Greinasafni: Sveitarfélög einnig undir: Hótel og gisting
Steindórsstaðir

Steindórsstaðir

Ekta bændagisting á Steindórsstöðum
Steindórsstaðir í Reykholtsdal er notaleg bændagisting í næsta nágrenni við nokkrar helstu náttúruperlur Borgarfjarðar. Það er kjörið að eiga sér bækistöð í hlýlegu og fallega endurnýjuðu íbúðarhúsi frá árinu 1937 og ferðast þaðan um Borgarfjarðardali og upp á hálendi. Gamla húsið var byggt eftir að torfbærinn sem þarna var brann en Steindórsstaðir hafa verið í eigu sömu fjölskyldu frá árinu 1828. Mjög þurrt hafði verið áður en eldurinn kviknaði og því gekk erfiðlega að ráða niðurlögum hans. Heimilsfólk missti þess vegna nánast allt í brunanum. Það eina sem tókst að bjarga var spariklæðnaður og eitthvað af munum úr betri stofunni.

Dýrin gleðja ferðamenn
Enn er rekinn blómlegur búskapur á Steindórsstöðum. Þrjátíu kýr eru í fjósi, hestar í túnum og kindur á fjalli. Hundarnir tveir eru ferðamönnum til ánægju og gleði, enda gestrisnir og vinalegir að hætti íslenskra sveitahunda. Kisa býr í fjósinu og er ekki eins félagslynd. Hún sést sjaldnast allt sumarið en hin dýrin bæta það upp. Við bæinn er einnig verið að byggja upp nytjaskóg og gestir á bænum njóta kyrrðar og friðar á göngu um skóginn. Áður en hafist var handa við ræktun skógarins var þar fyrir Imbugarður en fyrsta tréð í þeim garði var gróðursett árið 1944 af Ingibjörgu Pálsdóttur húsfreyju á Steindórsstöðum. Hún var áhugakona um ræktun og sinnti vel um garðinn sinn. Svolítil kornrækt er einnig á Steindórsstöðum og þurrkað kornið notað til að fóðra kýrnar. Á afrétti bæjarins er svo veiðivatnið Sandvatn, fullt af spriklandi silungi, en þar sem að svolítið erfitt getur verið að komast þangað er ekki nægilega mikið veitt í vatninu.

Falleg gönguleið um Rauðsgil
Rétt fyrir ofan bæinn er svo gljúfrið, Rauðsgil. Áin fellur þar í ótal fallegum fossum og meðfram gilinu er skemmtileg gönguleið sem gefur færi á að skoða þá alla. Samnefnt býli stendur við gilið og þar fæddist Jón Helgason skáld. Kvæði hans Á Rauðsgili lýsir staðháttum þarna einkar vel og er skemmtilegur undirbúningur fyrir dvöl á staðnum.

Steindórsstaðir

Reykholti • 320 Borgarfirði
+354 435-1227
steindorsstadir@steindorsstadir.is
www.steindorsstadir.is  

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga