Fegurðin, forn og ný
Heimilisiðnaðarfélagið var stofnað árið 1913 og verður því aldargamalt á næsta ári. Hlutverk félagsins er að vernda íslenskan þjóðlegan heimilisiðnað, auka hann og efla, stuðla að vöndun hans og fegurð og vekja áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti er hæfa kröfum nýs tíma með rætur í þjóðlegum menningararfi.
Þetta er bundið í lög félagsins og eftir þeim hefur verið unnið markvisst frá upphafi,“ segir Solveig Theódórsdóttir verslunarstjóri félagsins sem er til húsa að Nethyl 2E í Reykjavík. Þar er einnig til húsa Heimilisiðnaðarskólinn sem rekinn er af félaginu – og býður upp á alls fimmtiu námskeið á haustönn – og annað eins á vorönn.

Sívinsæl námskeið
Heimilisiðnaðarfélagið hóf snemma að vera með kennslu og leiðbeinandi námskeið en hlutverk þess breyttist við tilkomu húsmæðra- og verknámsskóla. Heimilisiðnaðarskólinn var síðan stofnaður árið 1967. Solveig segir námskeiðin alla tíð hafa notið mikilla vinsælda en það sé breytilegt hvaða námskeið njóti mestra vinsælda. Þegar Solveig er spurð hvað einkenni þjóðlegan íslenskan heimilisiðnað segir hún það fyrst og fremst íslensku ullina og bætir við: „Íslenskur heimilisiðnaður hefur alltaf verið fegrandi. Hann hefur verið stundaður til að fegra fatnað og híbýli og þegar handverk frá fyrri öldum eru skoðuð, má finna hreinustu listaverk. Það er mikið um fallega ofna boðrenninga og gólfmottur sem og útskorna muni. Síðan eru kniplingarnir, orkerínging, baldýringin og allur útsaumurinn á þjóðbúningunum – að ekki sé talað um víravirkið.“
Þegar Solveig er spurð hvort þjóðbúningagerðin sé vinsæl, segir hún það heldur betur vera.  „Það er fjöldi kvenna hér að vinna faldbúninga, auk annarra þjóðbúninga. Faldbúningarnir eru einfaldlega svo fallegir og mikil listaverk. Til þess að vinna allan búninginn sjálfur, þarf maður að læra baldýringu og orkeringu, jafnvel knipl og margar læra líka að vinna víraverkið sjálfar. Við kennum búninginn frá upphafi til enda og hjá okkur fæst allt efni í hann.“

Útgáfa og félagsstarf
Að Heimilisiðnaðarfélaginu standa um 800 félagsmenn í dag,  viðsvegar að af landinu. Félagið gefur út tímaritið Hug og Hönd sem dreift er til allra félagsmanna, auk þess sem þeir fá tíu prósent afslátt af námskeiðum og vörum. Einnig hefur félagið gefið út fjölda rita og bóka í gegnum tíðina, meðal annars hina undurfögru Íslensku Sjónabók í samvinnu við Þjóðminjasafnið og Listaháskólann.  Þriðja miðvikudag hvers mánaðar er opið hús hjá félaginu. Þá er heitt á könnunni, félagsmenn koma margir hverjir með eitthvað gott með kaffinu.  Á haustin er svo Gorblót, sem er ævagömul hátíð til að fagna því að sláturtíð er lokið.

www.heimilisidnadur.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga