Fjaðrárgljúfur, Skaftárhreppi, V-Skaftafellssýslu
Fjaðrárgljúfur, Skaftárhreppi, V-Skaftafellssýslu
Eitt fegursta gljúfur Íslands hlýtur að vera Fjaðrárgljúfur í Vestur-Skaftafellssýslu. Stórfenglegt þykir blaðamanni á að líta þegar gengið er eftir árbotninum og gapað upp í loftið á meðan Fjaðrá leikur fæturna lygnum straumi, þó ekki lengra en svosem upp að hnjám.  Tilkomumiklir gljúfurveggirnir minna helst á fjallakirkju þar sem mosi og móberg leika stórt hlutverk og ævintýraveröld þegar ekki sést í nema heiðan himinn fyrir ofan. Eftir nokkra göngu  er hægt að komast inn í enda gljúfursins, æja og virða fyrir sér ána sem fellur niður í gljúfrið fallegum fossum.
Telja fróðir menn að Fjaðrárgljúfur hafi myndast á síðjökulstíma fyrir um það bil níu þúsund árum síðan. Jón Jónsson jarðfræðingur sem hefur rannsakað og skrifað um jarðfræði Vestur-Skaftafellssýslu, m.a. í Árbók Ferðafélags Íslands 1983, segir þar svo um gljúfrið og umhverfi þess:
„Þegar jökull hörfaði af þessu svæði myndaðist stöðuvatn í dalnum bak við bergþröskuld. Það hafði afrennsli eftir farvegi þar sem nú er Fjaðrárgljúfur. Sú á byrjaði að sverfa niður þröskuldinn og jafnframt báru jökulárnar möl og sand fram í dalinn og fylltu hann að lokum svo að áin rann þar um aura og sanda. Vafalaust hefur runnið þarna mikið vatn á síðjökultíma. Eftir því sem áin náði að sverfa þröskuldinn dýpra tók hún til við að grafa setlögin sem hún hafði áður skilið eftir í dalnum. Að því er hún enn, en skilið hefur hún eftir hjallana báðum megin í dalnum og þeir eru þögult vitni um það sem gerst hefur."

Hefur nafnið Fjaðrá oft vafist fyrir mönnum því samkvæmt sögusögnum bar áin heitið Fjarðará í upphafi, en þó er hvorki, né hefur verið, nokkur fjörður þarna amk. á sögulegum tíma... Hlíðarnar báðum megin Fjaðrár eru gróni vaxnar, en framan þeirra sést fram á úfið Skaftáreldahraunið sem hefur hrakið Skaftá upp að hlíðinni og þar rennur Fjaðrá í hana með allri sinni dýrð.

Ekki eru þó allir sem kjósa að feta í fótspor blaðamanns og njóta stórfengleika Fjaðrárgljúfurs neðan frá farvegi árinnar, enda er auðvelt að fara um gönguslóða sem liggur spölkorn frá gljúfurbarminum. Vilja ferðamenn þó helst ganga út á ystu brúnir gljúfursins í leit að sem bestum útsýnisstöðum en vissara er að fara varlega enda um 100 metrar niður þar sem dýpst er.

Auðvelt er að komast á bíl að gljúfrinu sem skammt vestan Kirkjubæjarklausturs. Spölkorn vestan Kirkjubæjarklausturs eru vegamót og liggur vegur upp að Hunkubökkum á Síðu þar sem nú er vinsæl bændagisting. Þaðan eru aðeins 2 km vestur að Fjaðrárgljúfri og liggur vegurinn framhjá eyðibýlinu Heiði og síðan yfir Fjaðrá framan við gljúfurkjaftinn, en gljúfrið sést ekki þaðan nema að litlu leyti.

Tilkomumikill staður sem er vel þess virði að heimsækja bæði sumar sem vetur þegar blæbrigði birtunnar leika við þessa náttúruperlu. Fjaðrárgljúfur er á Náttúruminjaskrá Suðurlands.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga