Selasetur Íslands

Selasetur Íslands

Selurinn með augum mannsins
Selasetur Íslands var stofnað árið 2005 í þeim tilgangi að standa að auknum rannsóknum  á selum við Ísland og uppfræða almenning um tengsl manns og sels á Norðurslóðum. Áður fyrr var selurinn nytjaður og skinnið af honum nýtt í klæði en hann hefur ávallt vakið bæði áhuga og aðdáun. Selurinn er eitt liprasta og fallegasta sjávardýrið og um hann hafa skapast ótal þjóðsögur og ævintýri, bæði hér á landi og annars staðar þar sem þá er að finna. Selurinn hefur mannsaugu var viðkvæði eldra fólks og þjóðtrúin taldi að selsmeyjar gengju á land og köstuðu hamnum við sérstakar aðstæður. Menn gátu þá laumast að þeim, stolið hamnum og gert þær að eiginkonum sínum. Slíkar konur áttu hins vegar erfitt með að festa yndi á landi og gæta varð þeirra vel.

Selaskoðun og upplýsingar
En hvort líkur séu á að nokkur móðir verði að velja milli barnanna sinna sjö á landi og í sjó skal ósagt látið en víst er að selir eru áhugaverðar skepnur sem margt má læra um á Selasetri Íslands. Það er staðsett á Hvammstanga á Vatnsnes þar sem ein aðgengilegustu sellátur Evrópu er að finna. Á þessum slóðum er auðvelt að nálgast selinn og fylgjast með hegðun hans og kynna sér lífshætti sela. Við Ísland kæpa tvær selategundir, landselur og útselur en farselum á borð við blöðrusel, kampsel og hringanóra má sjá bregða fyrir af og til. Rostungar eru afar sjaldgæfir við Ísland en örnefni benda til að þeir hafi verið algengari fyrr á öldum.

List tengd selnum
Á selasetrinu eru sýningar og fræðsla um selina og mikilvægi þeirra fyrir afkomu fólks í landinu. Árlega eru opnaðar sérsýningar tengdar selnum og í ár er þar sýning á selaljósmyndum Péturs Jónssonar. Frá setrinu má halda á selaslóðir á Vatnsnesi og njóta selaskoðunar og þess fjölbreytta og áhugaverða fuglalífs sem þar er að finna. Selasetur Íslands er frábær viðbót við ferðaþjónustu hér á landi og fengur að þeirri rannsóknavinnu sem þar fer fram.

Selasetur Íslands
Brekkugötu 2 • 530 Hvammstanga
+354 451 2345
selasetur@selasetur.is
www.selasetur.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga