Greinasafni: Heilsa
Kleópatra Kristbjörg - Byltingarsinnuð draumkona
Kleópatra Kristbjörg skrifar bækur til að miðla reynslu sem getur orðið öðrum til góðs
Byltingarsinnuð draumkona

Kleópatra, villt af vegi er heitið á nýjustu bók rithöfundarins Kleópötru Kristbjargar. Áður hafa komið út eftir hana Daggardropar, Hermikrákuheimur, Þá var gott að deyja (sem er sjálfstætt framhald Daggardropa), Biðukollur útum allt og barnabókin Vetrarnótt.
Bækur Kleópötru Kristbjargar hafa hlotið nokkuð mikla athygli enda fetar höfundurinn mjög svo ótroðnar slóðir hvað viðfangsefni varðar. Í Daggardropum og Þá var gott að deyja fjallar hún um sín fyrri líf, Hermikrákuheimur fjallar um drauma og Biðukollur er ádeilubók. Í henni er deilt á mannfólkið, samfélagið og í framhaldi heiminn sem það hefur byggt. Og nú er það Kleópatra vilt af vegi. Þegar hún er spurð um hvað bókin fjalli, segist hún vera hér með sanna sögu, brot úr ævi sinni.
„Þetta er ekki sjálfsævisaga og fjallar ekki um neitt sérstakt tímabil,“ segir Kleópatra, „heldur fer ég vítt og breitt. Ég er að fjalla um erfiða lífsreynslu sem ég vil nota til að vekja aðra til umhugsunar. Það hefur alltaf verið minn tilgangur með mínum ritstörfum. Ég hef skrifað tvær fyrralífs-bækur, eina draumabók, ádeilubók og barnabók en nú skrifa ég um reynslu í þessu lífi, þessari jarðvist minni. En ég er ekki aðeins að fjalla um reynsluna, heldur er ég einnig með ýmsar hugleiðingar í sambandi við helsta viðfangsefni bókarinnar, alkóhólisma.“

Alkóhólismi og brotið fólk
Kleópatra segist hafa verið að slást við annarra manna alkóhólisma í þrjátíu ár, afleiðingarnar og skelfinguna í kringum hann. „Mamma var alkóhólisti,“ segir hún, „en ég fann ekkert fyrir því vegna þess að ég ólst upp hjá afa og ömmu og var síðan farin að heiman þegar alkóhólismi mömmu fór að taka alvarlega stefnu. Ég hlaut engan skaða af honum . Hins vegar hafa margri vina minna orðið fyrir skaða. Ég hef horft á mjög brotið fólk sem hefur alist upp við þennan sjúkdóm – og það er hræðilegt að horfa upp á slíkt. Mér finnst aldrei nógu mikið varað við alkóhólistum. Ég þekki bæði konur og karla sem hafa farið í samband með alkóhólistum og horft á sterkar, fallegar manneskjur brotna gersamlega niður í slíkum samböndum. Ég hef fjallað um þetta viðfangsefni áður, út frá annarra manna reynslu en núna er ég að skrifa um mína reynslu. Ýmsir myndu segja að hún sé kannski ekki eins alvarleg og hjá mörgum öðrum – en hver er mælikvarðinn og hversu alvarleg þarf reynslan að vera til að við hæfi sé að miðla henni. Hún var alvarleg fyrir mig og ég verð einhvern veginn að koma henni frá mér.“ Þegar Kleópatra er spurð hvað hafi orðið til þess að hún fór að skrifa bækur um fyrri líf, segir hún það hafa verið hálfgerða tilviljun.

Draumarnir og efinn
„Mig hefur alltaf dreymt óskaplega mikið og ég hef alla tíð skrifað niður drauma mína, stóra sem smáa. Ég á fullu stílabækurnar af draumum. Hér áður fyrr skiptust draumar mínir í tvennt. Annars vegar dreymdi mig fyrir daglátum og hins vegar fyrri líf mín. Það er auðvelt að skilja drauma sem rætast, læra að skilja táknin í þeim, en hina draumana skildi ég ekki. Þeir komu aldrei fram. Þegar ég fór að segja fólki frá þeim, var mér sagt að þetta væru ekki draumar, ég væri að upplifa fyrri líf. Ég hló nú bara að því vegna þess að ég trúði ekkert á fyrri líf og slíku bulli. En þetta var ekki bara ein nótt sem mig dreymdi slíka drauma, heldur létu þeir mig ekki í friði. Ein vinkona mín ráðlagði mér að fara til konu sem hét Sigrún Sigurðardóttir og starfaði sem miðill í Síðumúlanum. Það var auðvitað ekki á dagskrá, svo vinkonan tók sig til, pantaði fyrir mig tíma og sagði að ég yrði að fara. Sigríður kom mér, vægast sagt á óvart. Fyrirfram hafði ég dæmt hana kolruglaða en áður en ég sagði nokkurn skapaðan hlut, fór hún að segja mér frá einu lífi mínu sem hún sagðist sjá. Það var svo skrítið að það var nákvæmlega sama lífið og mig hafði nýlega dreymt. Hún sagði að þetta væru ekki draumar, heldur væri ég að lifa mín fyrri líf í gegnum drauma á vissu stigi svefns sem heitir dulvitundarstig. Hún sagði að ég væri gædd dulrænum hæfileikum og þess vegna færi ég á þetta dulvitundarstig þegar ég svæfi. Ég fjalla áfram um þessa drauma mína í bókinni sem er að koma út núna.“ Þegar Kleópatra er spurð hvernig henni hafi orðið við eftir fundinn með Sigríði, hugsar hún sig aðeins um áður en hún svarar: „Hún sá um leið og ég gekk inn til hennar að ég væri vantrúuð á allt sem hún stóð fyrir en ég var fljót að skilja að hún var enginn bullurokkur. Hún sagði: Ég vil bara segja þér strax að ég er að horfa á bíómynd á bak við þig og hún er af einu af þínum fyrri lífum. Ég hafði engum sagt frá þessum draumi. Þar sem ég hafði aðeins upplifað þetta fyrra líf í svefni, gat ég ekki annað en trúað henni. Mér varð hvorki vel né illa við. Ég varð ekki einu sinni hissa.“

Tröll og menn, englar og álfar
Ein af bókum Kleópötru er hrein ádeilubók, alls óskyldar fyrra-lífs-  og draumabókum hennar. En hvað kom til að hún skrifaði þær og á hvað er hún að deila? „Veistu,“ segir hún, „Ég er að deila á samfélagið og heiminn. Út af öllum mögulegum og ómögulegum hlutum. Ég rífst út af öllu. Ætli ég sé ekki bara svona mikill byltingarsinni. Það er leiðinlegt að segja það, en ég held að ég sé haldin mannfyrirlitningu. Mér finnst fólk almennt hegða sér illa, alltaf að spá í hluti sem skipta engu máli en spáir lítið í hluti sem skipta máli. Þetta er endalaus sókn á eftir vindi – og mér finnst lítið varið í manninn. Fólk gefur sér ekki tíma til að rækta garðinn sinn, má ekkert vera að því að ala upp börnin sín. En ég tala líka um kærleikann og Guð í þessum bókum. Auðvitað eru mennirnir misjafnir. Eftir að hafa spáð mikið í manninn með vini mínum, Gunnari Dal, urðum við sammála um að til séu tröll og álfar, en þetta eru ekkert neinar huldu- eða ævintýraverur, heldur tegundir af mönnum. Mannkynið skiptist í tröll og álfa, engla og menn. Ég fattaði bara núna nýlega að til væru jarðarenglar og trúi því í dag. Þetta er bara týpur eins og það eru til alls konar týpur af bílum, allt frá Trabant upp í Rolls Royce. Tröllin eru verst. Þau eru heimskir sóðar sem eru bara til óþurftar, mennirnir koma fast á eftir með alla sína bilun. Því miður finnst mér flestir geðveikir á einhvern hátt, flestir eru annað hvort alkóhólistar eða á geðlyfjum. Þannig að ég það er ekkert skrítið við að ég skrifi heilu ádeilubækurnar.“

Við eigum að þroskast
Ég lofaði eiginlega vini mínum, Gunnari Dal, að halda áfram að berja liðið. Hann sagði um Hermikrákuheim: Þér tekst í þessari bók að gera það sem ég hef alltaf reynt í mínum bókum, en aldrei tekist. Sjálf hef ég alltaf verið reið út í þessa bók. Hún seldist ekki vel á sínum tíma – en nú er allt í einu eftirspurn eftir henni, svo ég ætla að gefa hana út aftur núna í október. Hún fjallar um drauma sem eru leiðbeiningar á lífsgöngunni og sumir eru viðvörun. Þetta eru draumar sem koma fram. Ég veit að ég er grimm en það er vegna þess að ég er svona mikil byltingarkerling. Mér finnst að fólk eigi að vera hreinskilið og segja hvað því finnst. Ég hef sjálf enga reynslu af álfatýpunum og get ekki sagt hvers konar týpur það eru. En englar eru til og ég tala um þá í þessari bók. Jarðengla sem ég þekki. Þetta er reynsla mín. Þegar ég fékk að sjá verndarengilinn minn, fékk ég um leið að sjá jarðarengla. Sem betur fer er til gott fólk sem innan um allan skrílinn. Þetta er dásamlegt fólk – fólk sem mér finnst að annað fólk eigi að opna fyrir og taka sem fyrirmyndir. Þetta er fólk með boðskap. Við eigum að þroskast í lífinu og sjá að það er til fleira en við héldum þegar við lögðum upp í lífsferðina. Lífið er ekki bara saltfiskur, vakna, éta, vinna og sofa. En fólk trúir almennt varla á guð, hvað þá engla, ég tala nú ekki um jarðarengla. Fólk trúir almennt ekki á framhaldslíf og ég skil það vel. Ég þurfti sjálf að sjá allt og reyna til að trúa. En það sem ég skil ekki er fólk sem er alltaf að eltast við eitthvað sem gæti veitt því hamingju en felur ekki í sér neina hamingju. Þetta er eftirsókn eftir vindi og flestir eru á harðahlaupum á eftir vindinum, gleypandi gleðipillur. Hlaupa á þessari stórhættulegu kappakstursbraut, á ógnarhraða. Það lifir ekki vegna þess að það gefur sér ekki tíma til þess. Lífið fer framhjá því.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga