Café Sumarlína

Café Sumarlína

Krásir í fjarðarbotni og dalsmynni
Café Sumarlína er skemmtilegt lítið kaffi- og veitingahús á Fáskrúðsfirði sem býður upp á kakó og kaffi og mikið úrval af tertum og kökum, auk þess að vera með fjölbreyttan matseðil. Eigandi Café Sumarlínu er Óðinn Magnason en hann hefur þó ekki rekið staðinn frá upphafi. „Þetta fyrirtæki er stofnað árið 2000 af ungum systrum að sunnan sem fundu hér gamalt hús og gerðu upp sem kaffihús. Þær ráku þetta sem sumarkaffihús frá 2004 til 2006. Þá kaupi ég fyrirtækið og húsið af þeim,“ segir Óðinn sem hefur alla tíð búið á Fáskrúðsfirði. Árið 2006 hafði hann verið verkstjóri í Fiskimjölsverksmiðjunni í tuttugu og fimm ár og söðlaði þá óvart um.

En hvernig kom það til? „Það var nú þannig að árið 2006 var kosningaár.1 Ég hringdi í þær systur og spurði hvort þær væru ekki til í að opna húsið um kosningahelgina til að halda kosningavöku. Þær héldu það nú en sögðust vera að auglýsa þetta til sölu. Ég sagði þeim blessuðum að vera ekki að því, ég myndi bara kaup þetta af þeim. Í maí hringdu þær og báðu mig að sækja sig í flug á Egilsstaði sem ég og gerði. Þegar við hjónin mætum á kosningavökuna um kvöldið, taka þær á móti okkur og vilja endilega sýna okkur húsið. Ég spurði hvort þær hefðu ekki verið að auglýsa það til sölu, en þær sögðust hafa hætt því vegna þess að þær ætluðu að selja okkur það. Við slógum til og opnuðum í júlí, viku fyrir Frönsku dagana hér. Hentum okkur bara út í pottinn og nú eru liðin sex ár – eins og í sögu.“

Café Sumarlína var kaffihús og þannig ætluðu Óðinn og eiginkona hans að reka það áfram. „Svo voru liðnar einhverjar vikur eða mánuðir og ég hringi niður eftir og spyr konuna hvort hún geti ekki farið í kaupfélagið og eldað mat. Það var auðsótt mál en þegar ég kom niður eftir til að borða var hún búin að selja matinn. Þá fórum við að pæla í því hvort ekki væri sniðugt að reka þetta sem veitingastað og höfum gert það síðan – á ársgrundvelli.“

Í dag eru pizzur og smáréttir á matseðlinum. Einnig aðalréttir þar sem Eftirlæti Joes er vinsælastur, enda hannaður úr rækjum, krabbakjöti, hörpuskel, rjómaosti, grænmeti og rjóma og borinn fram í baguette brauði. Auðvitað eru svo fleiri fiskréttir og lambakjötsréttir. Í hádeginu og flest kvöld yfir sumartímann er líka boðið upp á rétt dagsins. Á Café Sumarlínu er líka tertuskápur og boðið er upp á belgískar vöfflur, frá 10.00 á morgnana til 22.00 á kvöldin – en eldhúsið lokar klukkan 21.00. Sjálft húsið er skemmtilega staðsett innst í þorpinu, við smábátahöfnina, með útsýni inn allan dalinn og út allan fjörðinn. Það er því varla hægt að komast hjá því að njóta matarins, útsýnisins og veðurblíðunnar sem einkennt hefur þetta sumar. Nú, svo er bara að njóta annarra veðra á veturna.

Café Sumarlína
Búðavegi 59 • 750 Fáskrúðsfirði
+354 475 1575
sumarlina@simnet.is
www.sumarlina.123.is/

 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga