viðey
Viðey er stór eyja í Kollafirði rétt utan við Reykjavík. Hún er 1,7 km² að flatarmáli og rís hæst 32 metra yfir sjávarmáli. Vesturhluti hennar er stór höfði sem tengist megineynni um mjótt eiði og kallast Vesturey. Í eynni eru Viðeyjarkirkja og Viðeyjarstofa. Í október 2007 var reist listaverkið Friðarsúlan í eynni.

Talið er að búið hafi verið í eyjunni frá því fljótlega eftir landnám. 1225 var þar stofnað klaustur af Ágústínusarreglu sem stóð til 1550. Síðar var rekið í eynni bú frá Bessastöðum og síðar holdsveikraspítali. Um miðja 18. öld reisti Skúli Magnússon það hús sem nú stendur í eynni og bjó þar frá 1754. 1817 keypti Magnús Stephensen eyjuna og rak þar búskap og stofnaði þar prentsmiðju.

1907-1914 var Milljónafélagið umsvifamikið í útgerð og skipaflutninga í eynni sem ætlunin var að gera að umskipunarhöfn. Á þeim árum myndaðist í eynni um 100 manna þorp á Sundabakka á austurenda Viðeyjar. Kárafélagið keypti síðar eigur Milljónafélagsins um 1920 þegar það síðarnefnda varð gjaldþrota og rak þar síðan togaraútgerð og fiskvinnslu. Á þessum árum var Viðeyjarstöð einnig umskipunarhöfn Sameinaða danska gufuskipafélagsins, þar var kolageymsla fyrir dönsku varðskipin og birgðastöð og umskipunarhöfn DDPA-félagsins. Mikil vatnssala var einnig í Viðey og salt- og kolasala. Seinna fór að halla undan fæti. 1931 hætti Kárafélagið starfsemi og þorpið fór síðan alveg í eyði 1943.

Vatnstankurinn á Sundabakka er núna félagsheimili Viðeyinga (aðsetur Viðeyingafélagsins).

1986 eignaðist Reykjavíkurborg Viðey alla með kirkjunni og Viðeyjarstofu, en sá hluti eyjarinnar var gjöf ríkisins til borgarbúa á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar. Fyrir átti borgin mestan hluta eyjarinnar.

Náttúra Viðeyjar
Ýmsar nytjajurtir vaxa í Viðey. Þar er mikið um vallhumal og hægt að finna túnætisveppi. Víða um eyjuna vex kúmen. Skúli fógeti flutti kúmenjurtina til Viðeyjar. Skúli mun hafa sótt það austur að Hlíðarenda, en Gísli Magnússon, sýslumaður þar, einn af fyrstu íslensku náttúrufræðingunum jafnan nefndur Vísi Gísli, mun hafa flutt plöntuna til íslands um 100 árum áður en Skúli settist að í Viðey, þ.e. um 1660. Á haustin er oft farið í ferðir út í Viðey til að tína kúmen.
Útilistaverk í Viðey

Í Viðey eru nú tvö útilistaverk eftir heimsþekkta listamenn; Áfangar eftir Richard Serra og Friðarsúlan eftir Yoko Ono.

Áfangar eftir bandaríska myndhöggvarann og mínimalistann Richard Serra er röð af súlnapörum úr stuðlabergi sem liggja umhverfis Vestureyna. Verkið var sett upp fyrir Listahátíð í Reykjavík 1992.

Friðarsúlan er verk eftir japansk-bandarísku listakonuna Yoko Ono, sett upp til minningar um John Lennon árið 2007. Verkið er stór ljóskastari sem sendir ljóskeilu upp í loftið frá sólarlagi til miðnættis tvo mánuði að hausti, frá gamlársdegi til þrettánda og við vorjafndægur.

Frá 2005 til 2007 stóð verkið Blind Pavilion eftir Ólaf Elíasson ofan við landstjórahúsið í Viðey. Það var lítill skáli með veggi úr hallandi mislitum glerflötum. Verkið var upphaflega framlag Danmerkur til Feneyjatvíæringsins árið 2003.
tekið af wikipedia

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga