Greinasafni: Sveitarfélög einnig undir: Hótel og gisting
Hringhótelin á Snæfellsnesi

Undir kynngikrafti jökulsins
Hringhótelin á Snæfellsnesi

Í bók sinni, Ferðin á heimsenda, gerði rithöfundurinn Jules Verne Snæfellsnesið heimsfrægt og ódauðlegt. Sagan segir frá rannsóknarleiðangri sem ferðast niður Snæfellsjökul sem hefur sett sitt mark á allt nesið með víðáttumiklum hraunbreiðum – þótt vissulega sé eldstöðin til friðs eins og er.
Eldstöðin, sem er þakin jökli, reisir makka sinn í 1446 metra yfir sjávarmáli og víða á vesturlandi má sjá þann makka bera við himin. Boðið er upp á spennandi ferðir á jökulinn frá Arnarstapa og er þá ýmist ferðast á snjóbílum eða snjósleðum. Snæfellsnesið hefur löngum verið álitið dulmagnað, einkum kringum jökulinn. Þar ku búa álfar og huldufólk í klettum og dvergar í steinum, jökullinn er sagður einstök orkustöð. Rétt við Hellna er svo Maríulind. Það er sagt að vatnið í henni hafi lækningamátt.

Hótel Hellnar

Maríulind er skammt frá Hótel Hellnum, kyrrlátu sveitahóteli sem er vinsælt meðal ferðamanna alls staðar að úr heiminum. Norðan við hótelið gnæfir jökullinn í allri sinni dýrð og sunnan við það hamast hafið með öllum sínum straumum og leyndarmálum frá liðnum öldum. Þar má oft sjá höfrunga og hvali að leik rétt utan við ströndina. Allt svæðið er ein fuglaparadís og því ákaflega vinsælt meðal ljósmyndara. Í þjóðgarðinum er náttúran stórbrotin, gönguleiðir magnaðar og dýralífið fjölskrúðugt. Það er nóg við að vera fyrir ferðalanginn, því hægt er að fara um þjóðgarðinn eftir merktum gönguleiðum, bregða sér í jöklaferð, skoða hvali og höfrunga, skella sér á hestbak, svo eitthvað sé nefnt. Og varla er ofsögum sagt um kynngikraftinn frá jöklinum, því víða um heim býr fólk sem snýr aftur til Hellna ár eftir ár.

Gistihúsið á Arnarstapa
Á Arnarstapa, skammt frá Hellnum, er gistihúsið Snjófell. Arnarstapi var verstöð um langan aldur og byggingarnar á staðnum eiga sér margar hverjar langa sögu. Snjófell er í slíkri húsaþyrpingu, fallegt, rómantískt gistihús með veitingahúsi þar sem boðið er upp á gómsæta rétti. Gistihúsið sem hefur allt verið endurnýjað er á tveimur hæðum og rúmar alls 45 gesti. Veitingastaðurinn er í fallegu húsi við hliðina og rúmar 55 manns í sæti.
Þaðan blasir við tröllaukið líkneskið af Bárði Snæfellsás sem verndar svæðið fyrir öllu illu. Höfnin er enn á sínum stað í faðmi klettanna, hið ágætasta bátalægi og þaðan er róið enn þann dag í dag. Gönguferð í gegnum hraunið milli Arnarstapa og Hellna tekur um það bil klukkustund og nýtur mikilla vinsælda. Þar gefur að líta sérkennilegar steinmyndanir og auðvelt að skilja hvers vegna fólk hélt sig sjá uppvakninga, útburði og alls kyns drauga þegar það hraðaði sér á milli bæja. Yfir Arnarstapa vakir svo Stapafellið og setur svo sannarlega svip á staðinn.

Hótel Ólafsvík
Norðanmegin á nesinu er Hótel Ólafsvík þar sem er tilvalið að hægja á sér og njóta lífsins í tvo til þrjá daga. Hótelið er staðsett við höfnina þar sem alltaf er líf og fjör þegar fiskibátarnir koma heim með aflann sinn. Hótel Ólafsvík er þriggja stjörnu hótel með veitingasal, bar og góða nettengingu. Alls eru 19 stúdíóíbúðir í hótelinu, 18 tveggja manna herbergja með baðherbergi og síðan þrettán herbergi sem deila hreinlætisaðstöðu. Hótelið er opið frá því í maí og fram í september. Það er vel staðsett fyrir þá sem hyggjast njóta allra þeirra gönguleiða og möguleika sem felast í þjóðgarðinum.
 
Hótel Stykkishólmur
 Af Hringhótelunum á Snæfellsnesi er Hótel Stykkishólmur þeirra stærst. Það er einstaklega vel staðsett uppi á hæð og er með ævintýralegt útsýni yfir eyjarnar á Breiðafirði. Hótelið er allt hið vandaðasta og hæfir vel hvort sem er einstaklingum eða hópum. Þar er að finna fyrsta flokks veitingahús þar sem boðið er upp á fjölbreyttan matseðil. Morgunverðarborðið er með norrænu yfirbragði.Á hótelinu er bar og samkomusalur, með sviði þar sem hægt er að bregða undir sig betri fætinum og dansa. Salurinn rúmar 300 manns í mat, þannig að þar er tilvalið fyrir fyrirtæki og stofnanir að halda árshátíðir, eða þorrablót, nú eða aðrar samkomur þar sem markiðið er að skemmta sér ærlega. Í hótelinu eru 79 þægileg herbergi með baðherbergi, sjónvarpi, nettengingu, síma og hárþurrku. Einnig er þar svíta með þægilegum borðkrók, setustofu og stórum flatskjá – auk útsýnis inn flóann til fjallanna í fjarska.

Sundlaugin í Stykkishólmi er steinsnar frá hótelinu. Vatnið í lauginni hefur verið vottað af Institut Fresenius sem sérhæfir sig í umhverfisvottun. Segja þeir vatnið sérstaklega gott og þá einna helst við stoðkerfasjúkdómum en einnig er mælt með því til drykkjar. Við hliðina á hótelinu er svo golfvöllurinn sem gestir hótelsins hafa ókeypis afnot af. Stykkishólmur er ákaflega fallegur bær, þar sem gömul hús hafa verið gerð upp og varðveitt. Deginum er vel varið í að ganga um og skoða þau, heimsækja Norska húsið, dorga á bryggjunni – eða taka sér ferð með Flateyjarferjunni að morgni og koma aftur að kvöldi.

Hótel Hellnar
Hellnar • 356 Snæfellsbær
+354 435 6820
hotel@hellnar.is
www.hellnar.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga