Bráðum koma blessuð jólin
Bráðum koma blessuð jólin
Ef eitthvað er óþarfi, þá er það að stressa sig fyrir jólin. Það er vissulega í mörg horn að líta – en því betur sem við skipuleggjum okkur, því auðveldara verður að komast í gegnum desembermánuð. Flestir standa frammi fyrir fimm verkefnum: Gjafainnkaupum, bakstri, þrifum, skreytingum og ákveða/kaupa jólamatinn.

Ákveddu:


1.    Hversu miklu þú ætlar að eyða í jólagjafir.
2.    Hversu margar jólagjafir þú ætlar að kaupa.
3.    Hvenær þú ætlar að kaupa þær.
4.    Matseðilinn fyrir öll jólin.
5.    Hversu miklu þú ætlar að eyða í mat og drykk
6.    Hvenær þú ætlar að kaupa inn, þannig að þú náir því í einni ferð.
7.    Hvenær þú ætlar að baka eða gera laufabrauð.
8.    Hvenær þú ætlar að þrífa.
9.    Hvenær þú ætlar að skreyta.

Merktu inn á dagatalið og stattu við planið. Þá veistu hvaða daga þú hefur til að hitta vini og kunningja, fara í bæjarráp – og haltu Þorláksmessu lausri til að fara í bæinn til að brosa og gleðjast með samborgurum þínum.

Komdu öðrum gleðilega á óvart
Það er hægt að gera það með ýmsum hætti, venjulegum og óvenjulegum. Færðu einverjum sem á það skilið smáglaðning, þótt ekki sé nema sultukrukka, paté eða góður ostur. Líttu inn til aldraðra ættingja til að athuga hvort þá vanhagar um eitthvað, til dæmis smá aðstoð við hreingerningar. Þú átt aðeins það sem þú gefur og gjafir sem endurspegla umhyggju og alúð gefandans eru alltaf bestar.

Hafðu það einfalt
Þú þarft stundum að geta sagt nei, jafnvel við góðum hlutum ef þeir stangast á við markmið þín um góð og uppbyggjandi jól. Þú þarft að setja mörk og vita hvað þú vilt þegar svo margt er í boði. Það er betra að velja færri athafnir og gera þær vel en að gera allt í stressi og látum. Breyttu ekki öllu í einu. Veldu eitthvað eitt eða tvennt sem þú vilt breyta fyrir þessi jól og sjáðu hvernig gengur. Með tímanum er hægt að breyta fleiru.

Gefðu frá hjartanu
Þegar þú ákveður jólagjafirnar skaltu reyna að finna eitthvað sem höfðar til viðtakandans og gefðu þér tíma til þess að velta því fyrir þér. Finndu hjálparstarf og góðgerðarsamtök sem þú vilt sérstaklega styðja fyrir þessi jól og gefðu ákveðið framlag. Það þarf ekki að vera stórt, en getur skipt miklu máli fyrir samtökin sem taka við þeim. Síðan er hægt að skrifa framlagið á jólakort eða kaupa til þess sérstaklega gerð gjafabréf, setja í umslag og setja undir – eða á –  jólatréð til að minna fjölskylduna á að gleði jólanna felst í því að gleðja aðra. Farðu á eina tónleika í desembermánuði – eða á jólaleiksýningu einhvers leikhúsanna.

Dekraðu við þig og þína
Ekki gleyma að hugsa um  sjálfa þig og njóta þess að vera til.  Splæstu á þig  góðu nuddi, slökun, hand/fótsnyrtingu, breyttu um klippingu ef þú ert leið á sjálfri þér. Það eitt nægir oft til að lyfta andanum. Hittu vinina til að gera laufabrauð, föndraðu og bakaðu með börnunum og kysstu jólasveininn þinn við jólatréð í stofunni þegar börnin eru farin að sofa.
Einbeittu þér að því að hugsa um kosti maka þíns.
Jákvæðar hugsanir gera jólamánuðinn mun skemmtilegri.

www.tru.is/pistlar/2008/12/tiu-leidir

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga