Björn Marteinsson arkitekt og verkfræðingur sér marga kosti við að koma upp lestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu
Björn Marteinsson arkitekt og verkfræðingur sér marga kosti við að koma upp lestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu
Daglegur ferðamáti fólks er félagslega fjandsamlegur og óásættanlegur

Björn Marteinsson arkitekt og verkfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð og dósent við Háskóla Íslands gekk nýverið til liðs við Metróhópinn. Hann er verkefnisstjóri í verkefninu Betri borgarbragur, verkefni sem er styrkt af Rannsóknaráði og er samvinnuverkefni nokkurra arkitektastofa, Nýsköpunarmiðstöðvar og HÍ.  Í því verkefni er verið að kanna hvernig hægt sé að breyta þéttbýli þannig að það verði sjálfbærara.  „Ferðaþörf er rosalega mikil hér hjá okkur, sérstaklega hér á Reykjavíkursvæðinu,“ segir Björn og bætir við: „Byggðin er dreifð vegna þess að borgin byggist á svokölluðum aðskilnaðartíma, tíma þegar búsetu, annars vegar, og atvinnu, hins vegar, var haldið aðskildu - sem er ólíkt því sem gerist í eldri borgum þar sem allt er í graut. Okkar hraða uppbygging verður á tímabili þegar þetta þótti snjallt.“

Sjötíu þúsund bílar á dag
„Þetta gerir það að verkum að atvinna á Reykjavíkursvæðinu er nokkurn veginn með norðurströndinni í Reykjavík. Það skýrir þessa gífurlegu strauma sem koma innan borgarinnar, vestur Miklubraut og Hringbraut á morgnana. Það fara um 70.000 bílar þarna um yfir daginn. Þetta er eins og flóðbylgja. Hún stendur að vísu stutt, í tveimur risastórum gusum á morgnana, en dreifist aðeins meira í eftirmiðdaginn. Svo er norður/suður ásinn, straumurinn sem fer Kringlumýrarbrautina á morgnana og til baka á kvöldin.
Þessi gríðarlega þörf fyrir umferðarkerfi er stóra vandamálið í borginni. Því er stýrt af þörf heimilanna til að geta farið hvert sem er að eigin hentugleikum – einkabíllinn ræður algerlega, sem verður svo til þess að gatnakerfið hér er alveg yfirgengilegt í ekki stærri borg. Við erum að tala um einstaklinga sem ferðast í bílum sem eru á annað tonn, iðulega einn í hverjum bíl. Það þarf einhvern veginn að leysa þetta.“

Sjálfbær hverfi

„Ég hitti Metrófélagana til að heyra hvaða hugmyndir þeir hafa og þeirra hugmynd er að leysa þessa flækju með neðanjarðarlest, með suður/norður og austur/vestur lestum.  Í Betri borgarbrag höfum við komist að þeirri niðurstöðu að það þurfi að breyta borginni. Það þarf að gera hverfin sjálfbærari þannig að það sé hægt að lifa innan minna svæðis án þess að vera neyddur til að fara langt út fyrir heimasvæðið hvernig sem það er skilgreint. Hverfi með skóla, verslanir, atvinnu. Það mun að sjálfsögðu taka áratugi að laga borgarmyndina en þangað til þurfum við að bregðast við þessari ferðaþörf. Ef maður gefur sér að einkabíllinn sé ekki góð leið, þá verður að finna aðra leið, sem er almenningssamgöngur. Ef það er nokkur leið að leysa málið með neðanjarðarlest, þá er Metróhópurinn á réttri leið. Til þess að almenningssamgöngur skili árangri þá verða samgöngur að vera örar, svo biðtíminn verði stuttur og nauðsynlegt að ferðatíminn verði sem stystur svo samanburður við aðra ferðamöguleika verði áhugaverður. Slíkt er ekki auðvelt að leysa með strætó, vegna þess að þar eru svo margar þveranir á Miklubraut og Hringbraut. Strætó ofanjarðar getur ekki auðveldlega verið í fasa við umferðarljós vegna þess að hann er alltaf að stoppa. Til þess að leysa þætti þyrfti strætó að hafa forgang í stýringu ljósanna og ekki auðvelt að sjá hvaða áhrif slíkt hefði á aðra umferð sem þá getur ekki verið í fasa við umferðaljósin. Það er ekki til pláss til að byggja hæðaskipt gatnamót á allar þessar götur, auk þess sem ekki er hægt að sætta sig við að plássþörf undir umferðarmannvirki blási endalaust út. Það er ávallt viðkvæðið hér að það sé of dýrt að fara ofan í jörðina og að jafnvel lest ofanjarðar verði óhagkvæm. Í Bergen, Noregi, sem er borgarkerfi rúmlega tvöfalt stærra heldur en Reykjavík er nú verið að byggja lestarkerfi innanbæjar til að leysa umferðarvandamálin þar. Það er full ástæða til að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni og ekki hægt að slá þetta út af borðinu án ítarlegrar könnunar.“

Jarðgöng, stokkar eða einteinungar

Það væri mjög áhugavert ef hægt væri að leysa almenningssamgöngumálin. Í slíkri lausn þarf vitaskuld að gæta þess að hún sé hagkvæm fyrir bæði einstaklinga og heildina, en hagsmunirnir eru margvíslegir og matið verður flókið. Ef við hugsum slíka lest alfarið neðanjarðar, þurfum við að átta okkur á því hversu langt  þarf að vera á milli stoppistöðva. Ef stutt þarf að vera á milli stöðva þá er spurningin hvort þetta er meira eins og strætó með biðstöðvar ofanjarðar.  „Ef maður ætlar að hafa slíka lest neðanjarðar, held ég að Metróhópurinn sé að hugsa um jarðgöng. En það er ekkert endilega nauðsynlegt. Það er alveg eins hægt að grafa stokk og setja þak á hann. Þetta er ein akrein án þverana og þess vegna hægt að stinga sér niður, ekkert meira fyrirtæki en undirgöng fyrir gangandi eða hestamenn. Það eru ótal möguleikar, við þurfum bara að komast að því hvað hentar okkur og það er engin þörf fyrir stór og mikil biðskýli ef fólk veit að það þarf ekkert að bíða nema fimm mínútur í mesta lagi. Áhugi minn á hugmyndum Metróhópsins snýst um það hvernig við getum leyst ferðirnar austur/vestur, norður/suður á sem hagstæðastan hátt. Það er alveg ljóst að  þetta þarf að vera neðanjarðar að hluta. Það er líka hugsanlegt að fara með þetta í einteinunga fyrir ofan umferðina eins og í Seattle en spurning hvort það verði ekki enn dýrara.“

Ekki í staðinn fyrir strætó

„Slík lest kæmi ekki í staðinn fyrir strætó, heldur væri til að bæta við þjónustuna. Það þyrfti áfram strætó sem sinnti þessum meginásum, en ekki endilega á nákvæmlega sömu braut og hraðtengingin.  Strætókerfi þarf til að sinna hverfaþjónustu og koma fólki í tengsl við meginásana tvo, þessa þjónustu þarf þá að efla svo flöskuhálsinn í umferðartengingunni verði ekki innan hverfanna. 
Sá ferðamáti sem við búum við í dag er félagslega fjandsamlegur. Að vera lokaður inni í búri í stresskasti á leið í og úr vinnu alla daga er óásættanlegt. Það er ótrúlega erfitt andrúmsloft hérna á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að það sé að hluta til vegna þeirrar gatna- og umferðar ómenningar sem við búum við. Það væri mjög gott að geta stytta vinnutímann um mánuð á ári með bættum og hagkvæmari samgöngum, eða þá að geta eytt peningunum í eitthvað annað en bíla.“

bjomar @hi.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga