Blönduósbær
Blönduósbær
Innivist og útivist á Blönduósi

Sú var tíðin að ferðalangurinn keyrði í gegnum Blönduós til annarra áfangastaða án þess að líta til hægri eða vinstri. Þar var fátt að sjá fyrir þá sem ekki áttu beinlínis erindi. En nú er öldin önnur og svo margt að sjá og reyna að hægt er að una sér dögum saman á staðnum við að sjá og reyna allt sem í boði er.
Söfnin í bænum eru svo fjölbreytt og sérstök að jafnvel þeir sem hafa lítinn safnaáhuga geta haft gleði af. Fyrst skal telja Heimilisiðnaðarsafnið þar sem gefur að líta hannyrðir kvenna aftur í aldir. Þar er prjónles og saumaskapur, balderingar og bróderingar. Stutt frá safninu er Textílsetur Íslands og þá er skammt í Hafíssetrið. Svo er það Laxasetrið þar sem meginþemun eru líffræði, þjóðfræði og veiðar og lifandi laxfisker eru í aðalhlutverki. Þar má fá fjölbreytta fræðslu um lífsferil laxfiska, ásamt sögu laxveiða, þjóðfræði og matarmenningu.
Eyvindarstofa er nýr áfangastaður á Blönduósi þar sem veitingastaðurinn Potturinn Restaurant er til húsa. Eyvindarstofa er þemasalur þar sem Fjalla-Eyvindi og Höllu konu hans eru gerð skil. Saga þeirra er mikilvægur hluti af menningu svæðisins og áhugaverður ævintýraheimur fyrir ferðamenn. Gestir upplifa sig í heimkynnum útilegumannsins á Hveravöllum. Veggir, gólf og aðrir innanstokksmunir eru færðir í stílinn og stemningunni miðlað með hljóði sem minnir á hálendið, hverina og snarkið í eldinum. Sögunum af Fjalla-Eyvindi er miðlað með myndefni og textum og upplifunin síðan fullkomnuð með sérstökum útilegumannamat, bornum fram á diskum og skálum í stíl við handverk Fjalla-Eyvindar, sem rómaður var fyrir hagleik sinn.
Fyrir þá sem stunda vilja útivist, er Blönduós og næsta nágrenni hrein paradís. Ótal göngu- og reiðleiðir liggja um héraðið. Þar er hægt að komast bæði í las- og silungsveiði, sem og skotveiði. Fuglalíf er fjölbreytt og einstaklega gaman er að ganga um perlu staðarins, Hrútey, og skoða fuglalífið þar. Á veturna tekur svo vélsleðasportið við og stutt er í skíðasvæðið Tindastól. Gistimöguleikar eru eins og best verður á kosið, þar sem eru Hótel Blönduós, smáhýsi og tjaldstæði Glaðheima, auk annarra smáhýsa og gistiheimila. Á Blönduósi er ný útisundlaug með tveimur heitum pottum, annar með nuddi. Þar einnig gufa, vaðlaug og tvær stórar rennibrautir. Auk þess fílarennibraut fyrir minnstu börnin út í vaðlaugina.

Blönduósbær
Hnjúkabyggð 33 • 540 Blönduós
+354 455 4700
arnar@blonduos.is
www.blonduos.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga