Lestu.is - Fyrsta rafbókasíðan á Íslandi
Bylting í bókmenntum og lestri

Lestu.is - Fyrsta rafbókasíðan á Íslandi

Það er okkur mikil ánægja að kynna fyrstu íslensku rafbókasíðuna sem við köllum einfaldlega Lestu.is.  Hér verður boðið upp á vandaðar bækur af ýmsu tagi til að lesa beint af tölvunni eða í þeim nýju tækjum sem útbúin hafa verið sérstaklega til þess brúks og eru að ryðja sér til rúms. Fyrsta kastið verður megináherslan á klassískar íslenskar bækur, en smátt og smátt færum við út kvíarnar með nýrri íslenskum bókum og völdum erlendum bókum.  Við stefnum m.a. að því að bjóða upp á heildarverk eftir öll íslensk höfuðskáld og rithöfunda frá fyrri tíð.

Samhliða bókunum verður boðið upp á margs konar ítarefni sem styður textana og hjálpar skólum og einstaklingum að nýta sér þá betur. Þar má m.a. nefna

    kynningar á völdum höfundum og verkum.
    Leshringi um valin verk og/eða höfunda.
    fróðleik af ýmsu tagi, s.s. myndbandsviðtöl við höfunda og annað bókafólk.

Verður allt þetta aðgengilegt á bókaskáp Lestu.is

Eins og áður sagði bjóðum við upp á bækur til niðurhals og staka texta sem miðast við ákveðna stærð. Það verður t.a.m. ekki hægt að sækja einstök ljóð eða örstutta textabúta. Styttri textar, eins og ljóð, verða settir upp í bókum með fleiri ljóðum eða sögum. Geta notendur svo valið hvað þeir nota úr hverri bók.

Af hverju Lestu.is?
Umhverfi bóka, tímarita, dagblaða og alls ritaðs máls hefur þróast ört á undanförnum árum með aukinni tækni og mun á næstu árum þróast enn frekar.  Með tilkomu sérstakra lestölva (Kindle, iPad, eReader o.fl.) má ætla að þróunin verði enn hraðari. Lestölvur sem geta geymt fjölda texta (bóka) eru framtíðin. Í slíkum tölvum er hægt að geyma aragrúa af textum, skoða þá að vild, auk þess sem þær gefa mun meiri útfærslumöguleika en hefðbundnar bækur, þ.e. hægt er að velja stærð leturs, jafnvel hægt að sækja stakar orðskýringar o.s.frv. Má með nokkrum sanni segja að við séum að upplifa byltingu í meðförum ritaðs máls, byltingu sem enn sér ekki fyrir endann á og enginn veit með vissu hvert mun leiða.

Hefur þessi þróun nú þegar leitt af sér breytta umgengni við hið ritaða mál á ýmsum sviðum, eins og má t.a.m. sjá á stöðu og útbreiðslu dagblaða, en nú sækja stöðugt fleiri fréttir og aðrar upplýsingar á Netið og áskrifendum dagblaða fækkar. Getur þetta haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér bæði hvað snertir almennt fréttalæsi og fréttaöflun.

Hvað varðar bókmenntaverk og bækur almennt gefur þessi nýja tækni mikil og fögur fyrirheit, ekki síst m.t.t. eldri texta sem oft á tíðum er erfitt að verða sér úti um nema í bókasöfnum og þá með takmarkaðar notkunarheimildir. Að geta sótt sér eldri texta og bókmenntir milliliðalaust og sett inn á lestölvu kemur til með að  gjörbylta því umhverfi sem menn þekkja,bæði almennt og í námi.

En ef þessi nýja tækni á að njóta sín til fullnustu er nauðsynlegt að hafa mikið magn aðgengilegra texta sem styðja við þróunina. Það er einmitt það sem við á Lestu.is höfum unnið að og munum vinna að í framtíðinni.

Nú þegar höfum við útbúið safn af textum sem hægt er að sækja og í hverri viku bætast nýir textar við. Er það takmark okkar að hafa á boðstólum innan tíðar allan bókmenntaarf okkar Íslendinga, ásamt með völdu erlendu efni.

Vefsíður af þessu tagi er að finna víða úti í heimi, en enn sem komið er hefur lítið verið að hægt að sækja á þennan hátt af íslensku efni. Er ekki seinna vænna að byrja á því þannig að við verðum ekki eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum.

Lestu.is fyrir skóla
Því hefur verið spáð að rafbækur muni í nánustu framtíð leysa hefðbundnar kennslubækur af hólmi að einhverju marki. Víst er að þessi framsetning höfðar til ungs fólks og býður upp á fjölbreytta möguleika, og gæti haft mikinn sparnað í för með sér, bæði fyrir menntastofnanir og heimili.

Erfitt er um þetta að spá, en þó er alveg ljóst að þessi nýja tækni á eftir að hafa mikil áhrif á mennta- og skólamál í náinni framtíð.

Tækniútfærslur og aðstoð
Til að koma til móts við sem flesta notendur, gefst áskrifendum okkar kostur á að sækja textana í ólíkum sniðum, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum best. Teljum við þetta afar mikilvægt, einkum nú, þegar ólík tæki og ólíkar útfærslur lestölva berjast um markaðinn. Þau snið sem við bjóðum upp á í fyrstu eru eftirfarandi:

    Kindle
    flettibókaform fyrir allar tölvur
    ePub
    iPad og iPhone

Ef óskað verður eftir fleiri útfærslum munum við reyna að koma til móts við þær óskir.
Annað sem rétt er að benda á í þessu sambandi er kennslusíða okkar, en við munum setja upp sérstaka síðu þar sem hægt verður að nálgast leiðbeiningar um það hvernig á að sækja efnið í ólíkum sniðum og fyrir mismunandi tæki.

Útprentaðar bækur - Prentað eftir samkomulagi
Þó svo að megináherslan hjá okkur sé lögð á rafbækur sniðnar að þeim tækjum og tólum sem eru að ryðja sér til rúms, ætlum við einnig að bjóða upp á útprentaðar bækur, þ.e. ef óskað er eftir að fá einhverja bókanna okkar sem útprentaða bók, þá bjóðum við upp á slíkar stakar prentanir. Vissulega kostar þá hver bók eitthvað tiltekið, en þjónustan er til staðar fyrir þá sem þess óska. Það er jú alltaf gaman að eiga sumar bækur á prenti.

Bækurnar eru einfaldar í uppsetningu en smekklega unnar og stærðin er samsvarandi hefðbundnum vasabrotsbókum.

Getum við boðið bækur í þessu formi allt upp í 250 blaðsíður, en ef viðkomandi bók er lengri en það skiptum við henni í tvær bækur.

Eins og gefur að skilja með slíka prentun þar sem einungis er prentað eftir pöntunum, þá er um heldur dýrari framleiðslu að ræða, en við munum reyna að halda verðinu eins mikið niðri og okkur er mögulegt.  Má ætla að hver prentuð bók kosti í þessu formi um 2.000 krónur og verður það að teljast nokkuð vel sloppið.
Bókaklúbbar og leshringir

Til að hjálpa ykkur að kynnast og tileinka ykkur höfunda og bækur sem þið þekkið ekki, munum við svo í náinni framtíð skipuleggja lestrarhópa um einstakar bækur og stutt námskeið um valdar bækur eða höfunda.

Samhliða því verður boðið upp á alls kyns ítarefni s.s. vídeóviðtöl við sérfræðinga og höfunda og annað.  Já, nú geta allir þrætt víðar lendur íslenskra bókmennta með okkur á Lestu.is. 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga