Veðurþolið og nánast viðhaldsfrítt hjá Gluggum ehf
Gluggar, hurðir, sólskálar og svalalokanir úr áli eru veðurþolin og nánast viðhaldsfrí
Hentar íslenskum aðstæðum einkar vel

Álið hentar okkur sem búum við íslenskt veðurfar ákaflega vel, segir Eyþór Jósepsson en hann stofnaði, ásamt Úlfari Arasyni fyrirtækið Glugga ehf á Akureyri árið 2003. Gluggar ehf smíða eingöngu úr áli, hvort sem er um að ræða glugga, hurðir, sólskála, svalalokanir, svalaskjól eða handrið. „Við flytjum álið inn í sjö metra lengjum og síðan sögum við og borum, fræsum og setjum saman í þeirri stærð, gerð og lögun sem viðskiptavinurinn óskar,“ segir Eyþór. Íslendingar eru vanari því að gluggakarmar og að útihurðir séu úr viði en Eyþór segir það vera að breytast. „Þegar við fórum að kanna málið fyrir alvöru árið 2003, sáum við að álið er vaxandi alls staðar í heiminum í glugga og hurðir. Okkur varð smám saman ljóst að það hentaði íslenskum aðstæðum einkar vel. Álið þarf svo hverfandi lítið viðhald að það má segja að það sé viðhaldsfrítt. Á því er annað hvort innbrennd lakkhúð, eða það er búið að rafmeðhöndla yfirborðið. Því þarf álið enga frekari meðhöndlun. Þegar Eyþór er spurður hvernig álið þoli íslenskt loftslag og veðurfar, segir hann það henta okkur einkar vel veðurfarslega. „Álið sem við erum með er sérstök álblanda sem þolir seltu og annan fyrirgang sem fylgir íslensku veðurfari.  Síðan eykur innbrennda lakkhúðin þolið enn betur. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að þetta stenst alveg gríðarlega vel íslenskt veðurfar.“

Sterkari burður

Álhurðir og –gluggar henta hvort sem er fyrir heimili eða fyrirtæki. „Þú þarft eiginlega að vera með svona útihurð, því hún er ekkert að verpast,“ segir Eyþór. „Og við smíðum allt frá einni hurð eða einum glugga fyrir kúnnana okkar og allt upp í endurnýjun á öllum gluggum og hurðum fyrir sumarbústaði, einbýlishús, nýbyggingar, fjölbýlishús, fyrirtæki og stofnanir. Eitt af okkar verkefnum núna er að taka alla gömlu gluggana úr skrifstofubyggingu  Icelandair í Nauthólsvíkinni og setja nýja álramma og gler í staðinn. Við sjáum um verkið í heild sinni, frá niðurrifi til uppsetningar, þar með talið förgun á gamla draslinu. Síðan erum við að smíða mikið fyrir sumarbústaði. Menn eru smám saman að átta sig á því að álið er viðhaldsfrítt og því hentugt í bústaðina. Menn nenna ekkert að vera að bera endalaust á, þeir vilja eiga frí í sumarbústaðnum sínum.“
Íbúðarhús hafa líka verið að breytast. Í dag eru flest einbýlishús með stórum gluggum sem ná frá lofti niður í gólf og mikið um stórar rennihurðir og þá er álið mjög góður kostur vegna styrksins. Við höfum líka verið með þó nokkuð mörg verkefni þar sem fólk er að breyta stofunum hjá sér. Þá er sagað niður úr stofugluggunum og sett rennihurð í staðinn. Með því fá menn bjartari rými og betri tengingu út á veröndina og garðinn.“

Hagstæður kostur

Fyrirtækið er staðsett á Akureyri en Eyþór segir það smíða fyrir allt landið sem og í Færeyjum. „Það er stutt í allar áttir frá Akureyri,“ segir hann, „og við erum með ótal verkefni víða um land, ekki síst í Reykjavík. Og við smíðum fyrir lítil sem stór fyrirtæki, sem og einkaaðila.“ En hvað með verðið? „Við segjum nú alltaf að það sé betra að tjalda til fleiri en einnar nætur þegar fólk er að byggja eða breyta gamla húsnæðinu. Álið er örlítið dýrara í upphafi en timbur en það er fljótt að jafnast út vegna þess að álið er viðhaldsfrítt. Ef kúnninn óskar eftir því, þá sjá Gluggar ehf. um verkið frá upphafi til enda, við komum og mælum, gerum tilboð og sjáum um alla verkþættina, meira að segja förgun.“
Eyþór segir áherslur fyrirtækisins hafa breyst nokkuð á seinni árum. „Stóra breytingin hjá okkur er kannski sú að við vorum langmest í stórum verkefnum með verktökum fyrir hrun en eftir það  höfum við mest verið í verkefnum fyrir einkaaðila. Til dæmis hafa nýjar og spennandi útfærslur á svalaskjólum fyrir einstaklinga verið mjög vaxandi undanfarið.“

www.algluggi.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga