Alþjóðlegur stíll hjá Bison
Trausti Ágústsson eigandi Bison verslananna í Kringlunni og Smáralind, segir hönnunarstefnu fyrirtækisins hafa verið að breytast á seinustu árum.

„Bison er verslun sem býður upp á vandaðan fatnað fyrir alvöru fólk,“ segir Trausti Ágústsson eigandi verslunarinnar, sem fyrir ári síðan keypti Bison í Kringlunni og opnaði, í framhaldi af því, einnig verslun í Smáralind – um síðustu páska.
Bison er mjög þekkt og virt vörumerki í allri Skandinavíu, sem og á Írlandi og þegar Trausti er spurður hvað hann eigi við með „alvöru fólk,“ segir hann að það sé raunverulegt fólk sem lifir raunverulegu lífi, stundar vinnu og sinnir sinni fjölskyldu; fólk sem vill klæðast vel og fallega í amstri dagsins.


Að hluta til að yngja upp
Trausti segir viðskiptavinahóp verslunarinnar einkar skemmtilegan. Hingað til hefur markhópurinn verið þrjátíu ára og upp úr, en nú er verið að breyta línunni aðeins til að ná til breiðari hóps. „Að hluta til erum við að yngja hann upp. Við erum ekki að taka neinar u-beygjur, eða hástökk, heldur bæta við það sem við höfum fyrir.
„Bison var stofnað í Danmörku árið 1961 og var upprunalega með golffatnað en svo þróaðist sú lína smám saman yfir í fatnað til daglegs brúks,“ segir Trausti. „Upphaflegi stíllinn er þó alltaf greinanlegur og fyrirtækið er mjög jarðbundið. Þótt snið, litaval eða einhver smáatrið breytist lítillega á ákveðnum vörutegundum, byggja þær á upphaflegu hugmyndinni.“
En það hafa ekki aðeins átt sér breytingar í hönnun þess fatnaðar sem Bison býður upp á, heldur hefur allt yfirbragð verslananna breyst. „Það eru ákveðnar línur í hönnun Bison verslananna,“ segir Trausti, „ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla – en maður hefur sitt að segja með útfærsluna. Fyrir þremur árum breyttu þeir lógóinu og verslununum, hönnuðu nýja ímynd og fóru meira yfir í alþjóðlegan stíl. Þetta hefur um langt skeið verið alþjóðleg keðja, en ímyndin var ekki að sama skapi alþjóðleg. Við breytingarnar léttu  þeir umgjörðina og gerðu allt miklu bjartara.“

Innkaupin sniðin að íslenskum kúnnum
Bison selur bæði dömu- og herrafatnað og leggur mikið upp úr viðhaldsfríum flíkum, það er að segja, fatnaði sem þarf ekki að strauja. „Megnið af okkar vörum má fara í þvottavélar heima og sem minnst í efnahreinsun. Þetta er hágæðavara sem að mestu er unnin úr náttúruefnum, ull, bómull, hör og eitthvað af silki. Seinustu árin hefur hönnunarstíllinn einnig verið að breytast Hann er ekki eins augljóslega skandinavískur, heldur hefur fengið mun alþjóðlegra yfirbragð.“
Trausti segir verslunina í Kringlunni hafa gengið mjög vel þau tíu ár sem hún hefur starfað og að flestir þekki hana. „Mikið er um fastakúnna og fer sá hópur stöðugt vaxandi. Við seljum fallegan, vandaðan hversdagsfatnað sem hentar vel í vinnuna og óformlegri boð og við reynum að sníða innkaupin að kúnnunum hér. Það er allt annar smekkur hér hvað snið og litaval varðar, heldur en, til dæmis, í Varsjá þar sem við erum að opna þrjár verslanir.“
En þar með er ekki öll sagan sögð um athafnasemi Trausta, því hann er nú þegar farinn að skoða möguleikana í St. Pétursborg og Moskvu.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga