Það er enginn stikkfrí frá bruna
Mannvirkjastofnun er að stofni til gamla Brunamálastofnun með viðbótum frá næstliðnum áramótum.  Við fengum allt rafmagnseftirlit til okkar 2009 og 1. janúar 2011 fengum við allan byggingariðnaðinn í fangið. Þessu hafði verið dreift út um margar stofnanir og ráðuneyti en var þarna safnað saman á einn stað, segir Guðmundur Gunnarsson yfirverkfræðingur hjá Mannvirkjastofnun.
„Þessi svið eru svipuð að stærð en vöxturinn mest í byggingum vegna þess að það hafa í sjálfu sér ekki orðið miklar breytingar á verkefnum slökkviliðs og rafmagnseftirlits þessi misserin. Það er aðallega vöxtur í byggingunum vegna þess að stjórnsýslan  var út um allar trissur en hefur nú verið safnað á einn stað. Síðan vorum við að gera nýja byggingareglugerð og erum að koma henni í notkun. Það hafa staðið deilur um að hún sé að auka byggingarkostnað vegna hertrar kröfu um einangrun og það fer mikill tími í innleiðingu á reglugerðinni. Í nýju reglugerðinni eru miklar breytingar í sambandi við uppbyggingu hennar, þannig að allir sem vinna í byggingariðnaðinum hafa þurft að byrja að lesa hana upp á nýtt. Hún gengur lengra en gamla reglugerðin í markmiðssetningu, gerir, til dæmis meiri öryggiskröfur hvað varðar bruna.“

Búnaður sem slekkur á eldavélinni
„Það eru auknar kröfur gagnvart öryggistækjum í húsum, reykskynjara og slíku. Áður var krafa um einn skynjara í íbúð. Núna er viðmiðunin sú að það sé einn skynjari á 80 fm.
En það er sáralítill kostnaður. Í íbúðum fyrir aldraðra þarf til viðbótar alltaf að vera viðvörunarkerfi.  Það hefur sýnt sig að eftir fimmtugt tvöfaldast hættan á því að farast í bruna. Við erum með svo fá brunaslys hér að við sjáum kannski ekki neitt ákveðið mynstur hjá eldra fólkinu og yngra fólkinu, en við sjáum þetta í tölum erlendis frá. Þegar svo fólk verður enn eldra sjáum við bruna út frá eldavélum.
Norðmenn hafa tekið á þessu. Þeir setja upp búnað sem slekkur á eldavélinni ef hún verður of heit. Alzlheimer sjúklingar, til dæmis, gleyma því að þeir séu að elda, fara að gera eitthvað annað, til dæmis í gönguferð eða bara að sofa.  Þetta tæki er komið  inn í reglugerðir á Norðurlöndunum. Við ætlum að gera upplýsingarit um þennan búnað og þeim verður komið á framfæri  við Félagsþjónustuna vegna heimaþjónustunnar. Þetta er mjög sniðugur búnaður og verður örugglega  tekinn upp hér  innan ekkert langs tíma.“

Reykskynjarar og rafhlöður
„Eitt af því sem  kostar mörg mannslíf, bæði hér og erlendis eru brunar út frá sígarettum. Núna þurfa þær allar að vera það sem er kallað sjálfslökkvandi. Þetta eru reglur sem koma frá Evrópusambandinu. Finnar innleiddu þessar reglur fyrir þremur árum, fyrsta hálfa árið urðu fimmtán prósent færri brunar út frá sígarettum hjá þeim og sú þróun hefur haldið áfram. Samkvæmt þeirra tölum bjargar þetta 10-15 mannslífum á ári 
Það sem er sláandi í okkar úttektum á brunum er ástand reykskynjara í húsum. Á þrjátíu ára tímabili hafa farist fimmtíu manns í brunum í íbúðarhúsum og við vitum fyrir víst um einn stað sem reykskynjari var í lagi, og það leikur grunur um einn annan. Í flestum tilvikum er engin rafhlaða í reykskynjaranum. Lögreglan rannsakar orsakir bruna, en við skoðum fyrst og fremst hvort eitthvað sé að slökkvistarfinu, eða hvort eitthvað hafi verið að í húsinu, eins og hvort reykskynjarar hafi verið í lagi. Ein afsökunin sem við heyrum er að það sé töluvert mál fyrir eldra fólk að klifra upp í stiga og skipta um rafhlöðu. Nýja reglugerðin kveður á um að reykskynjarar séu tengdir við rafmagnskerfið. Einnig eru til skynjarar sem hafa rafhlöðu sem endist jafn lengi og skynjarinn sjálfur þ.e. í 10 ár.“

Ódýrasta líftryggingin
„Í dag er hægt að fá alls kyns reykskynjara, sem hafa jafnvel fengið hönnunarverðlaun. Við höfum heyrt þá afsökun að fólk vilji ekki hafa reykskynjara vegna þess að þeir séu svo ljótir. Það eru iðnhönnuðir að vinna að því að gera öryggisbúnað smekklegan, bæði reykskynjara og handslökkvitæki. Það er auðvitað verið að spila inn á pjattmarkaðinn – en ef það bjargar mannslífum er mér alveg sama. Það er sama hvaðan gott kemur. Svo er til fólk sem heldur því fram að þeir séu svo dýrir. En það er hægt að fá ágætis skynjara á 2000 krónur og rafhlaðan kostar þig 500 krónur  á ári. Það er varla hægt að fá ódýrari líftryggingu – og hún gagnast þér sjálfum. Þetta er hálfur sígarettupakki á ári.“
Guðmundur segir 40 prósent bruna verða í fjölbýlishúsum en 17 prósent í einbýlishúsum. Engu að síður er helmingur fórnarlamba bruna í einbýlishúsunum. Þar komi nálægðin sem er í fjölbýlishúsum við sögu. Aðrir íbúar í stigaganginum heyri í reykskynjurum, finni brunalykt, og svo framvegis. „Reykskynjari , slökkvitæki og dyrnar að íbúðunum er það sem skiptir mestu máli í fjölbýlishúsum. Þar eiga að vera hurðir sem þola eld í þrjátíu mínútur. Þær eru miklu þéttari, það heyrist miklu minna inn i íbúðina þína og þú finnur miklu minni lykt út úr öðrum íbúðum. Þeir sem ekki borða skötu eru til dæmis lausir við skötulyktina. Þær eru það þéttar að það verða töluvert minni reykskemmdir í öðrum íbúðum í stigaganginum en þar sem gömlu lélegu hurðarnar eru. Slökkviliðið býður húsfélögum upp á þá þjónustu að koma í heimsókn og gera úttekt á ástandi brunavarna og það kostar ekkert að þiggja þá þjónustu.“

Duftslökkvitækin best
„Það eru mörg sveitarfélög sem hafa ekki efni á að reka fullnægjandi slökkvilið. Þar ganga björgunarsveitarmenn í hús og bjóðast til að setja upp skynjara, skipta um rafhlöður og þannig er hægt að auka öryggi fólks verulega fyrir töluvert minni pening en að kaupa slökkvibíl. Þeir gera við slökkvtæki sem eru biluð og setja þau síðan upp aftur. Þetta er að skila alveg verulegu öryggi. Sveitarfélögin styrkja björgunarsveitirnar og fá þessa þjónustu í staðinn og björgunarsveitin fær verkefni.“
Guðmundur segir að banaslys af völdum bruna og annarra slysa sé mjög lág. „Ef við værum með sömu slysatíðni og 1980, værum við að sjá hundrað fleiri dauðsföll á ári. Allir þær slysavarnir sem við erum með, eru að spara okkur hundrað mannslíf á ári.  Það væri eins og mannskaðinn sem varð í snjóflóðunum í Súðavík og Flateyri yrði á hverju ári. Þetta eru tölfræðilegar staðreyndir, hrárar og ótúlkaðar. Miðað við Norðurlandaþjóðirnar erum við hálfdrættingar í manntjónum vegna bruna og þær hafa sett sér það markmið að vera komnar niður í þær tölur sem Íslendingar eru með í manntjónum árið 2020.
Hvað slökkvitæki á heimilum varðar segir Guðmundur Mannvirkjastofnun ráðleggja það tæki sem fólki um allan heim er ráðlagt að nota – það er að segja, sex kílóa dufttæki. „Það eru vissulega töluverð óþrif fylgjandi notkun þeirra, en þegar þú skoðar óþrifin af þeim ertu að bera þau saman við óbrunnin hús. En ef þú ert ekki með svona tæki og bíður í 10-15 mínútur eftir slökkviliði – þá ertu virkilega farin að sjá óþrif og skaða. Þau eru miklu öflugri en froðutækin og þú getur notað þau á allar gerðir elda t.d. gas og eld í rafbúnaði.  Almennileg heimilistrygging, öflugir reykskynjarar og svona slökkvitæki er það sem fólk á að vera með á heimilum sínum. Það er aldrei hægt að hvetja fólk nógu mikið til að vera með heimilið sitt rétt tryggt. Það er enginn stikkfrí frá bruna – og svo er mikilvægt að muna 112.
www.mannvirkjastofnun.is">
www.mannvirkjastofnun.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga