gefið út kort af þeim. Þaðan er geysilega mikil og fögur fjallasýn, auk þess sem leiðirnar sjálfar eru skemmtilegar. Flestar leiðir um Spákonufell tengjast og hægt og er hægt að fylgja þeim, annað hvort að golfvellinum eða skíðaskálanum. Fjallið er skíða- og vélsleðafólki á veturna. Á Skagaströnd er starfandi Menningarfélagið Spákonuarfur sem stendur fyrir ýmsum menningarverkefnum tengdum Þórdísi spákonu. Spákonuhof var opnað á Skagaströnd sumarið 2011. Hofið er sýning um Þórdísi spákonu sem er fyrsti nafngreindi íbúi Skagastrandar en einnig geta gestir látið spá fyrir sér með lófalestri, í kaffibolla og í rúnir. Þórdís spákona er Skagstrendingum mikilvæg og má segja að hún sé allt í kringum bæinn.

Kántríbær
Tónlistar- og útvarpsmanninn Hallbjörn Hjartarson þarf vart að kynna en hann hefur gert Skagastrandargarðinn frægan með sveitasöngvum sínum og hefur með réttu verið kallaður kúreki norðursins. Hallbjörn er fæddur 5. Júní 1935 og hefur gefið út fjölmargar plötur sem allar eru löngu uppseldar og fágætir minjagripir. Edda miðlun gaf fyrir nokkru út geisladisk sem nefnist Kúrekinn, til heiðurs Hallbirni. Á henni leika landskunnir tónlistarmenn lög Hallbjörns í eigin útsetningum. Hallbjörn á stóran þátt í að kynna Skagaströnd fyrir öðrum landsmönnum og var sem kunnugt er upphafsmaður Kántrýhátíðanna sem þar eru haldnar á hverju ári.
Hallbjörn rak, fyrr á árum verslun í gömlu húsi sem stóð þar sem Kántrýbær stendur núna. Dag einn skellti hann þó versluninni í lás og opnaði þess í stað veitingastað í húsinu og kallaði Kántrýbæ. Það hús brann árið 1997 en með dyggum stuðningi landsmannaði tókst Hallbirni að reisa nýjan Kántríbæ sem var opnaður í júní 1998.
Nýja húsið er bjálkahús og auðþekkt af útliti sínu. Kántrýbær hefur frá upphafi kappkostað að bjóða upp á almenna rétti eins og steikur og fiskrétti, auk ýmissa smárétta eins og hamborgara og pizzur – og að sjálfsögðu er kántrýstíll á matseðli og réttum. Ekki lét þó Hallbjörn þar við sitja, heldur stofnaði hann Útvarp Kántrýbæ í nóvember 1992. Stöðin næst frá Holtavörðuheiði og langleiðina til Akureyrar. Í Húnavatnssýslu er útsendingartíðnin  96.7 og í Skagafirði 102.1.

Kántrýdagar eru yfirleitt haldnir um miðjan ágúst ár hvert. Þá gera Skagstrendingar sér heldur betur dagamun og skemmta sér við söng og dans, ásamt unnendum sveitatónlistar sem auðvitað flykkjast í þetta fallega pláss til að gera sér glaða daga.

Góð aðstaða fyrir ferðalanga
Tjaldsvæðið Skagastrandar er mikill unaðsreitur. Það er staðsett á skjólsælum og rólegum stað efst á Bogabraut og horfir á móti sólu. Í miðju svæðisins er gamall bæjarhóll þar sem bærinn Höfðahólar stóðu. Svæðið er í fallegu umhverfi og nýtur skjóls til norðurs og austurs af lágum klettahólum sem kallaðir eru Hólaberg.
Runnar skipta svæðinu upp í nokkra reiti sem skapa þægileg umhverfi fyrir tjöld, húsbíla, hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna. Rafmagnstenglar eru á nokkrum stöðum. Á svæðinu er góð aðstaða fyrir börn, spennandi umhverfi og leiktæki af ýmsu tagi.  Í þjónustuhúsinu eru vatnssalerni, þvottavél og aðstaða til að matast innanhúss fyrir þá sem það vilja og vaskur til uppþvotta. Þar má einnig fá margvíslegar upplýsingar fyrir ferðamenn. Framar öllu ber að nefna tvo veglega bæklinga um gönguleiðir á Spákonufellshöfða og á fjallið Spákonufell.
Sundlaugin á Skagaströnd er vestast í bænum, örskammt frá Spákonufellshöfða. Laugin er útilaug, lítil og notaleg. Hún er sex metrar á breidd og tólf á lengd og hituð með rafmagni. Þetta er lítil en snyrtileg sundaðstaða með góðum búningsklefum og sturtum. Sundiðkendur og gestir geta nýtt sér hana ómælt á opnunartíma. Landsfræg er orðin sú hefð að gestum í heita pottinum er færður kaffisopi. Íþróttahúsið á Skagaströnd var tekið í notkun árið 1988 og er glæsilegt í alla staði. Í húsinu er líkamsræktarsalur, vel búinn tækjum, ásamt gufubaði og ljósabekkjum. Þar er því kjörin aðstaða til að láta líða úr sér eftir göngur á Spákonufellið.

Menningararfurinn í Árnesi
Húsið sem geymir þetta einstaka safn er elsta húsið á Skagaströnd, byggt árið 1899. Húsið ver gert upp 2008-2009 og er 34 fermetrar að stærð, auk bíslags. Árnes er fallega staðsett á svæði sem sveitarstjórn hefur skilgreint sem safnasvæði. Í næsta nágrenni er Bjarmanes, gamalt verslunar- og skólahús sem byggt var árið 1912. Sveitarfélagið lét gera húsið upp og var það tekið í notkun árið 2004 eftir miklar endurbætur. Þessi tvö hús mynda skemmtilega heild og eru áþreifanleg tenging við liðna tíð.
Árnes er lifandi dæmi um aðstöðu og lifnaðarhætti á fyrri hluta 20. aldar. Húsið er dæmigert timburhús frá þessum tíma og hið eina þessarar gerðar sem mögulegt var að varðveita á staðnum. Gildi þess er mikið, ekki síst fyrir það að innviðir eru að stærstum hluta upprunalegir. Húsið er búið húsgögnum og munum úr Muna- og minjasafni Skagastrandar, lánshlutum og jafnvel búnaði úr eigu fyrri íbúa hússins. Leitast hefur verið við að hafa húsið að innan líkast því sem íslensk heimili voru í byrjun 20. aldar. Gamlar myndir frá því um aldamótin 1900 sýna ágætlega hvernig húsið var í upphafi.

Veiði uppi á heiði
Skagaheiði er náttúruperla sem lætur lítið yfir sér á landakorti en býr yfir náttúrutöfrum og fjölmörgum útivistarmöguleikum. Þegar kemur norður fyrir Skagastrandarfjöll er landslagið tiltölulega lágt og einkennist af klettaborgum og ávölum ásum sem mótast hafa af framskriði ísaldarjökuls. Inn á milli hefur jökullinn skilið eftir lægðir og hvilftir í landslagið þar sem sitja tjarnir og vötn sem mörg eru full af iðandi lífi, veiðivötn. Veiði er víða góða á Skaga en aðgangur að vötnunum misjafnlega góður. Að sumum vatnanna er akfært öllum bílum að öðrum er jeppavegur og að enn öðrum verður einungis farið á tveimur jafnfljótum með mal sinn og annan búnað í bakpoka. Í bæklingi sem hefur verið gefinn út um veiðina er safnað grundvallarupplýsingum um veiðivötnin á Skaga. Í honum er að finna hverjir selja veiðileyfi, hversu langt er að vatni frá Skagaströnd, aðkoma að vatninu, stærð þess og ekki síst hvers konar veiði er von. Í bæklingnum er kort af Skaga og þar má finna helstu leiðir, örnefni, jarðamörk og mörk almenninga. Í ritinu er að finna upplýsingar um nærri fjörtíu vötn. Gott kort fylgir og á því eru dregin jarðarmörk svo enginn þurfi að villast um eignarhald á vötnunum en það segir oftast til um hvar leita eigi eftir veiðileyfum.

Þjóðvegur hinn nýi
Síðast en ekki síst ber að vekja athygli á því að nokkru sunnan við Skagaströnd á leiðinni til Blönduóss liggur nýlegur malbikaður vegur í gegnum Norðurárdal til Sauðárkróks. Þeir sem ætla að leggja leið sína til heim að Hólum, til Hofsóss eða Siglufjarðar, stytta sér töluvert leiðina með því að aka Norðurárdalinn. Vegurinn er beinn og breiður og jafnvel þótt ferðinni sé ekki heitið á Tröllaskagann, heldur eitthvað austar er ekki tekur ekki lengri tíma að keyra þessa leið en í gegnum Langadalinn – og útsýnið þegar komið er niður af heiður Norðurárdals, hvort heldur er Húnaflóamegin eða Skagafjarðarmegin, er ógleymanleg.

Sveitarfélag Skagastrandar
Túnbraut 1-3 • 545 Skagaströnd
+354 455 2700
skagastrond@skagastrond.is
www.skagastrond.is

Kántrýbær á Skagaströnd
Hólanesvegur 11 • 545 Skagaströnd
+354 452 2829
kantry@kantry.is
www.kantry.is

Upplýsingar um Spákonuhof má finna hér;
www.skagastrond.is/spakonuarfur.asp

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga