Hjálpræðisherinn með þriðju verslunina
Opnunarhátíð um næstu helgi
Hjálpræðisherinn með þriðju verslunina

Það er fátt skemmtilegra en að róta í verslunum sem selja notaðan varning. Aldrei að vita hvað leynist innan um og saman við, kannski peysa, kjóll eða jakki sem mann hefur alltaf langað í, nú eða borð, stóll, skál, bollar eða annað smádót sem mann vantar – og allt á hagstæðu verði. Enda njóta verslanir Hjálpræðishersins sívaxandi vinsælda. Í Garðastræti 6 rekur Herinn verslun með fatnað og á Eyjaslóð 7 verslun með húsgögn smávöru og fatnað. Hins vegar búa ekki allir í vesturbænum og þann 20. október næstkomandi opnar Herinn þriðju verslunina í Reykjavík. Hún verður í Mjóddinni og segir verslunarstjórinn Anita Berber þá verslun verða nokkuð ólíka  þeim sem fyrir eru.  „Við skiptum plássinu í tvennt. Annars vegar er verslunin, þar sem við seljum föt og smávöru, hins vegar verðum við með kaffihús og unglingastarf. Markmiðið er að vera þar með lifandi tónlist eins og hægt er á kvöldin en þangað getur fólk líka leitað til okkar eftir félagsráðgjöf og mataraðstoð. Við viljum að þessi aðstaða nýtist unglingum til að koma saman, til dæmis einu sinni í viku til að vinna að listsköpun eða einhverju slíku saman.“

Betra að fá fötin hrein

Þegar Anita er spurð hvaðan varan í versluninni kemur segir hún: „Aðallega er þetta nú þannig að fólk kemur með vöruna til okkar. Þetta er þó ekki eins og hjá Rauða krossinum þar sem hægt er að setja hana í gám. Til okkar kemur fólk með vöruna á opnunartíma – og verslar þá líka gjarnan í leiðinni.“Hjálpræðisherinn fer ekki fram á að fólk skili vörunni hreinni og pressaðri inn í verslanirnar. „Hins vegar eru margir sem koma með fötin þvegin og straujuð. Varan þarf aðeins að vera nothæft. Auðvitað er  betra að fötin séu hrein og ekki ekki troðið í einni bendu í pokann. En það er nokkuð algengt að fólk geymi föt í poka úti í bílskúr þar sem hann gleymist þar til eitt árið að fólk rekst á pokann og ákveður að losa sig við fatnaðinn.“

Vinsælar verslanir

Anita segir mjög mikið verslað í Garðastrætinu, sú verslun sé til dæmis alveg sérlega vinsæl meðal ferðamanna á sumrin, hins vegar sé minni traffík á Eyjaslóðinni vegna þess að fólk hafi hreinlega ekki uppgötvað hana enn. Hún segist þó vona að traffíkin verði mikil í Mjóddinni. Auk verslananna rekur Hjálpræðisherinn gistihús að Kirkjustræti 2 á sumrin. Húsnæðið er leigt sem  stúdentaíbúðir á veturna. Gistihúsið er mjög vel nýtt, sérstaklega af erlendum ferðamönnum –„enda erum við mjög ódýr og gætum ekki verið betur staðsett,“ segir Anita.

www.herinn.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga