Syngur sig inn í jólin
Syngur sig inn í jólin
Íslenska flugstjórnarsvæðið er eitt stærsta flugstjórnarsvæði í heimi, nær frá norður heimskautinu í norðri til Skotlands í suðri, frá vesturströnd Noregs í austri, alla leið yfir að vesturströnd Grænlands í vestri.  Í gegnum þetta svæði fer stór hluti flugumferðar á milli Evrópu og N-Ameríku  - og í auknum mæli umferð milli mið-Austurlanda og N-Ameríku.  Yfirstjórn svæðisins er í höndum Þórdísar Sigurðar­dóttur flugumferðar­stjóra og deildar­­stjóra Flugstjórnar­miðstöðvar Isavia ohf og hefur verið það frá því í febrúar 2008. Þau eru ekki mörg árin síðan starf flugumferðarstjóra var eingöngu í höndum karlmanna. Þegar Þórdís hóf nám, 1986, voru aðeins þrjár konur starfandi í faginu hér.
Þórdís segir tilviljun hafa ráðið því að hún valdi sér þennan starfsvettvang. „Ég sá þjálfunina auglýsta og á þeim tíma fór námið fram í Kanada.  Á þessum tíma, þótt stutt sé síðan, voru ferðalög erlendis ekkert algeng. Ég hafði bara farið í stúdentsferðalag til Ibiza og mig langaði til að ferðast. Svo er ég ákaflega praktísk. Þetta er vel launað starf. Ég vissi sáralítið um starfið en var með sjálfstraustið alveg í botni. Ég hafði ofurtrú á því að ég myndi rúlla þessu upp en svo var þetta ekki auðvelt. Ég þurfti að hafa dálítið fyrir þessu.“ Þegar Þórdís kom heim eftir námið og hóf störf sem nemi í Flug­stjórnar­miðstöðinni, segist hún ekki hafa fundið neitt fyrir því að vera kona. „Ég var svo ung og með svo mikið sjálfstraust að það hvarflaði aldrei að mér að það skipti máli. Ég var rétt tvítug og þegar ég mætti fyrsta daginn sem nemi, hélt varðstjórinn að ég væri dóttir einhvers starfsmannsins. Það var ekki fyrr en ég var búin að sitja dágóða stund að spjalla við aðra starfsmenn sem hann áttaði sig á því að ég væri nýi neminn hans. Hins vegar hafði ekki verið gert ráð fyrir báðum kynjum í flugstjórnarmiðstöðinni. Þar var ekkert kvennaklósett og aðeins eitt mjög lítið hvíldarherbergi með tveimur samliggjandi rúmum.  Fyrir utan þrjá flug­umferðar­stjóra vann einn flug­gagna­fræðingur í flugstjórnar­miðstöðinni  og konan sem sá um ræstingarnar. Þetta var allur kvennaskarinn í flugstjórnar­miðstöðinni.“

Erfitt valferli
Staðan hefur vissulega breyst. Í dag eru rúmlega 30% flugumferðarstjóra konur. Það er þó ekki hlaupið í þetta starf, erfitt að komast í námið og  enn erfiðara að komast í gegnum það. Það hefur ekkert breyst þótt nú fari allt nám íslenskra flugumferðarstjóra fram á Íslandi. Þegar Þórdís er spurð hvað sé svona erfitt segir hún: „Það eru margir sem sækja um og inntökuprófin eru erfið. Þegar ég hóf nám fannst mér valferlið mjög erfitt. Við fórum í gegnum bókleg próf og verkleg streitupróf, almennt viðtal og sálfræðiviðtal. Af stórum hópi umsækjenda, stóðu örfáir eftir. Í dag fer grunnnámið fram hjá einkaskólum og þú þarft að ljúka námi þaðan áður en þú getur sótt um að komast í námið hjá Isavia. Þá þarftu að fara í gegnum svipað valferli og ég fór í gegnum. Flugstjórnarmiðstöðin tekur að meðaltali inn fjóra nýja nema í flugumferðarstjórn á ári. Þótt krakkarnir klári grunnnámið, er því ekkert á vísan að róa.“ Þórdís talar um almenn viðtöl og sálfræðiviðtöl. Hvað þarf flugumferðastjóri að hafa til að bera, annað en góða námshæfileika? „Flugumferðarstjóri þarf að hafa góða skipulagshæfileika sem hann notar upp að vissu marki vegna þess að hann þarf líka að vera sveigjanlegur. Hann þarf að vera ábyrgðarfullur. Hann þarf að geta þolað mikið sem lítið álag; hann þarf að geta haldið vöku sinni þótt álag sé lítið og hann þarf að halda einbeitingu, snerpu og hafa hæfni til að forgangsraða þegar umferð er mikil. Flugumferðarstjóri þarf að vera samviskusamur og kunna að fara eftir reglum. Hann þarf að vera í góðu andlegu og líkamlegu ásigkomulagi til að takast á við starfið sitt og hann þarf að geta tekist á við það, hvernig sem honum líður.“

Miklar kröfur – aldrei þakkir
„Flugumferðarstjórn er þjónustustarf. Hann þarf því að vera sveigjanlegur, viljugur og útsjónarsamur – og svo skemmir ekki að hann sé skemmtilegur. Hann þarf að vera ákaflega samvinnuþýður vegna þess að starfið snýst um þjónustu og samvinnu við aðra; við flugmenn, við flugumferðarstjóra sem eru með honum á vakt, stjórnendur í flugþjónustu, fluggagnafræðinga, flugumferðarstjóra í öðrum löndum – og svo þarf hann að ákveða bestu og hagkvæmustu leiðina fyrir hverja einustu vél sem kemur inn á kortið hjá honum.
Það sem er kannski sérstakt við starf flugumferðarstjóra, er að þótt þú sért öflugur flugumferðarstjóri og sért að vinna mjög gott starf, eru sárafáir sem taka eftir því. Þú ert nánast sá eini sem tekur eftir því.
Hvatningin í starfi þarf því að koma innan frá. En ef þú klúðrar einhverju, vita allir af því. Þú þarft að taka skammirnar en færð aldrei þakkirnar.“

Náminu lýkur aldrei
Þótt námi sé formlega lokið, er þó ekki ævistarfið endilega tryggt. Flug­umferðar­stjórn er mjög lifandi starf og tekur sífellt breytingum. „Það er stöðugt verið að breyta vinnureglum og tækjabúnaði, nýjar flugvélategundir verða til, það er verið að breyta loftrými eða reglum og svona mætti lengi telja.  Til þess að viðhalda áritun þurfa flugumferðarstjórar að fara í síþjálfun, a.m.k árlega, og þeir þurfa að starfa ákveðið margar klukkustundir í vinnustöðu á þriggja mánaða tímabili. Þeir þurfa að standast hæfnismat reglulega, fara í læknisskoðun á eins til tveggja ára fresti, eftir aldri. Þeir þurfa að standast tungumálapróf. Á hverju ári getur hver sem er misst skírteinið sitt. Þú þarft ekki annað en fara í fæðingarorlof í hálft ár. Þá ertu búin að missa áritun úr gildi. Jafnvel  þótt þú farir bara í þriggja mánaða fæðingarorlof. Þegar þú kemur aftur til baka, þarftu að fara í endurþjálfun, mislanga eftir því hvað þú hefur verið lengi í burtu.
Starfinu fylgir í rauninni stöðug þjálfun; þjálfun til réttinda, til að viðhalda réttindum, til að endurnýja réttindi, tileinka þér nýja tækni og vinnuaðferðir – og einhver þarf síðan að hafa eftirlit með því að allir fái rétta þjálfun þegar þeir þurfa á henni að halda. Og þar er röðin komin að mér. Hluti af mínu starfi er að sjá til þess að starfsmenn mínir séu hæfir til að framkvæma þá þjónustu sem krafist er af þeim og hafi tæki og aðbúnað til að sinna starfi sínu vel.
Starf flugumferðarstjóra er mjög sérhæft. Með þessari sérhæfingu ertu fastur. Þú getur aðeins starfað á örfáum stöðum á landinu,  í flugstjórnarmiðstöðinni, eða í turninum í Keflavík, Reykjavík eða Akureyri. Þótt þetta sé frábært starf, ertu samt búin að njörva þig dálítið niður. Ef þú vilt fá tilbreytingu, þá er helst að líta til verkefna sem lúta að faginu, t.d. þjálfun, rannsóknavinnu og þróunarvinnu og þar eru miklir möguleikar. Þótt það hafi verið tilviljun að ég færi í þetta, hitti ég á rétta starfið – sem ég tel hafa verið ótrúlegan happdrættisvinning.“

Auðvelt að laga að fjölskyldulífi

Þórdís er gift Hilmari Sigurðssyni viðskiptafræðingi og eiga þau þrjú börn, 22, 20 og 13 ára. „Þegar ég fór í fæðingarorlof árið 1990 hafði flugumferðarstjóri aldrei farið í fæðingarorlof,“ segir Þórdís. „Þetta var dálítið mál. Það hafði enginn verið ófrískur þarna. Það voru engar reglur um það hvað mætti vinna lengi fram eftir á meðgöngunni og sumir smeykir að vinna mikla umferð með mér. Nú eru komnar reglur um það að kona má ekki vinna lengur en að 34. viku meðgöngu.“
Þegar börnin voru lítil vann Þórdís vaktavinnu og segir það hafa komið vel út. Síðan flutti hún sig yfir í þjálfunardeild og fór í dagvinnu þegar krakkarnir byrjuðu í grunnskóla. „Það hentaði fjölskyldulífinu betur á þeim tíma en ég saknaði vaktavinnunnar,“ segir hún. „Ég vil alltaf læra meira og ná lengra, ná árangri – þannig að þegar ég er búin að einu, verð ég að fara í næsta. Þegar ég hafði verið flugumferðarstjóri á vöktum í tíu ár, var kominn tími á mig til að læra meira, gera eitthvað nýtt. Ég starfaði í þjálfunardeild í tíu ár sem gaf mér mjög mikið. Eftir þann tíma, fékk ég tækifæri til að fara aftur inn í flugstjórnarmiðstöð sem vaktstjóri og þar starfaði ég í þrjú ár, áður en ég fékk deildarstjórastöðuna sem ég er í núna.“

Jólahefðir bundnar fjölskyldu og vinum
Á hlýlegu og fallegu heimili Þórdísar er ljóst að jólin eru að koma. Alls staðar loga kertaljós og jólaskrautið er byrjað að koma upp úr kössunum. Þórdís segist vera mikið jólabarn, þótt hún skreyti ekki svo mikið. „Mér finnst jólin mjög skemmtileg. Reyndar finnst mér tímabilið nóvember til mars, þessi hávetur, alveg yndislegur tími. Ekki síst vegna þess að það verður allt svo kósí, þó eru hlutir í föstum skorðum og manni verður mikið úr verki.  Desembermánuður er alltaf undirlagður í að fara út að borða, hitta vini og kunningja, pakka inn jólagjöfum, fara að versla – og mér finnst mjög gaman að versla.
Þegar Þórdís er spurð um jólahefðir fjölskyldunnar, segir hún þær vera nokkrar. „Við fægjum alltaf silfur. Ég, maðurinn minn og mamma. Við fáum okkur smákökur og kakó og ég er jafnvel að baka á meðan. Þetta er mjög skemmtileg samverustund og kemur okkur alltaf í jólaskap. Við höldum líka alltaf þá hefð að fara í miðbæinn á Þorláksmessu, öll fjölskyldan. Þar hittum við vinafólk okkar með sínar fjölskyldur, ráfum um og fáum okkur að borða. Og að sjálfsögðu þarf alltaf að vera eitthvað eftir af jólagjafalistanum sem hægt er að redda á Laugaveginum. Tengdamamma gefur mér líka jólarósina á hverju ári og hún á sinn fasta samastað.
Um jólin hittumst við hjá foreldrum mínum, stórfjölskyldan og þá er spilað Trivial – og það er spilað í fúlustu alvöru. Síðan hittum við nánasta vinahóp á milli jóla og nýárs – um 25 manns og aftur er spilað, eitthvað sem krakkarnir velja. Það getur verið nýjasta jólaspilið – eða bara eitthvað gamalt og gott.“
Og ein er sú jólahefð sem Þórdís segir hlakka mikið til á hverju ári. Hún er í Selkórnum sem er með árlega jólatónleika, auk þess að syngja við eina messu fyrir jólin. „Fyrri hluti desember er alltaf undirlagðir í tónleikahaldi og þegar því lýkur sér kórinn um aðventukvöld fyrir eldri borgara á Seltjarnarnesi. Þá fer ég í kvenfélagskonugírinn svo um munar, baka kökur og tertur og brauðrétti sem ég fer með til eldri  borgaranna. Síðan skemmtum við okkur með þeim við söng og leik og það er alveg óskaplega gaman.“ Það má því segja að yfirflugumferðarstjórinn syngi sig inn í jólin við kertaljós og kökur.  

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga