Icelandic Times í samstarf við Já
Já hefur skrifað undir samstarfssamning við Land og sögu, sem gefur út tímaritið Icelandic Times. Samningnum er ætlað að efla enn frekar efnistök á ferðavef Já, Iceland.ja.is. Vefurinn er sérstaklega ætlaður erlendum ferðamönnum sem hafa hug á að sækja Ísland heim og eru öll fyrirtæki sem skráð eru í Símaskránni aðgengileg í gegnum vefinn.
„Já vildi leggja sitt af mörkum til ferðaþjónustunnar til að hægt væri að nálgast allar upplýsingar á einum stað,“ segir Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir, verkefnisstjóri Iceland.ja.is. „Við höfum stöðugt verið að bæta við nýjungum, til dæmis GPS staðsetningu fyrirtækja og leiðbeiningum um hvernig best sé að keyra á milli staða. Settar hafa verið inn allar helstu upplýsingar um Ísland, kennileiti og helstu viðburði. Öll fyrirtæki sem eru með símanúmer í Símaskránni eru skráð á vefinn en einnig hefur fjöldi fyrirtækja skilað inn viðbótarskráningu, svo sem myndum og upplýsingatexta um fyrirtækið.”
Að sögn Jóhönnu mun samstarfið við Icelandic Times koma sér mjög vel fyrir vefinn og mun gera það mögulegt að birta fleiri nýjar greinar en áður. Til að byrja með mun vefurinn vikulega birta grein vikunnar frá Icelandic Times en í framhaldinu munu greinar bætast við jafnt og þétt.

Iceland.ja.is og Stjörnur.is

Aðspurð hvort vefurinn komi aðeins til með að vera á ensku, segir Jóhanna áhersluna enn sem komið er vera á enskumælandi vef. „Það tekur tíma að byggja upp svona vef og markmiðið er að halda því áfram og gera vefinn enn aðgengilegri og betri. Það er það sem verður einblínt á til að byrja með.”
Nýjasta varan frá Já er Stjörnur.is appið, sem byggt er á vefnum Stjörnur.is. Jóhanna segir að nú sé verið að vinna að því að tengja appið og Stjörnur.is vefinn meira við ferðavefinn. Dæmi um þetta samstarf er meðal annars nýleg grein um tíu bestu veitingastaði á Íslandi, sem byggir á ummælum íslenskra notenda stjörnur.is.

Finndu þjónustuaðila nálægt þér

Jóhanna segir sérstöðu Iceland.ja.is meðal annars felast í því að vefurinn aðlagist skjástærð. „Þú getur jafnauðveldlega skoðað vefinn í spjaldtölvu eða farsíma og í tölvu. Þetta kemur sér afar vel fyrir ferðamenn á leið um landið. Strax á forsíðunni er dálkur sem heitir „Locate service near you“ þar sem hægt er að slá inn tegund þjónustu sem verið er að leita að, svo sem gistihús eða pizzustað, og þá finnur vefurinn sjálfkrafa næsta slíkan stað miðað við staðsetningu þess sem er að leita.“
Iceland.ja.is opnaði í janúar á þessu ári og hefur því lokið sinni fyrstu sumarvertíð ef svo má að orði komast. Notkunin á vefnum hefur aukist hratt með hverjum mánuðinum sem líður og áhugi erlendra ferðaþjónustufyrirtækja sem selja ferðir til Íslands er líka greinilega að aukast.

Reiknar út vegalengd og aksturstíma
Jóhanna segir vefinn líka bjóða upp á vegvísun. Þá getur ferðalangurinn slegið inn kennileiti eða fyrirtæki og vefurinn reiknar nákvæmlega út vegalengd og aksturstíma fyrir hann.
„Á komandi ári stefnum við að því að bæta Iceland.ja.is enn meira og við hlökkum til að halda áfram að bjóða ferðamönnum upp á allar upplýsingar sem þeir þurfa og vilja þegar leggja á í ferð til Íslands um leið og við aukum áhugavert efni á vefnum með samstarfinu við Icelandic Times.”

www.ja.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga