Ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu hittast
Í gegnum árin hafa okkur borist upplýsingar um mikla fjölgun ferðamanna sem sækja Ísland heim og hvernig ferðamannaiðnaðurinn verður sífellt stærri þáttur í þjóðarframleiðslunni. Það fer ekki eins mikið fyrir því gríðarmikla starfi sem liggur að baki því að taka á móti þessum straumi ferðamanna og að veita þá þjónustu sem þarf til að viðhalda eftirspurninni. Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins hafa þannig unnið ötult starf í að samræma og efla ferðaþjónustuna og gæta hagsmuna ferðaþjónustuaðila – nú síðast með ferðasýningunni Hittumst þar sem fagaðilar hittust og kynntu þjónustu og vörur sínar. Þar var af mörgu að taka og má þar meðal annars nefna nýstárleg forrit fyrir snjallsíma, sérsniðnar ferðir fyrir samkynhneigða, hátíðaviðburði og ný gæða- og umhverfiskerfi fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Ingibjörg Guðmundsdóttir, formaður Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins, segir að sérlega ánægjulegt hafi verið að sjá hversu mikið hafi verið af nýjungum og ferskum hugmyndum á sýningunni. „Það eru sífellt að koma inn nýir aðilar á þennan markað með spennandi hugmyndir, bæði hvað varðar markaðslausnir og hugmyndir að nýjum ferðum. Það er sérlega gaman að sjá hvernig fólk er sífellt að draga fram nýjar náttúruperlur og beina straumnum aðeins frá þekktari viðkomustöðum. Það er auðvitað vonandi að sem flestar þessara hugmynda hljóti góðan meðbyr, en það er einmitt mikilvægt að hafa vettvang eins og Ferðamálasamtökin fyrir nýja aðila til að fá þann stuðning og ráðgjöf sem þarf til að fóta sig á þessum markaði. Það koma margir nýjir aðilar inn á þenna markað á ári hverju og er allur gangur á því hvernig málum er háttað hjá þeim fyrirtækjum, en það kemur fyrir að fyrirtæki starfi ekki með tilskyldum leyfum eða eftir settum reglum. Við viljum því fá alla inn í Ferðamálasamtökin og auka vitund um þessar reglur sem við störfum öll eftir og stuðla þannig að bættri ferðaþjónustu,“ segir Ingibjörg.

Mikilvægt að hittast
Ingibjörg segir það ákaflega mikilvægt fyrir fólk sem starfar í ferðaþjónustu að hittast reglulega og bera saman bækur sínar. „Hugsunin er að fá alla á sama stað reglulega svo við vitum hvað aðrir eru að gera, þannig að við séum ekki öll að vinna hvert í sínu horni. Þannig getum við líka styrkt samstarf og bent á hvort annað, en þannig getur aðili sem veitir gistiþjónustu bent á viðeigandi fyrirtæki sem starfar í afþreyingu og öfugt, í stað þess að hafa takmarkaðar upplýsingar um hvað er í boði. Með þessu viljum við reyna að gæta hagsmuna ferðaþjónustuaðila og gera iðnaðinn öflugri, bæði þjónustu- og gæðalega séð, og tryggja það að ferðaþjónustan fái þann stuðning sem hún þarf á að halda,“ segir Ingibjörg. Samtöking halda þannig reglulega fundi fyrir félagsmenn og svo ráðstefnur á borð við Hittumst, en einnig hafa samtökin boðið upp á ýmiskonar námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila.

Vernda þarf þjóðargersemar
Ingibjörg telur að ef haldið verði rétt á spilunum sé framtíðin björt í ferðamannaiðnaðinum, enda sé hugmyndaflug manna í raun einu takmörkin þar. „Það hefur verið bent á að ágangur ferðamanna sé mikill á vinsælustu ferðamannastöðunum, en uppbygging á þessum stöðum hefur einfaldlega ekki verið í samræmi við aukningu heimsókna. Ég er þeirrar skoðunar að landið þoli vel fleiri ferðamenn, en til þess þurfum við auðvitað að standa vörð um náttúruperlurnar okkar. Ferðamálasamtökin eru meðvituð um þetta og reynum við að hafa áhrif hjá stjórnvöldum og öðrum til að tryggja okkar hagsmuni, sem eru auðvitað líka hagsmunir þjóðarinnar. Ég er þeirrar skoðunar að stjórnvöld muni áður en langt um líður grípa til viðeigandi aðgerða, hvort sem það væri í formi náttúrupassa eða eitthvað annað, og þá getum við tryggt áframhaldandi gæðaþjónustu við ferðamenn sem hingað koma,” segir Ingibjörg.

Síminn tekur við
Ingibjörg segir ljóst að farsímar, þá sérstaklega snjallsímar, muni fá stóraukið vægi í ferðaþjónustu á næstu árum. „Aðgengi að upplýsingum um ferðaþjónustu hefur stóraukist og getur fólk nú skipulagt heilu ferðirnar í raun og veru hvar sem er. Eins og sjá má á þessari ráðstefnu hafa íslenskir ferðaþjónustuaðilar ekki látið þessi tækifæri fram hjá sér fara og eigum við örugglega eftir að sjá aukningu á því. Það hafa vitaskuld heyrst áhyggjuraddir um arðsemi ferðaþjónustunnar samhliða aukinni tæknivæðingu, en þetta er það mikilvægur iðnaður að stjórnvöld hljóta að taka á því með viðeigandi hætti,“ segir Ingibjörg.

Álfar og Jólaþorp í Hafnarfirði
Ásbjörg Una Björnsdóttir, verkefnastýra Jólaþorpsins í Hafnarfirði og Lárus Vilhjálmsson, annar eigenda Álfagarðsins í Hellisgerði voru fulltrúar Hafnafjarðarbæjar á Hittumst.
Ásbjörg var á fullu við að skipuleggja og kynna dagskrá Jólaþorpsins sem hún segir sífellt verða glæsilegri. Hún lofar þægilegu og fjölskylduvænu umhverfi til að m.a. sjá um jólainnkaupin og til að koma sér í hátíðarskapið. Í Jólabænum má meðal annars týna sér á jólamarkaði, kórsöng, jólaballi og almennri jólastemmningu. Ásbjörg býður utanbæjarfólk sérstaklega velkomið og bendir á að strætisvagnar fara beinustu leið að og frá Hlemmi og stoppa beint fyrir framan þorpið.
Lárus hefur nýverið, ásamt eiginkonu sinni Ragnhildi Jónsdóttur, sett á laggirnar Álfagarðinn sem leggur upp úr að kynna fólk fyrir álfunum sem búa í Hafnafirði. Lárus segir álfana vera mikið rósemisfólk og að þeir fagni hátíðunum með mönnunum í frið og ró. Hjónakornin hafa nýverið gefið út bókina Hvað þarf til að sjá álf? sem, ótrúlegt en satt, er eftir álf sem kallast Fróði. Bókina ritaði Ragnhildur sem talar reglulega við álfa og gat þannig fest frásagnir Fróða á blað.

Brúðkaup samkynhneigðra vinsæl á Íslandi
Eva María Th. Lange og Hannes Páll, voru að kynna ferðaskrifstofu sína, Pink Iceland, sem er fyrsta sinnar tegundar sem sérhæfir sig í ferðum fyrir samkynhneigða, tvíkynhneigða og transfólk. Eva María segir að ástæðan fyrir því að Ísland henti vel fyrir slíka þjónustu sé hve réttindi þessa hópa séu mikil hér á landi. Þannig hafi giftingar samkynhneigðra verið afar vinsælar hér á landi og hafa Pink Iceland þegar skipulagt fjölda slíkra brúðkaupa. Eins segir Eva María að þó réttindi samkynhneigðra séu tryggð víða, þá séu Íslendingar sérlega afslappaðir og séu í raun lítið að skipta fólki upp í hópa, en þannig geti viðskiptavinir þeirra notið sín hvað best.

Út um allar trissur í fjársjóðsleit
Hugbúnaðarfyrirtækið Locatify hefur tekið snjallsímamarkaðinn með trompi og var að kynna snjallsímaforrit sem bjóða upp á nýstárlegar nálganir við ferðaþjónustu. Með forritinu SmartGuide er í raun hægt að fá leiðsögumann í símann, en með GPS staðsetningarbúnaði símans er hægt að nálgast leiðsögn með tali, kort og myndir um staðinn sem þú ert á hverju sinni. TurfHunt forritið er nokkurs konar fjársjóðsleit, en með forritinu keppast hópar eða einstaklingar við að ná á ákveðna áfangastaði þar sem þeir fá upplýsingar um hvert skal halda næst þar til fyrstur keppenda kemst á endapunktinn.

Gæði og öryggi út á við
Alda Þrastardóttir og Áslaug Briem voru að kynna Vakann sem er kerfi sem er fyrst og fremst hugsað sem verkfæri til að aðstoða þátttakendur við að auka gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Áslaug segir að mikil eftirspurn hafi verið eftir slíku kerfi og áhuginn mikill, enda leggi þjónustuaðilar kapp á að geta sýnt öryggi og gæði sinnar þjónustu út á við.

www.ferdamalasamtok.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga