Skemmtilegt lið

Skemmtilegt lið í Skemmtihúsinu
Leikhópurinn Kraðak sýnir Láp og Skráp Grýlusyni í leit að jólaskapinu

Lápur, Skrápur og jólaskapið er heitið á jólasýningu Kraðaks sem verður frumsýnd í  Skemmtihúsinu við Laufásveg 1. desember næstkomandi. Lápur, Skrápur og jólaskapið er fjölskylduleikrit með mikið af söngvum og fjallar um tvo Grýlusyni, þá Láp og Skráp.
Lápur og skrápur eru einu tröllabörnin í Grýluhelli sem hafa ekki enn komist í jólaskap. Grýla mamma þeirra rekur þá því af stað úr hellinum og bannar þeim að koma þangað  aftur fyrr en þeir eru búnir að finna jólaskapið. Lápur og Skrápur leita um allt og ber leitin þá inn í svefnherbergi Sunnu litlu. Hún ákveður að hjálpa þeim bræðrum og saman  lenda þau í allskonar ævintýrum. “Leikritið er bráðfyndið, skemmtilegt og felur í sér fallegan jólaboðskap. Þetta er fjölskylduleikrit sem ungir jafnt sem aldnir hafa gaman að,  segir leikstjórinn, Anna Bergljót Thorarensen – en verkið skrifaði Snæbjörn Ragnarsson sem er einn af höfundum Ævintýra Stígs og Snæfríðar í Stundinni okkar.
Þeir Lápur og Skrápur eru leiknir af Ólafi Sk. Þorvadlz og Guðjóni Þorsteini Pálmarssyni – en Sunna litla, mannabarninu sem hjálpar Lápi og Skrápi í leit þeirra að jólaskapinu,  leikur Andrea Ösp Karlsdóttir sem fór með hlutverk Lilla klifurmúsar í Dýrunum í Hálsaskógi í Elliðarárdalnum í sumar.
Stefnt er að því að sýna Láp og Skráp á hverjum degi í desember og stundum nokkrar sýningar sama daginn. Anna Bergljót segir þó að leikhópurinn ætli að taka sér frí á  aðfangadag og jóladag. Hún segir að stemningin í Skemmtihúsinu verði afar skemmtileg,  eins og tilheyri. „Þetta er lítið, hlýlegt leikhús sem við höfum sett í jólabúning. Það  komast aðeins níutíu manns á hverja sýningu og því meiri líkur á að skemmtileg  stemning myndist meðal áhorfenda. Eftir hverja sýningu er leikhúsgestum boðið á neðri  hæð hússins, þar sem við bjóðum upp á veitingar. Þar fá áhorfendur að hitta leikarana úr  verkinu – og þar verður hægt að skoða risastórt jóladagatal.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga