Greinasafni: Orka
Línudans hefur hannað ný möstur til flutnings á rafmagni
Línudans hefur hannað ný möstur til flutnings á rafmagni
Umhverfisvæn, endingargóð og tæknilega fullkomin

Línudans ehf. er ungt íslenskt verkfræðifyrirtæki sem sérhæfir sig í flutningskerfum fyrir rafmagn. Fyrirtækið var stofnað af Háskólanum í Reykjavík, Magnúsi Rannver Rafnssyni ásamt nokkrum ráðgjafafyrirtækjum í Reykjavík. Markmið fyrirtækisins er að þróa markvisst umhverfisvænar en jafnframt hagkvæmar lausnir á því sívaxandi verkefni að flytja raforku. „Við byrjuðum 2008 að færa okkur inn á þetta svið, það er að segja flutningskerfin, til að skoða nýja lausnir á burðarvirkjum fyrir háspennumöstur,“ segja verkfræðingarnir Magnús Rannver Rafnsson  framkvæmdastjóri Línudans og lektor við Háskólann í Þrándheimi og Eyþór Rafn Þórhallsson  stjórnarformaður Línudans og dósent við Háskólann í Reykjavík. „Við byggjum í raun á nýrri hönnunarhugsun, nýjum efnum og nýrri aðferð. Við höfum þróað með okkur sýn á það hvernig raforkuflutningskerfi 21. aldarinnar eigi að vera og vitum því hvert förinni er heitið með nýju tækninni.  Háspennumöstur – eins og aðrir manngerðir hlutir – eiga að vera umhverfisvæn. Þau flutningskerfi sem við erum núna með byggja á 80 ára gamalli tæknilausn, sem er uppfyllir ekki kröfur samtímans“  Þeir Magnús og Eyþór segja heiti fyrirtækisins, Línudans, koma til vegna þess að það sé að fást við háspennulínur og bæta við: „Svo er stofnun nýsköpunarfyrirtækis hálfgerður línudans. Þetta er langt og strangt ferli. Það hverfa mörg slík fyrirtæki á braut – en við ætlum að hanga á línunni.“

Þriðja leiðin
Fyrsti styrkurinn sem Línudans hlaut var í gegnum „Átak til atvinnusköpunar“  sem sett var af stað á vegum Iðnaðarráðuneytisins. „Þar er fyrsta skrefið stigið segja Magnús og Eyþór. „Í kjölfarið á því verkefni, fáum við styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís. Þar sýnir Tækniþróunarsjóður töluverða framsýni og skilning, ef litið er til umræðunnar í dag sem blásið hefur upp vegna raforkuflutningskerfa. Sú umræða helgast af andstæðum, annars vegar að setja allt í jörð eða flytja rafmagn með loftlínum. Hvað rafmagnið sjálft varðar,  sé ekkert annað í stöðunni. En við erum að benda á þriðju leiðina. Í því felst að taka þurfi tillit til fleiri þátta samtímis; umhverfis, hlutverks raforkuflutningskerfa og hagkvæmni. Til að þetta sé hægt án þess að halli á einn þáttinn í jöfnunni, þarf að gera breytingar á mörgum þáttum í ferlinu. Hvað útlitið varðar, þá er það nú einu sinni svo að fegurðin skiptir máli. En umhverfisflöturinn er margþættur. „Möstrin okkar eru ekki bara falleg, það er einfaldlega mun minni mælanleg mengun sem fylgir öllu ferlinu,  allt frá framleiðslu, í gegnum flutning og við notkun á línudans möstrum“. Þau eru helmingi léttari en hefðbundin stálmöstur. Þau eru tákn um nútímaverkfræði en ekki 19. aldar verkfræði. Við þurfum ekki annað en að horfa til Danmerkur á vindmyllurnar til að skilja það. Auk þessa er hægt að aðlaga þau  að umhverfinu. Það er hægt að velja hvaða lit sem er án aukakostnaðar sem talið getur. Slíkt er ekki hægt á hefðbundnum möstrum. Þau eru bara grá þangað til þau fara að ryðga og þá verða þau appelsínugul eins og á Hellisheiðinni núna.“

Tækifæri til útflutnings

Magnús og Eyþór segja Línudans stefna að því að koma af stað framleiðslu á Íslandi. Mikið sé í húfi þar sem framleiðsluáætlanir geri ráð fyrir um áttatíu störfum,  þegar framleiðsla hafi náð fullum afköstum, eftir 7-8 ár ef byrjað  væri í dag.. En hér er ekki  eingöngu verið að tala um markaðssvæðið Ísland, því  framtíðarmarkaðurinn er stærstur erlendis. Íslenskt hugvit sem hægt er að flytja út. Margar þjóðir hafa verið að glíma við sömu vandamál og Íslendingar varðandi þá neikvæðu ásýnd og neikvæðu ímynd sem hefðbundin raforkuflutningskerfi hafa. Þá eru flutningskerfin í Evrópu, Bandaríkjunum og í mörgum þróuðum ríkjum komin á enda síns æviskeiðs og þau þarf að endurnýja. Þetta kemur til viðbótar við mikla stækkun sem áætlað hefur verið að þurfi.  Í þessu felast mikil tækifæri fyrir íslenska verkfræðinga. Ekki síst felast tækifæri í þeirri nýju þekkingu sem skapast, mögulega til þess að stofna enn önnur nýsköpunarfyrirtæki sem hafa áhuga á að notfæra sér sömu nálgun og Línudans varðandi hagnýtingu trefjaplasts í hönnun og vöruþróun. Það skapast nýjar víddir með trefjaplastinu.

Hagkvæmur kostur

Hvað hagkvæmni varðar segja Magnús og Eyþór að hagkvæmnin hafi í öllu ferlinu verið grunnforsenda í nálgun Línudans á viðfangsefnið, henni sé vel hægt að ná ef upplagið er rétt. „Ef við tökum tillit til möguleikanna sem Línudansmöstur bjóða upp á, þá er ekki hægt að bjóða upp á þá með hefðbundnum stálmöstrum, það yrði einfaldlega of dýrt. Ef við tökum litina sem dæmi, þá er gríðarlega dýrt að setja hefðbundin stálmöstur í umhverfisvæna liti. Litir eru oft notaðir erlendis til þess að lágmarka umhverfisáhrif, en kostnaðurinn takmarkar notkunina við lítinn fjölda mastra“. Annar þáttur er ending. Trefjaplastmöstur endast mun lengur en hefðbundin stálmöstur, þetta á sérstaklega við í „aggressívu“ umhverfi, s.s. við sjó og strendur eða í brennisteinsmengun. Erlendis er að finna trefjaplastframleiðendur sem halda því fram að þessi vara endist í 120 ár.  „ Við tökum ekki svo djúpt í árinni (ekki hægt að sanna enn), en ljóst er að það er mikil reynsla nú þegar á Íslandi með trefjaplast. Íslenskir bátar hafa verið í  sjó við strendur Íslands í bráðum 40 ár. Í sjó er um að ræða mun erfiðara endurtekið álag í söltum sjó. „Ef við tökum Hellisheiðina sem dæmi, þá eru þar stálmöstur bæði ný og gömul að ryðga með miklum hraða, út af brennisteinsmenguninni. Stálmöstur eru ekki og munu aldrei verða samkeppnisfær við Línudansmöstur í verði eða gæðum á slíkum svæðum.
Línudansmöstur ryðga ekki og það þarf ekki að galvanhúða þau eins og stálmöstur. Galvanhúðin fellur af stálmöstrunum og mengar nánasta umhverfi mastranna. Enn einn mikilvægur þáttur varðandi hagkvæmni er flutningurinn. Hönnun Línudansmastra tekur m.a. sérstaklega mið af flutningi. Fyrir utan mun minni heildarþyngd mastranna, borið saman við stál, þá eru Línudansmöstur hönnuð sérstaklega til þess að þurfa lítið rými í flutningi. Ennfremur hefur samsetningaraðgerðum á byggingarstað verið snarfækkað og eru í mörgum tilvikum einungis um 1/10 hluti af fjölda aðgerða margra hefðbundinna mastragerða Þetta skiptir miklu máli því uppsetning á möstrum getur verið háð veðri og erfiðum aðstæðum uppi á fjöllum.
Óplægður akur
Eins og fram hefur komið eru Línudansmöstur gerð úr trefjastyrktu plasti, sem opnar alveg nýja heima varðandi form og burðarþolshönnun, útlit, liti og fagurfræði – þar sé akurinn algerlega óplægður. „Þess vegna erum við að leggja áherslu á aðferð, ekki eina týpu, segja þeir Magnús og Eyþór. „Við getum framleitt hvaða form sem er og kjósum að gera það í samvinnu við kúnnann. Við höfum hins vegar  þróað ákveðnar grunntýpur samhliða rannsóknar og þróunarvinnu, sem við höfum notað til þess að átta okkur á mikilvægum þáttum í ferlinu, s.s. raunverulegum kostnaði sem og möguleikum í formi og fagurfræði. Um leið höfum við þróað hönnunarleiðbeiningar sem byggja á okkar hugmyndafræði og eru nauðsynlegar til þess að þróa nýjar gerðir.“
Í stuttu máli felur það í sér að leitað er eftir jafnvægi á meðal þeirra mikilvægu þátta sem taka þarf tillit til; umhverfis, tæknilegs hlutverks og hagkvæmni. Við erum að tala um  umhverfisvæn raforkuflutningskerfi sem einnig eru hagvæm, eitthvað sem við getum framleitt á samkeppnishæfu verði með þeirri tækni sem við erum að þróa.“ Magnús og Eyþór segja trefjaplast vera efni framtíðarinnar „Nýja Dreamliner Boeing þotan er að mestu úr trefjaplasti sem og nýjar flugvélar frá Airbus, bátar hafa verið framleiddir  í trefjaplasti í marga áratugi og hlutur þessa efnis er sífellt að aukast á flestum sviðum verkfræðinnar. Ef menn þora að fljúga í stórum trefjaplastsþotum á milli landa, ættu þeir að þora að nota efnið í raforkuflutningskerfi. Það er ekki verið að tala um að hætta að nota stál og steypu, heldur er sífellt hagkvæmara á mörgum sviðum að nota trefjaplast. Það er létt efni og endingargott.“ Hagkvæmni framleiðslunnar byggist ekki síst á framleiðsluhraðanum. Fyrst eru búin til mót fyrir það form sem valið hefur verið, en mótin eru tímafrekasti og dýrasti liðurinn í framleiðslunni, eftir það er framleiðsla hröð. Mótin er síðan hægt að nota aftur og aftur til að framleiða mikið magn eininga. „Þetta myndi auðvitað ekki borga sig ef við ætluðum að búa til tvö möstur. Mótin eru dýr en kostnaðurinn skilar sér margfalt þegar magnið er rétt“. Mikið magn er eðli raforkuflutningskerfa og réttlætir að lagt sé út í ákveðinn stofnkostnað. „Við getum tekið sem dæmi, að ef á að reisa möstur fyrir hundrað kílómetra langa línu, þá getur verið um að ræða þrjú til fjögurhundruð möstur, allt eftir því hversu langt bil er á milli þeirra og um hvaða spennustig er að ræða.“

Alþjóðlegt samstarf
Línudans hefur verið í samstarf við háskóla í Stuttgart sem hefur innan sinna raða helstu sérfræðinga heims í trefjaplasti, þróun og hönnun efnisins sem slíks sem og notkunarmöguleikum. Auk samstarfs við háskóla og ráðgjafa erlendis  er Línudans í samstarfi við háskóla í Þrándheimi, sem hefur sýnt viðfangsefnum Línudans mikinn áhuga og stutt verkefni þess vel.. „Við eigum jafnframt sterkt bakland hér heima í íslenskum samstarfsaðilum okkar,“ segja Magnús og Eyþór. Þar er um að ræða verkfræðistofuna Verkís, verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, en þeir eru á meðal  helstu sérfræðinga okkar í háspennu. Þá eru, THG Arkitektar hluti samstarfshópsins auk fleirri aðila.

Sóknarfæri undir háværum kröfum
Í ljósi umræðu sem spunnist hefur um áætlanir sem kynntar hafa verið varðandi uppbyggingu raforkuflutningskerfisins, er vissulega spennandi að horfa til þess að íslenskt nýsköpunarfyrirtæki vinni að því að þróa umhverfisvænar lausnir á þessu sviði. Þegar grannt er skoðað, er í mörgum tilvikum líklegast um umhverfisvænustu leiðina að ræða sem völ er á í dag, bæði þegar loftlínur og jarðstrengir eru hafðir í huga . Það hlýtur að teljast afar mikilvægt þegar horft er til þess hversu umdeild raforkuflutningskerfin eru, en jafnframt þegar horft er til þess hversu mikið á eftir að byggja af raforkuflutningskerfum á Íslandi, ef núverandi  áætlanir ganga eftir. Með nýrri hugsun og hagnýtingu nýrra efni og nýrra aðferða er þetta mögulegt á samkeppnisfærum verðum, borið saman við hefðbundar lausnir.  „Samfélagslegir hagsmunir eru okkur efst í huga, í því felst að framleiða umhverfisvæna örugga vöru á sem hagkvæmastan hátt og nota til þess nútíma verkfræði. Við tökum ekki ákvörðun um hvort stækka eigi flutningskerfið eða ekki, en við viljum tryggja að það sé gert á sem bestan hátt, fyrir alla hlutaðeigandi aðila“ segja þeir félagar að lokum.

www.linudans.org

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga