Greinasafni: Icelandic Times
Ritstjórnarspjall
Hugvit og Hönnun er með nokkrum jólablæ að þessu sinni – eins og vera ber. Engu að síður höldum við stefnu okkar hvað varðar efnisflokka blaðsins.
Viðtalið að þessu sinni er við yfirflugumferðarstjóra Isavia, Þórdísi Sigurðardóttur, sem stjórnar einu stærsta flugstjórnarsvæði í heimi, rekur sitt heimili með myndarbrag og syngur sig inn í jólin.
Við fáum að vita allt um Evans orkupóstana til að hlaða rafmagnsbíla og eru nú loksins komnir til landsins. Einnig forvitnumst við um það hvaða tryggingarfélag er að koma til móts við eigendur vistvænna bifreiða.
Matarumfjöllunin að þessu sinni er klárt og kvitt á sælkeralínunni. Ekkert hugsað um hitaeiningar og aðhald, heldur nautnir til munns og maga; fáum uppskriftir frá gæðakokkum og splæsum okkar eigin uppáhalds uppskriftum. Og auðvitað höfum við valið okkur jólavín.
Við kynnum hönnun af öllu mögulegu tagi: Ljómandi fylgihluti, nýja íslenska skólínu, fallega hönnun í klassískum verslunum.
Við erum trú þeirri ekki-stefnu okkar að fjalla ekki um peninga, ekki um pólitík og ekki um þessa fimmtíu frægu. Við kynnum til sögunnar skapandi einstaklinga, fólk í áhugaverðum störfum og þá sköpun sem snýr hjóli tímans áfram meðal þjóðarinnar, þótt þess sjáist sjaldnast merki í hinum hefðbundnu fjölmiðlum.
Á þeim tíma sem liðinn er frá því kreppan brast á, hefur orðið mikil hugarfarsbreyting hér á landi. Það er sagt að neyðin kenni naktri konu að spinna og lötum manni að vinna – og það má vissulega færa rök fyrir því að kreppuni hafi fylgt andrými fyrir hinn skapandi einstakling sem þurft hefur að nota allt sitt hugvit til að komast af. Ef þjóðin kemst einhvern tímann út úr kreppunni, verður það vegna þessarar skapandi orku sem hún býr yfir og er viljug til að nýta.

Njótið aðventunnar og eigið gleðileg jól!

Súsanna Svavarsdóttir,
ritstjóri

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga