Hin mörgu andlit ástarinnar
Leikhópurinn Artik sýnir einleikinn Hinn fullkomni jafningi eftir Felix Bergsson í Norðurpólunum þessa dagana, einleik um hin mörgu andlit ástarinnar; leitina að ástinni, ástargleði, ástarsorg, löngunina eftir ástinni, óttann við hana og reiðina sem stundum fylgir henni. Með hlutverkin í einleiknum fer Unnar Geir Unnarsson og leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir. Bæði hafa þau lokið námi í leiklist og leikstjórn frá ASAD leiklistarskólanum í London og fluttu heim til Íslands síðastliðið sumar.

„Við erum mjög oft spurð að því hvers vegna við fluttum heim,“ segja Unnar og Jenný. „Okkur finnst það einkennileg spurning vegna þess að við erum íslensk og eigum heima hérna.“ Þau viðurkenna þó að það fylgi því nokkur togstreita að koma heim úr námi frá London vegna þess að skólinn menntaði okkur til að leika í Englandi þar sem hugsunin er dálítið frábrugðin því sem hér er en maður hefur visst bakland. „Maður er óþekkt stærð í leikhúsinu hér og verður að finna einhver ráð til að sýna sig,“ segir Unnar.
„Ég þekkti leikhúsheiminn á Íslandi og fannst hann meira heillandi en breski leikhúsheimurinn. Hér getur maður gert svo miklu meira sjálfur. Það er einfaldara að búa til sitt eigið leikhús hér en í Englandi í allri þeirra skriffinsku. Það finnst mörgum dálítið einkennilegt að við skyldum koma beint heim úr námi í þessari kreppu. En ástandið er ekkert betra í Bretlandi – og þegar upp er staðið er þetta spurning um það hvernig lífið við viljum lifa. Flestir íslensku krakkarnir sem voru með okkur í skólanum ákváðu að vera áfram úti – og þetta er óttalegt hark hjá þeim.“„Það er ekkert vandamál að skilja sína áhorfendur hér. Í Bretlandi þurfti maður alltaf að vera að sveigja sig og beygja til að falla inn í eitthvert mót. Ég þurfti hreinlega að breyta mínum hugsunarhætti til að komast að, hvað þá til að hafa einhverja rödd.“

Þau Unnar og Jenný segja leikhúsheiminn í Evrópu stöðugt vera að renna meira saman og landamæri leikhússins séu að trosna. „Leiðirnar eru svo stuttar og við erum ekkert búin að skera á öll sambönd í London. Bækistöðin er á Íslandi og héðan viljum við vinna. Þetta er einfaldlega spurning um lífsgæði. Hér getum við farið í sund, hér er hreint loft, hlýtt í húsinu, ferskar matvörur og ágæt heilsugæsla. Þessi lífsgæði er nokkuð sem ekki allir eru að skilja. Í London var ég í 20 mínútur að labba í neðanjarðarlestina. Hér er ég í tuttugu mínútur að labba í vinnuna. Þetta eru þau lífsgæði sem við veljum að búa við.“

www.leiklist.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga