Æskan hefur gefið út bækur í tæp áttatíu ár.
Bókaútgáfan Æskan ehf.

Ný útgáfa á traustum grunni
Bókaútgáfan  Æskan  hefur gefið út bækur  í tæp áttatíu ár. Útgáfan hefur gefið út margar athyglisverðar bækur og  verið þekkt fyrir útgáfu vandaðra bóka með fjölbreyttu efni. Höfuðstöðvar útgáfunnar voru lengi í miðborg Reykjavíkur, í  Lækjargötu og síðar við Laugaveginn en eru  nú í Faxafeni 5 í Reykjavík.
Guðrún Karlsdóttir og Karl Helgason framkvæmdastjóri.

Bókaútgáfan  Æskan ehf. keypti bókadeild Æskunnar 2005. Eigendur eru Karl Helgason og fjölskylda, Ofanleiti ehf. (Sigurjón Sighvatsson kvikmyndagerðarmaður) og Öflun ehf.

Af útgáfubókum frá liðnu árunum

Bækur hafa verið gefnar út á vegum Æskunnar frá 1930. Jóhann Ögmundur Oddsson var meðal helstu hvatamanna útgáfunnar og var framkvæmdastjóri í rúm tuttugu ár.
Af útgáfubókum frá fyrstu árum útgáfunnar skulu taldar sem dæmi Davíð Copperfield, Sögur perluveiðarans, Oliver Twist og Grant skipstjóri. Fyrsta bók Stefáns Júlíussonar kom út árið 1938, Kári litli og Lappi og aðrar bækur hans í kjölfarið, gefnar út mörgu sinnum. Skáldkonurnar Margrét Jónsdóttir og Ragnheiður Jónsdóttir eiga margar bækur á útgáfuskránni, einnig Jenna og Hreiðar: bækur um Toddu ( MJ), Dóru (RJ) og Öddu (J og H). Guðjón Guðjónsson skólastjóri og ritstjóri Æskunnar í mörg ár ( eiginmaður Ragnheiðar ) þýddi margar bækur fyrir útgáfuna.
 Árið 1964 varð Kristján Guðmundsson framkvæmdastjóri útgáfunnar. Á hans tíma komu út, svo nokkuð sé nefnt, nokkrar litprentaðar bækur með ævintýrum, t.a.m.. Ævintýri barnanna, Ritsafn H.C. Andersens í þremur bindum, fyrstu bindin í Annálum íslenskra flugmála, auk fjölda barna- og unglingabóka. Fyrstu bækur Eðvarðs Ingólfssonar komu þá út, Gegnum bernskumúrinn, Birgir og Ásdís og Hnefaréttur.
 Karl Helgason tók við umsjón útgáfunnar 1983. Áfram voru gefnar út bækur eftir Eðvarð, t.d. Fimmtán ára á föstu- og verðlaunabókin Meiriháttar stefnumót; Hrafnhildur Valgeirsdóttir var höfundur nokkurra bóka, svo sem verðlaunabókarinnar Leðurjakkar og spariskór; Jónas Jónasson samdi hugnæma sögu, Brúðuna hans Bergþórs, Herdís Egilsdóttir Eyrun á veggjunum.- Eftir Vilhjálm Hjálmarsson komu út margar bækur, talin skal aðeins Frændi Konráðs- föðurbróðir minn, æviminningar Hermanns Vilhjálmssonar.
 1995 kom út fyrsta bók Magnúsar Scheving, Áfram Latibær!, og varð upphaf Latabæjarævintýrisins. Tvær aðrar fylgdu í kjölfarið.
 Stefna fyrirtækisins er að gefa áfram út vandaðar bækur með fjölbreyttu efni, ekki síst bækur sem eflt geta lestraráhuga barna.


Munnmælasögur og Mæja spæja

Guðrún Karlsdóttir, íslenskukennari í Verslunarskólanum og stjórnarformaður fyrirtækisins, segir að nokkrar mjög áhugasamar bækur séu gefnar út í ár.
,,Nefna má bókina Vel trúi ég þessu! en í henni eru tólf munnmælasögur, sagðar af sagnaþulum. Tólf teiknarar eiga myndir í bókinni, hver við eina sögu, og þær eru fjölbreyttar, ýmist glettnar eða hugnæmar. Bókinni fylgir diskur með sögunum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gefur bókina út með okkur en þaðan voru upptökurnar fengnar. Flest var tekið upp um miðja síðustu öld.
 Við gefum líka út Mæju spæju eftir Herdísi Egilsdóttur. Margir fagna því áreiðanlega, bæði af því að þeir kannast við söguna frá því í sumar í flutningi Útvarpsleikhússins- og hinu að Herdís er mjög vinsæll höfundur. Það var gaman að geta fengið Björn G. Önundarson, ellefu ára, til að teikna myndir í bókina. Þær eru sérstaklega skemmtilegar. Hann hefur vakið mikla athygli fyrir snjallar skopteikningar ”.

Ekki er að spyrja að genunum!

,, Bókin Frækið fólk í íþrótttum 1- feðgar og mæðgur kemur út hjá okkur á næstu dögum”, segir Karl Helgason framkvæmdastjóri.
,, Allir þekkja afreksfólk sem tengist slíkum fjölskylduböndum en ég býst við að fólk verði hissa á hve margt það er. Við fengum ótal ábendingar um feður og syni, mæður og dætur sem sett hafa Íslandsmet, orðið Íslands- eða bikarmeistarar eða hafa leikið í landsliði, í hvaða aldursflokki sem er. Eins og sést á titlinum er þetta fyrsta bindið í flokknum. Að ári gefum við út annað bindi um feðga og mæðgur- og þá eða síðar verða talin hjón, feðgin, mæðgin, systkin og frændsystkin. Þetta er að sjálfsögðu til gamans, alls ekki sagnfræðilegt verk.  Fólkið svarar fáeinum spurningum, sumt stutt og snaggaralega en annað nákvæmara. Sagt er frá sérstæðum og fyndnum atvikum og lausleg afrekaskrá fylgir. Við grófum upp myndir frá ýmsum tímum og þær gefa bókinni sannarlega skemmtilegan svip.”

Létt að lesa- og spennandi

,,Við gefum út fyrsta bindið í flokknum Óvættaför: Elddrekinn Fernó”, segir Guðrún Karlsdóttir.
,,Frásögnin er hröð og spennandi frá fyrstu síðu. Letrið er stórt og myndir skemmtilegar. Þessar bækur henta vel fyrir byrjendur í lestri, til að efla lestraráhugann, en höfða líka til  þeirra sem lengra eru komnir. Árni Árnason kennari og rithöfundur þýðir bækurnar. Hann er ekki síst þekktur fyrir Geitunga- bækur sínar, fyrir krakka sem vilja læra að lesa og reikna. Þær eru mjög vinsælar og hafa selst í tugþúsundum eintaka undanfarin ár.“
 Dularfulla bókin, er fyrsta sagan í flokknum Á háskaslóðum. Hún er eftir Lloyd Alexander , margverðlaunaðan höfund sem nýlega var nefndur til H.C. Andersen verðlaunanna 2008. Það eru hörkuspennandi sögur og jafnframt gamansamar og henta vel fyrir krakka frá níu til tólf ára. Bækurnar eru nú gefnar út um allan heim og hafa selst í milljónum eintaka.
Karl bendir mér á sérstæðar bækur þar sem risaeðlur og margt fleira sprettur upp af síðunum. Bækurnar eru Risaeðlur – Varúð ! og Sagan um allt.“ Þær eru snilldarvel gerðar og geyma fróðleik sem krakkar eru ólmir í að lesa, ” segir Guðrún Karlsdóttir.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga