Hugvit og Hönnun er blað um málefni sem koma okkur við
Hugvit og Hönnun er blað um málefni sem koma okkur við og fjalla um okkur sjálf sem þjóð. í efnistökum sækjum við í þann skapandi kraft sem hefur gert okkur kleift að komast af í þúsund ár við nyrstu voga. Við viljum fjalla um þær auðlindir sem hafa gagnast okkur til að byggja upp kraftmikið og mannvænt samfélag, það ríkidæmi sem býr í huga og höndum íslendinga, þá þekkingu sem þessi hámenntaða þjóð hefur sótt sér í innlenda sem erlenda skóla – eða hefur þegið að erfðum frá brjóstviti forfeðra og –mæðra. Við viljum standa vörð um náttúru okkar og umhverfi og leggjum því ríka áherslu á að koma á framfæri fyrirtækjum sem hafa slíkt að yfirlýstri stefnu.
í þessu fyrsta tölublaði er arkitektúr í forgrunni hjá okkur. Við heimsækjum Sigurð einarsson arkitekt hjá batteríinu – sem var rétt í þessu að hljóta fyrstu verðlaun fyrir skipulagstillögu í bergen. einnig fjöllum við um verðlaunatillöguna og starfsemi batterísins. Við forvitnumst um heilsutengda þjónustu, hvort sem er hefðbundna eða óhefðbundna, gerum úttekt á þjónustunni sem er í boði í glæsibæ sem lengi vel var stærsta verslunarmiðstöð á íslandi og spratt upp úr hugviti Silla og Valda. Við kynnum handverk kvenna fyrr og nú - ekki síst með tilliti til endurnýtingar – skoðum ýmislegt sem gagnast heimilum okkar og brögðum aðeins á mat og drykk. ennfremur forvitnumst við um hvað er að gerast í útflutningi á hugviti og hernig verja skal heimilið fyrir eldhættu.
Næsta tölublað Hugvits og Hönnunar kemur út 1. desember. megináhersla í því blaði verður jólahaldið í mat og drykk, hvers kyns gjafavöru, hönnun og hugmyndaflóru. þriðja tölublað Hugvits og Hönnunar kemur síðan út 29. desember. í því tölublaði verða orkumál í forgrunni, auk þess sem við fjöllum um heilsu og heilbrigði, námskeiðahald og mannbætandi lífsstíl.

Með von um að þú njótir þess sem við höfum fram að færa, lesandi góður.

Súsanna Svavarsdóttir, ritstjóri

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga