Aðfangadagur var dagur föstu

Í kaþólskum sið er ýmislegt frábrugðið þeim hefðum sem við eigum að venjast í lútherskri trú
Jólin eru hátíð kristinna manna um allan heim – gleðihátíð þar sem við fögnum því að Kristur skyldi fæðast. En þótt stór hluti mannkyns sé kristinn,  eru ýmis afbirgði til af kristinni trú og mismunandi siðir og venjur þeim tilheyrandi.Systkinin Oddný Rósa Halldórsdóttir og Bjarni Halldórsson eru alin upp í kaþólskum sið og hafa haldið í það sem þau kalla „kaþósk-íslenskar“ hefðir. Móðir þeirra var kaþólsk og segja þau aðdraganda jólanna hafa verið eins og hjá öðrum; það var bakað og húsið hreinsað hátt og lágt. En þau segja iðkun kaþólskrar  trúar hafa þróast og breyst á seinustu árum, bæði hér og annars staðar. 

Biskupinn fékk undanþágu
„Það voru, til dæmis, allir föstudagar, kjötföstudagar. Það er að segja, við vorum alin upp við það að borða aldrei kjöt á föstudögum. Núna eru þetta örfáir dagar á árinu sem ekki er borðað kjöt. Kjötföstudagarnir voru einkum haldnir í heiðri á aðventunni og þá var líka fastað á kjöt á miðvikudögum. Þessi tími er tilheyrir jólaföstunni og var föstutími; á þessum tíma eiga menn að sýna hóf í öllu. Þetta átti líka við um aðfangadag. Hann var dagur föstu. Müllenberg biskup skrifaði á sínum tíma bréf til páfa og spurði hvernig ætti að meðhöndla þessi fyrirmæli hér, vegna þess að við Íslendingar borðuðum hangikjöt á aðfangadag.
Hann vildi vita hvernig hann ætti að snúa sér í þessu; hvort hann ætti hann að heimila íslenskum kaþólikkum að borða sinn hátíðarmat á aðfangadag. Hann fékk jákvætt svar til baka frá páfagarði, sagt að hann ætti að halda sig við hefðir þjóðarinnar. En þessi hefði hefur þróast á ólíkan hátt í ýmsum löndum. Svíar eru jafn lútherskir og Íslendingar en þeir halda ennþá þessa hefð að borða ekki kjöt á aðfangadag. Þá borða þeir sinn lútfisk – sem er þorskur. Þessi hefði hefur lifað með Svíum þótt þeir séru lútherskir.“

Falleg stemning á aðventunni

Systkinin voru alin upp við mikinn aga í kirkjusókn. Bræðurnir fimm fengu allir að þjóna við messur þar en systurnar þrjár voru ekki gjaldgengar í slíkt. Þótt það sé leyft núna, var ekki til siðs þá og þótt eðlilegt – en systkinunum var öllum gert að mæta í kirkju að minnsta kosti einu sinni í viku. „Ef við komumst ekki á sunnudegi, þá gátum við farið á laugardegi. Eins var hægt að fara í messu í kapellunni á Landakotsspítala. Það var alltaf einhver yndisleg stemning í því á aðventunni, því fjólublái liturinn er litur aðventunnar. Í minningunni er það einmitt fjólublái liturinn sem er mjög sterkur í minningunni og eftirvæntingu jólanna.
Vikuleg mæting í kirkjuna var skylda allt árið – og svo komu jólin. „Við hlökkuðum alltaf mikið til jólanna vegna þess að þá var jatan sett upp, bæði í kirkjunni og heima síðasta sunnudaginn í aðventu. Tilhlökkunin var alltaf svo mikil að það var leikur að halda yngstu börnunum  stilltum í kirkjunni á meðan á messunni stóð, vegna þess að á eftir fengju þau að sjá jötuna. Í kirkjunni var hún sett svo fallega upp, vegna þess að þá var búinn til klettur úr pappa sem var settur á bak við jötuna.“ Oddný og Bjarni segja þessa hefð enn haldna í kirkjunni – og Oddný hefur tekið við af móður sinni. Nú setur hún upp jötuna heima hjá sér síðasta sunnudag í aðventu.
Oddný og Bjarni segja enga sérstaka siði tíðkast í kaþólskri messu á aðventunni en þann að þá er ekki sungin gloria. „En það er nú ekki heldur í föstumessunum, segja þau. En kirkjusóknum einu sinni í viku lauk ekki þótt þau yrðu fullorðin og stofnuðu sínar eigin fjölsklyldur.  Mamma ýtti mjög undir að við héldum áfram að mæta í messur.  Það kvað svo rammt að þessu að hún bauðst til að passa fyrir okkur á meðan. Við hittumst því alltaf systkinin hjá henni á sunnudagsmorgnum og fórum síðan saman í kirkju.“ Mamma hefði viljað sjálf fara í hámessuna en fannst mikilvægara að við myndum fara.“

Messur gera jólin hátíðelgri

Oddný segist hafa dregið aðeins úr kirkjusókn með aldrinum, en þó séu taugarnar til kirkjunnar afar sterkar, einnig í börnum hennar. Til dæmis hafi sonur hennar, sem býr í Noregi, komið heim til að skíra börnin sín í sóknarkirkju kaþóskra á Íslandi, Kristskirkju á Landakoti. Bjarni, og annar bróðir úr systkinahópnum, eru hins vegar aðstoðarmenn og rækja kirkjuna og trúnna ennþá mjög vel; mæta nánast alltaf í messu.
Kirkjan var þeim systkinum mjög nákomin. Þau voru alin upp í næstu götu við hana, gengu í Landakotsskóla og léku sér á Landakotsstúni. Þau hafa lítið fjarlægst hana og mæta í tilskyldar messur um jólin; miðnæturmessu á aðfangadagskvöld, hámessu á jóladag og síðan á messu á annan í jólum. Þau eru sammála um að þeim þættu jólin ekki eins hátíðleg ef þau færu ekki til messu. „Maður vill vera meðvitaður um tilgang jólanna og koma honum til barna og barnabarna,“ segja þau og bæta því við að jólin hefjist alltaf hjá þeim eins og öðrum á aðfangadag klukkan sex þegar þau kveikja á útvarpinu til að hlusta á jólamessuna í Dómkirkjunni og heyra jólaguðspjallið. Þegar þau eru spurð hvort þau fari alltaf í miðnæturmessuna á aðfangadag, segja þau þróunina hafa orðið þá að þau fari frekar í messu á jóladagsmorgun. 

Stórfjölskyldujól

„Þeir sem mæta í miðnæturmessuna eru fæstir í söfnuðinum. Þegar við fórum í miðnæturmessu með mömmu, vildum við fá að sofa út næsta dag, ekki þurfa að mæta í messu á jóladag. Einhvern veginn hefur þetta æxlast þannig að við syskinin  förum frekar í messu á jóladagsmorgun, klukkan hálf ellefu, með öll okkar börn. Þá hittir maður alla sem mögulega komast í kirkju.
Það er mikil stemning yfir því nú orðið, vegna þess að við búum öll í Reykjavík.“ Seinna um daginn, eða klukkan þrjú, mæta svo allir í jólaboð heima hjá Oddnýju, sem tók við stórfjölskylduhefðinni eftir að móðir þeirra dó. Þá er líka glatt á hjalla, því hópurinn telur orðið yfir sjötíu manns.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga