Góð sjón er lífsgæði sem æ fleiri velja
Hjá Sjónlagi starfa læknar sem hafa sérhæft sig í leiðréttingu hvers kyns sjónvandamála. Sjónlag er engin venjuleg augnlæknastofa. Þar starfa fimm auglæknar sem eru sérfræðingar í sjónlagslækningum, augasteinaaðgerðum, augnbotnaeftirliti, barnaaugnlækningu og almennum augnlækningum. Þar er auk þess gleraugna- og linsuverslun sem ber heitið Iceland. Sem sagt, allt sem augun þarfnast á einum stað. Sjónlag var upphaflega í Spönginni en flutti á 5. hæðina í Glæsibæ fyrir fjórum árum. Ólafur Már Björnsson augnlæknir og Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri segja sofuna sjá um alla almenna augnlæknaþjónustu og allt sem henni fylgir, en einnig bjóða upp á sérhæfðari þjónustu. Stofan er búin öllum nýjustu tækjum og býr yfir nýjustu tækni til að takast á við nánast allt nema blindu – þótt vissulega sé þar hægt að leiðrétta ýmsar tegundir af „lagalegri blindu.“

Bruggðist við ellihrörnun

„Við erum með augnbotnaeftirlit sem tengist sykursýki og ellihrörnun í augnbotnum,“ segir Ólafur. „Við sykursýki fær fólk augnbotnaskemmdir sem er mikilvægt að fylgja eftir vegna þess að þá eru líkur á varanlegum skaða. Ellihrörnun er vaxandi vandamál hjá eldri kynslóðinni nú til dags. Ástæðan er sú að fólk nær stöðugt hærri aldri.  Meðal þess sem gert er til að bregðast við ellihrörnun eru nú komnar ýmsar lyfjameðferðir sem krefjast mikillar eftirfylgni og eftirlits.“
Þegar Ólafur er spurður hvort Sjónlag bjóði ekki upp á aðgerðir til að leiðrétta slíka hrörnun, segir hann svo ekki vera. Samkvæmt lögum megi aðeins framkvæma slíkar aðgerðir á Landspítalanum.  „Við erum með aðstöðu, kunnáttu og tækjabúnað til þess og vildum svo gjarnan fá að framkvæma þær. Á Landspítalanum eru gerðar hundrað slíkar aðgerðir á viku. Þær eru algerlega að drekkja deildinni og við vildum gjarnan hjálpa til, svo spítalinn geti sinnt sínu kennsluhlutverki. Við höfum engan áhuga á að taka þessar aðgerðir yfir, heldur létta undir og við erum vissulega að sækja um að fá að framkvæma þær hér, vegna þess að tækjabúnaður okkar er fyllilega sambærilegur þeim búnaði sem er á Landspítalanum, ef ekki betri.“

Fjölfókuslinsur fyrir fólk með tvísýni
Skurðstofan hjá Sjónlagi er önnur af tveimur skurðstofum fyrir utan Landspítalann sem gera augasteina-aðgerðir, sem er dálítið sérhæfð þjónusta. Kristinn segir sjónlagsaðgerðir vera vaxandi grein vegna þess að hún nái orðið til eldri aldurshópa. „Við erum bæði með leisertækni til að taka á ellifjarsýninni og augasteina-aðgerðir þar sem við setjum inn fjölfókuslinsur sem gera fólki kleift að sjá frá sér og lesa án gleraugna.“
„Við erum nýbúin að uppfæra öll tækin okkar,“ segir Ólafur. „Samfara því tókum við upp nýja tækni sem er þessi femtolasik tækni, þar sem hnífur kemur hvergi nærri aðgerðinni. Við notum eingöngu leiser, bæði til að búa til flipann framan á hornhimnunni og framkvæma sjálfa meðferðina. Þessi tækni er að skila okkur betri gæðum og minni fylgikvillum svo sem augnþurrki og flipavandamálum, sem og betri nætursjón. Þetta er aðferð sem er orðin ríkjandi erlendis  og flestir sem koma til okkar, velja hana vegna þeirra kosta sem fylgja henni, þótt hún sé vissulega dýrasta meðferðin sem við bjóðum upp á. Það hefur orðið mikil breyting á forgangsröðun fólks eftir hrun. Það er farið að líta meira á góða heilsu og hreysti sem lífsgæði og þegar það eldist vill það eyða peningunum sínum í eitthvað sem gerir því kleift að stunda áfram göngur, skíðaíþróttir og aðra útivist án þess að vera alltaf með móðu á gleraugunum. Þú ferð bara einu sinni í svona aðgerð. Eftir það áttu að vera nokkuð laus við gleraugu. Þú gætir þurft lesgleraugu þegar þú eldist enn frekar en það er ekkert vist.“

Mat og ráðleggingar
Þeir Ólafur og Kristinn segja hægt að leiðrétt sjónina hjá fólk með allt frá +5 í fjarsýni, upp í -10 í nærsýni. Einnig sé hægt að leiðrétta nánast alla sjónskekkju með fertoleisertækninni. „Við gerum slíkar aðgerðir hjá fólki upp að um það bil sextugu. Eftir það einbeitum við okkur frekar að augasteinsaðgerðunum. Ástæðan er einfaldlega sú að þá er farið síga á seinni hluta ævinnar og líklegt að fólk sé komið með augasteinavandamál og þurfi hvort eð er augasteinaaðgerð fyrr en seinna. Með augasteinaskiptum er auðveldara að taka á ellifjarsýninni, til viðbótar öðrum sjónlagsgöllum.“
„Við leggjum mikla áherslu á að fólk komi hingað með opnum huga,“ segir Kristinn, „fái mat og mælingu á augum og upplýsingar um hvaða leiðir passi þvi best, því þær geta verið æði mismunandi. Við getum þá ráðlagt fólki hvaða leið er hagkvæmust hverju sinni. Því miður veit almenningur mjög lítið um þá möguleika sem eru í boði þegar kemur að þeim lífsgæðum sem felast í góðri sjón. Það er til fullt af nærsýnu fólki sem heldur að nærsýnin gangi til baka þegar fjarsýnin byrjar hjá því á miðjum aldri. Fólk fer til augnlæknis og fær sér ný gleraugu og veit ekki að það getur alveg eins losnað við gleraugun. Hingað kemur líka fólk á öllum aldri og vill fara í leisermeðferð til að bæta sjónina og heldur í alvöru að þar með séu öll sjónvandamál úr sögunni – en hefðbundin leisermeðferð er ekki rétta lausnin fyrir alla. Þegar fólk er að eldast ráðleggjum við því frekar að skipta um augasteina. En lausnin er ekki alltaf aðgerðir eða meðferðir.  Sjónlag er bara hagkvæmur kostur vegna þess að við erum með marga sérfræðinga, nýjust tæki og tækni og getum leyst úr nánast öllum sjónvandamálum.

Gleraugnaverslun og heilsutengd ferðaþjónusta
Það er auðvitað kostur að hafa gleraugnaverslunina Eyesland i móttökunni á 5. hæðinni. Hingað getur fólk komið og klárað sín mál í einni ferð, hvort heldur það er að fá sér linsur eða gleraugu. Hér er hægt að fara í linsumátun og síðan eru gleraugun á sérlega hagstæðu verði. Þau kosta frá 12.000 krónu og geta farið allt upp í 60-70 þúsund krónur fyrir tvísýnisgleraugu og þar erum við að tala um almenn gleraugu.“
Ólafur og Kristinn segja fjölmarga af sínum viðskiptavinum koma frá Norðurlöndunum, Grænlandi, Færeyjum og Bretlandi. „Augnlæknar eru í fararbroddi hvað varðar útflutning á læknisþjónustu frá Islandi. Við hefðum viljað sjá meiri stuðning frá yfirvöldum við heilsutengda ferðaþjónustu. Þetta er gríðarlega stór markaður um allan heim og við Íslendingar erum mjög samkeppnishæfir þegar kemur að menntun, tækjum og þekkingu.“
www.sjonlag.is

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga