Frá ritstjóra

Ég hef dvalið langdvölum í Kósóvó síðastliðið eitt og hálft ár. Það hefur verið merkileg reynsla sem opnar manni sýn inn í enn einn kimann í óravíddum mannlífsins. Þjóðin gekk nýlega í gegnum blóðugt stríð og í landinu eiga nánast allir um sárt að binda. Níutíu prósent íbúanna eru Kósóvó-Albanir og því múslimar. Það er allur gangur á því hversu trúræknir þeir eru, þótt þeir virði mjög ákveðið alla helgisiði trúarinnar í kringum það sem hjá okkur eru kirkjulegar athafnir, brúðkaup, jarðarfarir og svo framvegis. Að því leyti eru þeir líkir okkur Íslendingum.
Það hefur margt verið skrýtið og skemmtilegt í þessari reynslu – en það sem kom kannski mest á óvart var að íbúar Kósóvó halda jólin hátíðleg. Þeir fara að vísu ekki í kristna kirkju til að hlýða á jólaguðspjallið, enda lítið til af kirkjum og þær allar á búsetusvæðum Serbanna sem enn búa í landinu. En þeir kunna velflestir jólaguðspjallið og finnst það fela í sér góðan boðskap. Boðskap sem gæti vel passað inn í þeirra trúarbrögð.  Þeir sjá því fulla ástæðu til að nýta þessa hátíð sem haldin er um allan heim til að gleðjast og gera sér dagamun, hitta ættingja og vini, hengja upp falleg ljós og skreyta híbýli sín. Þeim finnst fullkomlega eðlilegt að halda jólin hátíðleg – þó ekki væri nema til að samgleðsjast okkur hinum.
Þessi afstað veitti mér nýja sýn á jólin – sem höfðu helst til of lengi pirrað mig, vegna stressins, hávaðans, látanna, kaupæðisins.... En það er gaman að gefa og það er gaman að þiggja. Við fáum alltof fá tækifæri til þess.
Hins vegar væru engin jól nema fyrir jólaboðskapinn. Hann er svo fallegur og snertir mannshjartað svo djúpt að jafnvel múslimar sjá ástæðu til að fagna honum.
Þegar ég stóð frammi fyrir því að skrifa kynningarblað í tilefni af komandi jólum, sá ég að auðveldasta leiðin yrði að hringja í nokkra einstaklinga til að fá „bestu“ upskriftina af hinu og þessu. Það er jú það sem jólablöð ganga út á. En mig langaði ekki til þess. Mig langaði frekar til að fá mynd af því hvernig jólin eru hjá alls konar fólki, fólk sem vinnur við að gefa af sér, fólki sem vinnur í návígi við þá sem hafa enga sérstaka ástæðu til að gleðjast á þessum árstíma, fólt sem missir sig í jólahaldið, fólk sem þekkir hefðir okkar og fólk sem hefur það starf að sjá til þess að við getum öll fundið eitthvað til að gleðja munn og maga, augu og eyru á þessum árstíma. Þetta er blað um manneskjuna og helgi jólanna.

Súsanna Svavarsdóttir

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga