Umhverfisvottun skipulags
Nú er unnið að skipulagi og hönnun nýs heilsuþorps á Flúðum í Hrunamannahreppi og verður það fyrsta sinnar tegundar í Íslandi. Við val á staðsetningu var stuðst við niðurstöður þarfa- og markaðsgreiningar á innlendri og erlendri eftirspurn eftir heilsutengdri ferðaþjónustu sem nýtur ört vaxandi vinsælda í heiminum. Niðurstöður úr athugun á landnotkunarmöguleikum og aðlögun að núverandi samfélagi voru einnig hafðar til hliðsjónar. Það sem að réði úrslitum við staðarvalið var nálægð við höfuðborgarsvæðið og Keflavíkurflugvöll, nálægð við marga af vinsælustu ferðamannastöðum á landinu, græn ásýnd Flúða, jarðhiti, ræktunarmöguleikar og núverandi þjónusta og mjög jákvæð sveitarstjórn.
Þorpið mun rísa í hjarta Flúða á 6,5 hektara lóð á fallegum stað í hvilft við Litlu Laxá sem bugðast meðfram jaðri þess. Í meginatriðum er gert ráð fyrir að í þorpinu muni verða lágreist þjónustubygging sem kemur meðal annars til með að innihalda veitingastað, hótel, heilsurækt og lækningasetur og allt að 200 íbúðir af mismunandi stærðum í litlum íbúðarklösum sem ýmist bjóða upp á heilsársbúsetu eða skemmri dvöl. Mikið verður lagt upp úr vistvænni hönnun bæði bygginga og ytra umhverfis s.s. almennings- og garðrýma og tækifæra til heilsueflingar en auk þess verður einnig hugað sérstaklega að tengingu við núverandi byggð, möguleikum til atvinnusköpunar og notkun heilsuþorpsins til eflingar félagsauðs aðliggjandi byggðar.
Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur er aðalhönnuður heilsuþorpsins en auk hans koma margir aðrir sérfræðingar að mótun þess. Sveitarfélagið er einn aðaleigandi verkefnisins en þar bera menn þá von í brjósti að heilsuþorpið verði raunverulegur hvati til frekari samfélagsuppbyggingar á svæðinu. Stuðningur sveitarfélagsins er mikilvægur og er ávinningurinn eflaust margfaldur, ekki síst hvað varðar aðgengi að íbúum til kynningar og samráðs við tillögugerð.

Ætlunin er að þorpið uppfylli sem flest skilyrði um sjálfbærni í manngerðu umhverfi og er gert ráð fyrir að bæði umhverfið og byggingarnar verði vottaðar. Það sem gerir skipulagsvinnuna þó sérstaklega áhugaverða er þátttaka verkefnisins í þróun bandarísks (alþjóðlegs) umhverfisvottunarkerfis fyrir skipulag ytra umhverfis, „Sustainable Sites Initiative“ eða „SITES“, eins og kerfið er jafnan nefnt. Vottunarkerfið hefur verið í þróun í um áratug og er nú í lokaprófun víðsvegar í Bandaríkjunum en einnig í Kanada, á Spáni og loks hér á Íslandi!
Hið bandaríska vistbyggðarráð (U.S. Green Building Council) er aðili að SITES og er gert ráð fyrir að kerfið geti orðið hluti af heildarvottunarkerfi Bandaríkjamanna fyrir manngert umhverfi (the LEED Green Building Rating System) sem er nú þegar þekkt hérlendis en slík vottunarkerfi hafa hinsvegar enn sem komið er ekki náð langt út fyrir veggi bygginga.

Þátttaka í SITES þykir mikill heiður vestanhafs og hljóta verkefnin töluverða fjölmiðlaumfjöllun. Þótt kerfið hafi ekki verið formlega tekið í notkun er SITES leiðbeiningarritið nú þegar orðið hluti í grunnnámi í landslagsarkitektúr víðsvegar í Bandaríkjunum. Eins og önnur SITES verkefni þá verður skipulag heilsuþorpsins og framkvæmdir metnar á 250 punkta sjálfbærnimælikvarða sem gerð er grein fyrir í handbók SITES (www.sustainable sites.com).Þátttaka heilsuþorpsverkefnisins í SITES er studd af Umhverfisráðuneytinu og Framkvæmdasýslu ríkisins. Náttúrufræðistofnun vinnur nú að heildarúttekt á náttúrufari svæðisins og munu niðurstöður þess verða notaðar til grundvallar mati á gæðum skipulagstillögunnar til samræmis við kröfur vottunarkerfisins og frekari úrvinnslu. Yfirumsjón með mati á umhverfisaðstæðum og umhverfisvottuninni hefur dr. Kristín Þorleifsdóttir, landslagsarkitekt.

Í kerfinu er meðal annars gefin einkunn fyrir staðarval, samþættingu umhverfis og mannvirkja, „græna“ landslagshönnun, framkvæmd og viðhald. Sérstök áhersla er lögð á verndun náttúruauðlinda s.s. vatns, jarðvegs, gróðurs, dýralífs og andrúmslofts og skal skipulagið taka tillit til verndunar náttúruminja eftir fremsta megni. Verndun menningarverðmæta skiptir hér einnig miklu máli og má þar t.d. nefna fornleifar, sögustaði, mikilvægt menningarlandslag og aðrar menningarminjar. Jafnframt er lögð áhersla á verndun staða og svæða sem hafa mikið útivistargildi og / eða kunna að gegna mikilvægu hlutverki í virkni, lífsstíl og heilsu samfélagsins. Upplifunarleg gæði umhverfis spila einnig stórt hlutverk og þarf þá m.a. að huga að ásýnd, útsýni, sjónlínum að og frá, fjölbreytileika s.s. í formi, litum og hlutföllum, nærveðri ásamt mörgum öðrum þáttum.Vottunarkerfið miðar einnig að því að draga úr mengun í lofti, láði og legi, draga úr losun koltvíoxíðs með vali á sjálfbærum byggingarefnum, endurheimta lífríki, flokka úrgang og tryggja sjálfbæra meðferð hans, hvetja til notkunar vistvænna efna, endurnotkunar og endurvinnslu. Í kerfinu er jafnframt lögð áhersla á fjárhagslegan og félagslegan ávinning þeirra sem standa að verkefninu, að verkefnið skapi skilyrði fyrir atvinnusköpun og sjálfbæra starfsemi í héraði. Í hnotskurn mætti því e.t.v. segja að hönnun heilsuþorpsins skuli hvorutveggja í senn ekki ganga á náttúruauðlindir og stuðla að bættri heilsu og vellíðan einstaklinga og samfélaga með gæðahönnun.

Tilraunaverkefnið mun standa fram á næsta ár og verður reynslan sem byggist upp notuð til þess að endurskoða matslista SITES kerfisins. Einnig er vonast til að sú dýrmæta reynsla sem af þátttökunni hlýst muni skila sér hér innanlands í endurskoðun á gæðakröfum sem gerðar eru til deiliskipulagsáætlana hér á landi. SITES er þverfaglegt samvinnuverkefni sem er stýrt af Félagi landslagsarkitekta í Bandaríkjunum auk 50 annarra fagaðila til þess að bæta skipulag, framkvæmdir og meðferð á landi með því að þróa fyrsta umhverfisvottunarkerfið fyrir sjálfbæra umhverfishönnun. Þegar kerfið verður tekið í notkun mun það án efa hafa mikil áhrif á það hvernig við meðhöndlum umhverfið og stuðla að betri lífsskilyrðum fyrir komandi kynslóðir. Nú er unnið að því að afla heilsuþorpsverkefninu fjármagns en á sama tíma fer fram ítarleg athugun á náttúrufari, menningartengdum verðmætum og upplifunargæðum umhverfisins en kortlagning slíkra gæða kemur til með að hafa áhrif á skipulag þorpsins og þar með stigagjöf vottunarkerfisins.
www.vbr.is" target="_top">
www.vbr.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga