Færum sjúklingunum jólin

Kjartan Örn Sigurbjörnsson prestur á öldrunarsjúkranúsinu Landakoti segir jólin þar sérlega hátíðleg.
Flest okkar finnum á hverju ári hversu nauðsynlegur andi jólanna er okkur og það er ólíklegt að við gætum hugsað þá hugsun til enda að hann hyrfi. Birtan, jólatónarnir, boðskapurinn; allt er þetta meitlað í huga okkar og endurtekningin ár eftir ár, gerir það að verkum að þessi jólaandi verður okkur sífellt kærari.
Á Landspítalanum starfa sjö prestar og einn djákni – enda spítalinn stærsti vinnustaður á landinu. Á Landakoti þjónar séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson – en, eins og kunnugt er, er Landakotsspítali öldrunarspítali. En svo hefur ekki alltaf verið.
„Ég var ráðinn hingað  á Landakotsspítala sem þá var bráðaspítali árið 1991. Hinir spítalarnir voru komnir með sjúkrahúspresta og stjórn Landakotsspítala ákvað að bjóða einnig upp á þessa sömu þjónustu hér. Strax eftir að ég kom hingað urðu hins vegar breytingar á sjúkrahúsum í Reykjavík þegar Landakotsspítali og Borgarspítali sameinuðustí Sjúkrahús Reykjavíkur. Síðan sameinaðist Sjúkrahús Reykjavíkur Landspíta og hét Landspítali-Háskólasjúkrahús en með nýjum lögum heitir þetta bákn í dag einfaldlega Landspítali – og er stærsti vinnustaður á landinu.“
Við prestarnir höfum hvert okkar starfsvettvang. Minn er hér á Landakotsspítala.“

Að vera til staðar
Þegar séra Kjartan er spurður hvers vegna prestar séu nauðsynlegir á sjúkrahúsum, segir hann: „Maðurinn er allt í senn, líkami og sál. Hér á sjúkrahúsinu er það hlutverk prests að sinna andlega þættinum, sálgæslunni. Við lítum þannig á að okkar skylda sé fyrst og fremst að sinna sjúklingunu og þeirra andlegu þörfum, en við erum líka hér fyrir aðstandendur þeirra.  En við sinnum líka starfsfólkinu og veitum fræðslu eftir því sem til okkar er leitað. Starfsfólk getur líka verið lasið á sálinni og fundið til í hjartanu. Þá erum við til staðar fyrir það fólk.“
Á Landakotsspítala koma aldraðir einstaklingar til lengri eða  skemmri dvalar og eru síðan útskrifaðir heim eða inn á stofnun. Á spítalanum eru sex sjúkradeildir, líknardeild og dagdeild, auk öflugrar sjúkra- og iðjuþjálfunar. Eins og verða vill í lífinu, eiga margir þeir sjúklingar sem leggjast þar inn ekki afturkvæmt heim vegna þess að sjúkdómurinn sem hrjáir þá hefur rænt þá minni, jafnvel viti. En við vitum ekki hversu mikið. Þegar Kjartan er spurður út í jólahald á spítalanum, segir hann það ekki spurningu að jólahaldið hafi áhrif á þessa sjúklinga.

Tónlist og söngur á aðventunni
„Stemningin breytist strax á aðventunni, vegna þess að spítalinn er allur skreyttur, fest upp jólaljós, og hingað kemur svo mikið af góðu fólki með tónlist, söng og ýmsar uppákomur. Það skiptir miklu máli og er vel þegið. Síðan erum við prestarnir með  aðventustundir, auk þess að vera með guðsþjónustur á aðfangadag, jóladag og um áramótin.“
Kjartan segir alla sjúklinga sem mögulega geta, fara heim um jólin. „Hér á Landakoti er margt af sjúklingum sem fer heim dagpart eða yfir nótt um jólin, sem er ómetanlegt fyrir það fólk. En einhverjir eru eftir og við reynum að sinna þeim eins og kostur er. Aðventustundin er haldin á stigapallinum á annarri hæð, þar sem hægt er að koma fyrir hjólastólum og rúmum. Við  reynum að færa sjúklingunum jólin.“
Sjálf jólamessan er haldin á sama stað klukkan 14.00  á aðfangadag. „Tímasetningin er hugsuð þannig að sjúklingarnir  fái sína messu áður en þeir fara heim með fjölskyldum sínum, eða fjölskyldur þeirra sem ekki fara heim, geti tekið þátt í henni áður en þær fara að sinna jólahaldinu heima. Þetta er ákaflega tilkomumikil og hátíðleg stund – ekki síst vegna þess að félagar úr Karlakórnum Fóstbræðrum kemur alltaf og syngur í aðfangadagsmessunni.“

Fólk er hrært
Þótt margt af þessu gamla fólki sé orðið  gleymið, jafnvel komið út úr heiminum, sér maður að þessi stund snertir við fólki og hún verður dýrmæt. Presturinn les jólaguðspjallið og þegar við syngjum Heims um ból, gerist það oft að fólkinu vöknar um augun.  Þetta er allt fólk sem hefur haldið jól með sínum börnum og barnabörnum og þótt það geti kannski ekki kallað minninguna fram, þá er hún þarna. Fólk er hrært.
Starfsfólkið sem er að vinna á þessum degi, er þarna vegna þess að það kýs það. Því finnst þessi stund dýrmæt, talar um þessa stund sem eitthvað alveg sérstakt. Andrúmsloftið, þessi tónn sem er sleginn í samfélaginu, nær hingaðinn, ásamt birtu jólanna. Deildirnar eru skreyttar, jólaljósin skína, tónlistin hljómar og aðstandendur eru oft duglegri við að heimsækja ættmenni sín á þessum tíma – og ekkert er eins kærkomið og að fá fólkið sitt í heimsókn.
Söfnuðurinn er öðruvísi  en aðrir söfnuðir – en boðskapurinn sá sami og hann á sannarlega erindi við þetta fólk sem á lítið framundan en lifir í því sem er að baki.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga