Leikfélagið Hugleikur

Með hugleikskum blæ

Leikfélagið Hugleikur undirbýr nú jólin af fullum krafti en hefð er komin á jóladagskrár félagsins í desember – og eitt er víst að þar verða hláturstaugarnar virkjaðar.


Leikfélagið Hugleikur er eitt þekktasta og virkasta áhugaleikfélagið á höfuðborgarsvæðinu – og eiginlega það virkasta á landinu. Undanfarin ár hefur félagið boðið upp á skemmtilega jóldagskrá með hugleikskum blæ og í ár verður engin undantekning gerð á því. Formaður félagsins, Sigurður Pálsson, segir nokkuð ljóst að dagskráin sé komin til að vera.
„Jóladagskráin í ár verður sýnd tvisvar í Þjóðleikhúskjallaranum að þessu sinni, sunnudaginn 9. desember og þriðjudaginn 11. desember, kl. 21.00 bæði kvöldin, segir Sigurður og bætir síðan við sögu jóladagskrárinnar: „Samkvæmt mínum kokkabókum var fyrsta jóladagskrá Hugleiks haldin árið 1995, reyndar í janúar, rúmri viku eftir þrettándann. Hins vegar má segja að hefðin fyrir jóladagskrám fari að komast á árið 2000. Þá var haldin dagskrá í Kaffileikhúsinu undir yfirskriftinni „Rauð jól”, og síðan hafa þessar dagskrár verið því sem næst árviss viðburður, framan af í Kaffileikhúsinu, en nú síðustu ár í Þjóðleikhúskjallaranum.”


Stuttir leikþættir og Hjárómur
Sigurður býst sterklega við að þessi dagskrá sé langleiðina komin að því að verða hefð hjá félaginu. „Í þau örfáu skipti sem ekki hefur orðið af jóladagskránni eftir að ég gekk til liðs við félagið, hefur mér þótt heldur lítið til jólahaldsins koma. Mér finnst jólin varla koma nema Hugleikur hafi boðið þau velkomin.” Það má fastlega reikna með því að flestir félagsmenn og velunnarar félagsins séu honum sammála. En við hverju getur maður búist á jóladagskrá hjá Hugleik.

„Yfirleitt hafa dagskrárnar verið mjög fjölbreyttar. Oftast hafa verið á boðstólum stuttir leikþættir, gjarnan jólatengdir. Tónlistina má alls ekki vanta, og oftast er nokkuð mikið af henni, enda er mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki innan raða félagsins. Svo hefur komið fyrir að við höfum brugðið á leik með áhorfendum, t.d. með föndurkeppnum. Við reynum að hafa allt jólatengt á þessum dagskrám, þótt tengingin sé stundum lausleg. Þeim sem eru að leita að einhverju sem kemur jólunum hreint ekki við er bent á aðrar dagskrár Hugleiks, en við verðum aftur í Þjóðleikhúskjallaranum í febrúar, apríl og maí.” Aldrei nein ládeyða
Það kennir ýmissa grasa á jóladagskránni í ár þó ekki sé allt komið fyllilega á hreint með öll atriðin. „Það er nokkuð ljóst að það verða sýndir að minnsta kosti tveir eða þrír jólalegir leikþættir. Eitthvað verður auðvitað af tónlist, meðal annars treður söngsveitin Hjárómur upp og blandar sér jafnvel eitthvað  í einn leikþáttinn. Við getum allavega lofað góðri skemmtun og jólaskapi,” segir Sigurður.
Það er aldrei nein ládeyða hjá leikfélaginu Hugleik og er búið að skipuleggja mjög fjölbreytt og líflegt leikár hjá félaginu. Sigurður segir að það standi hreint ekki lítið til þetta árið. „Nú standa yfir æfingar á leikriti eftir Júlíu Hannam, sem nefnist Útsýni. Það verður frumsýnt í Möguleikhúsinu að áliðnum janúarmánuði. Í kringum áramót fara svo af stað æfingar á öðru leikriti, Ættum og örlögum eftir Hrefnu Friðriksdóttur, sem frumsýnt verður nálægt páskum. Auk þessa verða sem fyrr segir þrjár dagskrár með fjölbreyttu efni í Þjóðleikhúskjallaranum. Við bendum áhugasömum á að fylgjast vel með á vefnum okkar, www.hugleikur.is.” Það má fastlega reikna með því að nýir aðdáendur félagsins eigi eftir að bætast í stóran hóp núverandi aðdáenda, enda mikið af hæfileikafólki sem leggur félaginu lið, sem í vetur er algerlega sjálfbært, það er að segja, höfundar leikverka, leikstjórar, leikarar og allir sem að sýningunum koma eru úr röðum félagsmanna.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga