Þekking og verkvit til útflutnings
Gátt til útlanda var yfirskrift lokaðrar ráðstefnu sem haldin var hér á landi 16. október síðastliðinn. Að ráðstefnunni stóð íslenska vatnsútflutningsfyrirtækið Brúarfoss og kanadísku fyrirtækin DeSC International og góðgerðarfélagið On Guard for Humanity. Markmiðið var að kynna íslenskum fyrirtækjum þau sóknarfæri sem felast í aðstoð við uppbyggingu í þriðja heims ríkjum og flóttamannabúðum víða um heim. Brúarfoss Iceland ehf. samdi við On Guard for Humanity um útflutning vatns í gámum til flóttamannabúða Sameinuðu þjóðanna. Fyrsti farmurinn fór héðan frá Íslandi 15. október til Panama þar sem einn af fimm vatnsmóttökustöðum flóttamannahjálpar SÞ er staðsettur. Hinir eru í Hong Kong, Dubai, Kanaríeyjum og Kenýa. Hver stöð þjónar ákveðnum landsvæðum. Framundan eru framkvæmdir stórra og smárra verkefna sem íslensk fyrirtæki munu koma að í gegnum Brúarfoss verkefnið.

Á ráðstefnuna mættu alþingismenn, framkvæmdastjórar, arkitektar, verkfræðingar og verktakar og nú þegar hafa nokkur íslensk og kanadísk fyrirtæki sýnt verkefninu áhuga og þó nokkur farin að skrá sig til þátttöku. Þar er um að ræða verkfræðistofur, arkitektastofu, einnig fiskverkunarfyrirtæki, svo eitthvað sé nefnt, sem gjarnan vilja flytja út þekkingu – og þá aðallega til Afríku. Verið er að leita að fyrirtækjum sem geta lagt sitt á vogarskálarnar til að byggja upp samfélög, þannig að þau eigi þess kost að verða sjálfbær. Helst er um að ræða virkjanir, hafnarframkæmdir, opinberar bygginar, verksmiðjuhús, verkefnastjórnun,ýmsar tæknigreinar, spítala og skóla, auk fleiri verkefna sem breyta samfélögum til betri vegar. Hugmyndafræðin byggir á því að uppbyggingin sé vistvæn og græn og dragi úr notkun jarðefnaeldsneytis. Markmiðið er að hjálpa þessum samfélögum að byggja upp verkþekkingu. Þörfin er gríðarleg, ekki síst í beislun og notkun hreinnar orku.

John Agyekum Kofuor, fyrrum forseti Ghana, er formaður ráðgjafahóps Brúarfoss – sem verður að teljast gríðarlega traustvekjandi. Hann er stjórnarformaður Sanitation and Water for All sem er samstarfsverkefni Alþjóðabankans og Unicef.  Hann er einnig stjórnarformaður JAK mannúðarstofnunarinnar. Sú stofnun einbeitir sér aðallega að Afríku þar sem möguleikarnir á verkefnum af því tagi sem við veljum eru ótakmarkaðir.  Einnig hefur hann veitt fjölda nefnda á vegum Sameinuðu Þjóðanna forstöðu og gegnir þar nú ráðgjafahlutverki.

Kufuor, sem kallaður hefur verið „ljúfi risinn“ vegna þess hve hávaxinn hann er, nam hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði í Oxford á yngri árum. Hann sneri aftur til Ghana á valdatíma Nkruma og gerðist mikilvirkur í andstöðunni við hann og hans stjórnarstefnu.  Flokk sinn leiddi hann síðan til sigurs árið 2000, undir kjörorðinu „Zero Tolerance for Corruption“ (ekkert umburðarlyndi gagnvart spillingu) og varð þá forseti Ghana. Fjórum árum seinna náði Koufour endurkjöri og sat því alls í átta ár. Á valdatíð sinni náði hann að reisa Ghana úr öskustónni. Til þess þurfti hann að þiggja lán frá Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum – sem var auðvitað ekki vel séð og var honum legið á hálsi fyrir að hafa steypt þjóðinni í djúpt skuldafen. Kufuor svaraði því til að það hefði hann ekki gert, heldur hefði hann hætt að þegja yfir því hversu illa stödd þjóð hans í rauninni væri.

Koufour lagðist í gríðarlegar endurbætur á hagkerfi Ghana, endurreisti fjölda fyrirtæja í námuvinnslu og bætti kjör þjóðarinnar smám saman. Þótt andstæðingar hans heima fyrir létu ófriðlega, lét hann sér fátt um finnast og hélt sínu striki. Á forsetatíð sinni ferðaðist hann til sextíu og þriggja landa – sem þótti sýna hversu sterka stjórn hann hafði í kringum sig. Hann gat alltaf snúið aftur án þess að hafa áhyggjur af því að hafa verið steypt af stóli og án þess að valdarán hefði verið framkvæmt. Kufuor náði eyrum vestrænna ráðamanna betur en aðrir leiðtogar Afríku höfðu gert. Árið 2004 var hann talsmaður þeirra sex leiðtoga frá Afríku sem mættu á G8 ráðstefnuna í Gorgiu. Í hugum vestrænna leiðtoga varð hann þar með fulltrúi hinnar nýju, framsýnu kynslóðar stjórnmálamanna sem leiða endurreisn Afríku.

Eftir að valdatíma Kufuor lauk, hefur hann verið óþreytandi að ferðast um heiminn á vegum Sameinuðu þjóðanna og Afríkusamtakanna til að vekja athygli á því að  43.6 milljónir manna búa í flóttamannabúðum víðs vegar um heiminn; benda á þá staðreynd að það deyja eitt þúsund og fjögur hundruð börn undir fimm ára aldri daglega vegna skorts á hreinu vatni. Hann hefur lagt metnað sinn í að finna lönd og fyrirtæki, stór sem smá, sem eru tilbúin til að leggja sitt af mörkum til að bæta hag þeirra sem búa í þróunarlöndunum og flóttamannabúðum. Hér á Íslandi er nóg af vatni til að slökkva þorsta þúsunda á dag, hér er til verk- og tækniþekking til að kenna fólki í þróunarlöndum og flóttamannabúðum að nýta auðlindir sem þeir kunna að eiga aðgang að og segjast forsvarsmenn Brúarfoss hlakka til samstarfsins við íslensk fyrirtæki á þessu sviði í framtíðinni.

www.bruarfoss.com
Sjá meira hér


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga