Greinasafni: Veitingar
Silva í Eyjafjarðarsveit býður upp á hráfæði
Silva í Eyjafjarðarsveit býður upp á hráfæði, auk annarra hollra rétta
Hollt í blómlegri sveit

Til að komast til okkar er best að aka í gegnum Hrafnagilshverfið, beygja síðan til vinstri inn á þverbrautina, aka yfir brúna og þá blasir húsið við í allri sinni dýrð í miðri brekkunni á hægri hönd, segir Kristín Kolbeinsdóttir sem á og rekur Silvu, eina hráfæðisstaðinn utan höfuðborgarsvæðisins.
Silva er grænn veitingastaður í hjarta Eyjafjarðarsveitar sem býður gestum sínum upp á eldaða grænmetisrétti og hráfæðisrétti ásamt hollum kökum og eftirréttum. Þar má einnig fá nýhrista þeytinga og nýpressaða safa, hveitigras- og engiferskot. Kaffi, te og kakó er ávallt lagað úr lífrænum afurðum.

Besta hráefni í heimi
Á Silvu er aðaláherslan lögð á góðan og fjölbreyttan matseðil með réttum sem framleiddir eru úr úrvals hráefni og henta öllum aldurshópum. „Við fáum hráefnið alls staðar að,“ segir Kristín. „Grænmetið kaupi ég í frá íslenskum grænmetisbændum í gegnum heildsölu á Akureyri og úr heilsuhillum verslana. Svo erum við með ýmislegt úr garðinum okkar, t.d. kryddjurtir, gulrætur, kál og rauðrófur. Á meðan til er íslenskt kaupi ég ekkert annað. Við erum með besta hráefni í heimi. Það er hreinna en það grænmeti sem merkt er lífrænt en kannski ræktað við hraðbrautarsvæði í Hollandi eða einhverju öðru landi þar sem ekki er hreint loft og hreint vatn.
Á Silvu er alltaf val um þrjá rétti dagsins, súpu og brauð, heitan grænmetisrétt eða hráfæðisrétt. Auk þess er boðið upp á ýmis konar smárétti s.s. vefjur, smákökur og ávaxtapinna. Það verður að teljast til lífsgæða að gæða sér á bragðgóðum hollum réttum á meðan horft er á stórkostlegt útsýnið úr veitingasalnum. Þar sést út allan fjörðinn þar sem Kaldbakur blasir við í allri sinni dýrð, til vesturs þar sem Kerling trónir yfir fjörðinn og til austurs upp í Staðarbyggðafjallið.

Vel í sveit sett
„Eyjafjarðarsveit er eitt blómlegasta landbúnaðarhérað Íslands og hefur upp á margt að bjóða hvort sem það er tengt útivist eða annarri afþreyingu,“ segir Kristín. „Hér er margt að sjá s.s. bændur að störfum og fjölbreytt fuglalíf í gróðursælum firði umkringdum stórkostlegum fjallahring. Silva er því vel í sveit sett og tilvalið fyrir þá sem ferðast um fjörðinn að koma við og fá sér hressingu.  Við erum í passlegri göngufjarlægð frá tjaldsvæði og sundlaug Hrafnagilsskóla og því tilvalið og skreppa og fá sér eitthvað að borða eftir hressandi sundsprett þegar fólk er á ferð hér að sumarlagi. Yfir veturinn er ekki lengi verið að renna til okkar frá Akureyri, auk þess sem hér í Eyjafjarðarsveit er boðið upp á fjölbreytta gistingu fyrir þá sem vilja dvelja í kyrrðinni.“

Námskeið

Yfir vetrartímann býður Silva  upp á ýmis námskeið þar sem hollustan er höfð i fyrirrúmi. Námskeiðin hófust í september og segir Kristín yfirleitt vera tíu til fimmtán manns á hverju námskeiði – en hún geti tekið allt að tuttugu vegna þess að hún hafi góða aðstöðu.  Námskeiðin eru haldin í matsal Silvu að Syðra-Laugalandi efra í Eyjafjarðarsveit. Og námskeiðin eru afar fjölbreytt, t.d. gerð grænmetissafa, hollar súpur, eldun grænmetisrétta og gerlaus bakstur. Til þess að fylgjast með hvaða námskeið eru á döfinni er besta að fara inn á heimasíðu veitingahússins. Innifalið í námskeiðunum eru fræðsla, uppskriftir og matur og taka þau yfirleitt 3-4 klukkustundir. Síðast, en ekki síst, tekur Kristín að sér persónulega ráðgjöf, hjálpar fólki við að ná betri tökum á mataræði og veitir olímeðferðir með Young Living olíum, eins og sjá má á eftirfarandi vefsíðu:

www.fabtravel.is/is/akureyri-eyjafjordur/veitingar-1/vokuland
www.silva.is   

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga