Greinasafni: Veitingar
Ómengað andrúmsloft á Þorláksmessu
Ómengað andrúmsloft á Þorláksmessu

Við bjóðum upp á jólaveislur fyrir hópa, bæði í hádegi og á kvöldin, segir Eyþór Rúnarsson matreiðslumeistari á Nauthóli. „Hvað varðar traffík inn af götunni keyrum við hins vegar þann matseðil sem við erum alltaf með. Hann einkennist af léttum, ferskum og góðum mat.“
Eyþór segir Jólaveislurnar mjög vinsælar og vel sóttar af bæði  smáum og stórum hópum  – enda matseðillinn sérlega girnilegur.
Á forréttadiski er hreindýarborgari, danskt hænsnasalat og rauðspretta.  Milliréttir koma á borðið á fati sem inniheldur möndlu- og kryddhjúpaða bleikju, grafinn lax, karrýsíld, hangikjötssalat, laufabrauð og rúgbrauð. Aðalréttir koma einnig beint á borðið með kalkúnabringu, purusteik, nauta rib-eye, grænmeti, sósum og salati. Á eftirréttahlaðborðinu eru síðan Ris a la Mande, pekanpæ, tiramisu, súkkulaðimús og ávaxtasalat, ásamt kirsuberjasósu og karamellusósu.
Jólaveislurnar verða í boði fram að jólum „og síðan ætlum við að bjóða upp á ómengað andrúmsloft á Þorláksmessu. Hér verður engin skata – heldur háklassa danskt smurbrauð,“ segir Eyþór. Aðspurður um eigin jólahefðir, segir hann: „Ég er alinn upp við rjúpur, konan mín við hamborgarahrygg á aðfangadag. Málamiðlunin er önd. Eplasalatið borða ég  alltaf á jólunum. Fasti, ófrávíkjanlegi liðurinn eru svo mömmukökurnar frá mömmu.
Það eru engin jól án þeirra.

Rauðkál

Fyrir u.þ.b 12 manns
1 haus rauðkál
1 stk grænt epli
200 gr sykur
150 ml borðedik
100 ml sólberjasaft
Kryddpoki( kaffísía)
1 stk kanilstöng
2 stk negull
8 einiber
2 lárviðarlauf
Börkur af einni appelsínu.
Grisja og garn

Fjarlægið kjarnann úr rauðkálinu og skerið það niður í þunnar ræmur. Skrælið og skerið eplið í teninga. Setjið  kryddin og appelsínubörkinn í grisju eða kaffipoka, hann virkar líka og bindið fyrir.
Setjið allt saman í pott og stillið eldavélina á miðlungshita.  Suðan kemur rólega upp og ágætt er að hræra reglulega á meðan.  Þegar suðan kemur upp er gott að lækka hitann og láta malla í klukkustund lengur ef þér finnst það mega vera mýkra.  Kælið rauðkálið í safanum og sigtið þegar það hefur kólnað.

Eplasalat

Fyrir ca 4-6 manns
140 gr sýrður rjómi
140 gr léttmajónes
50 gr flórsykur
2 msk Grand Mariner
3 stk græn epli
4 stk sellerístilkar
Vínber og ristaðar valhnetur til skreytingar

Hendið öllu nema eplunum og selleríinu í skál og pískið vel. Skrælið og skerið eplin í fallega teninga, Þvoið selleríið og skerið það niður í skífur. Setjið eplin og selleríið út í lögin og blandið vel saman. Setjið í huggulega skál og skreytið með valhnetunum. og vínberjunum, ekki spara vínberin.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga