Mikil værð að spila

Svanhildur Eva Stefánsdóttir lét gamlan draum rætast þegar hún stofnaði verslunina Spilavini í haust – en hún hefur spilað af ástríðu frá blautu barnsbeini

Spilavinir heitir ný verslun við Langholtsveg 126, á horni Langholtsvegar og Skeiðarvogs. Verslunin, sem sérhæfir sig í alls kyns spilum, þrautum og púsluspilum hóf starfsemi sína 4. október síðastliðinn og má með sanni segja að hún sé draumabúð þeirra sem hafa gaman af því að spila og púsla. Eigendur verslunarinnar eru Svanhildur Eva Stefánsdóttir og Linda Rós Ragnarsdóttir. En það er Svanhildur sem stendur í versluninni, tekur á móti viðskiptavinum og gestum og er í forsvari.
Það þarf ekki að ræða lengi við Svanhildi til að átta sig á því að hún er ástríðumanneskja um hvers konar spil og þrautir og púsl – og hefur svo verið frá því að hún man eftir sér.
“ Ég og vinir mínir höfum verið mikið áhugafólk um spil í gegnum tíðina. Þegar við höfum verið erlendis, höfum við haft upp á spilabúðum til að kaupa okkur ný borðspil vegna þess að það hefur ekki verið um svo auðugan garð að gresja hér. Einn daginn vorum við að spjalla saman og vorum sammála um að það væri ekki lengur til almennileg spilabú á Íslandi – og almennt lítið úrval til af spilum.  En við vorum líka sannfærð um að til væru fleiri en við sem hefðu áhuga á borðspilum. Í framhaldi af því ákvað ég að opna verslun.”

Kenni fólki á spilin í versluninni
Undirbúningurinn að stofnun verslunarinnar átti sér nokkurn aðdraganda, því áður en til hennar kom, settist Svanhildur á skólabekk til að læra að reka verslun. “Ég sótti námskeið hjá Háskólanum í Reykjavík um stofnun verslunar og einnig skráði ég mig í Brautargengi og lærði að gera viðskipta- og markaðsáætlun hjá Impru. Haustið 2006 var ég í Brautargengi, ákveðin í að láta drauminn um að opna spilaverslun rætast. Það kom engin önnur verslun til greina.

Meðfram náminu gerði ég markaðskönnun með hópi í háskólanum í Reykjavík til að athuga hvernig áhugi á spilum og spilamenning væri á Íslandi. Það var ekkert eitt svar en þau var greinilegt að fólki finnst eðlilegt og sjálfsagt að gefa börnum spil vegna þess að það vill gefa eitthvað uppbyggilegt. En oft finnst því sjálfu erfitt að læra spilin og þar fékk ég þá hugmynd að kenna spilin hér í versluninni. Öll spilin sem eru seld í versluninni, eru opin hér, þannig að þegar fólk kemur og sér spil sem það langar í en kann ekki að spila, þá kenni ég þeim það einfaldlega. Ég er frænkan í fjölskyldunni sem gaf alltaf spil í jólagjöf og svo kenndi ég alltaf krökkunum spilið. Ég er ástríðuspilari.”

Fékk alltaf spil í jólagjöf
“Sjálf fékk ég alltaf spil í jólagjöf. Mamma á þýska vinkonu sem á stóran þátt í þessari ástríðu minni. Ég fékk alltaf nýtt spil sent frá Þýskalandi um hver jól. Þegar ég var að alast upp var ekki gefið mikið út af spilum hér. Mamma og pabbi gáfu mér alltaf spil og ég get rifjað upp ár frá ári, hvaða spil ég fékk hverju sinni. Ég man sérstaklega eftir einum jólum. Ég var fremur matvönd og borða ekki rjúpur en það voru rjúpur í jólamatinn. Ég hékk við borðið og var virkilega fúl. Þetta ætlaði engan enda að taka og svo var eftirrétturinn sem mér leist ekkert á. Ég hafði óskað eftir því að fá Íslenska efnahagsspilið í jólagjöf – en það var enginn pakki undir tréinu sem gat mögulega haft það að geyma. Ég hafði þess vegna engan áhuga á gjöfunum þegar kom að því að taka þær upp. Svo þegar við vorum rétt sest við jólatréið, rauk systir mín á fætur og sagðist þurfa að skreppa inn í sitt herbergi. Þegar hún kom til baka var hún með pakka í höndunum sem ég vissi að hefði að geyma þetta spil. Þá voru jólin mín komin. Ekkert annað skipti máli.

Ég fékk líka alltaf góðan spilastokk í jólagjöf. Svo spiluðum við alltaf Kana og Kasínu um jólin. Kasína er uppáhalds tveggja manna spilið mitt og við pabbi spiluðum það út í eitt. Það er svo mikil stærðfræði og ég lærði það áður en ég byrjaði í skóla – enda er stærðfræði fyrir mér alltaf í myndum. Ég held að það eigi mikinn þátt í því hvað mér hefur alltaf gengið vel í stærðfræði og náttúrugreinum í skóla.

Samvera án skilyrða
Svanhildur segir góð spil hafa mikið uppeldislegt gildi. “Foreldrarnir í mínum vinahópi þurftu aldrei að hafa áhyggjur af okkur. Við eyddum kvöldinu heima hjá hvort öðru að spila, fremur en að fara út að djamma. Við skipulögðum spilakvöld og spilahelgar, skipulögðum ferðir upp í sumarbústað og ákváðum hver ætti að taka hvaða spil með sér. Það var aldrei spurning um að hafa vín með og maturinn var einfaldur til að við þyrftum ekki að eyða miklum tíma í hann. Vín hefði aldrei komið til greina. Ef þú ferð að drekka þegar þú ert að spila, þá taparðu.
Að setjast niður og spila er svo mikil samvera – samvera án skilyrða, en hefur þó tilgang. Þú þarft að læra reglur og fylgja þeim. Það er eitthvað sem þú gerir með ánægju í spilum og það hjálpar þér töluvert þegar út í lífið er komið. Þú byrjar í spilum í kringum þriggja ára aldur og vilt læra reglurnar. Síðan er mikilvægt að allir fylgi reglunum og ef einhver gerir það ekki, fær sá hinn sami viðbrögð. Krakkar líða það ekkert að félagar þeirra reyni að hunsa reglurnar og svindla í spilum. Spilum fylgir líka stærðfræði- og rökhugsun sem er gríðarlega mikilvægt að þjálfa strax í grunnskóla.”
 
Nærri skólakrökkum
Þegar Svanhildur er spurð hvers vegna versluninni hafi verið valinn staður við Langholtsveginn, segir hún ýmsar ástæður liggja fyrir því. “Við vildum hafa hér heimilislegan anda. Þetta er gríðarlega stórt hverfi og hér eru margir skólar, allt frá leikskólum upp í framhaldsskóla. Sjálfar búum við síðan í hverfinu og erum með börnin okkar í leikskóla og grunnskóla hér rétt hjá.  Ástæðan fyrir því að ég sóttist ekki eftir verslunarplássi niðri í bæ er einmitt nálægðin við skólana. Krakkar hafa mikinn áhuga á spilum og þau koma hér eftir skóla til að kynnast spilum og púsli. Ég tek á móti þeim og hef mikla ánægju af að kenna þeim. Síðan gerist það, ef ég er upptekin við afgreiðslu,  þá hjálpa krakkarnir hvert öðru. Þau eru á misjöfnum aldri, stundum eru þau eldri að hjálpa þeim yngir – og öfugt. Dóttir mín fimm ára kenndi þremur tólf ára eitt spil hér um daginn. Þeim fannst það ekkert athugavert. Það er eins og aldursmunur skipti engu máli þegar spil eru annars vegar.
Hingað er alltaf hægt að koma til að skoða spilin og fá ráðgjöf. Hvort sem þú ert að hugsa um spil þar sem börn spila saman, eða þar sem börn og fullorðnir spila saman. Ég hef heyrt fólk segja að það hafi ekki gaman af að spila, en ég segi að það hafi bara ekki fundið spilið sem þeim finnst gaman af að spila. Svo er ég með varahluti í spil, ef þú ert búin að eyðileggja teninginn þinn, eða glasið. Ef þú eignast spil og kannt það ekki, getur þú líka komið með það og ég kenni þér það. Svo er ég með óskalista. Ef þig langar í eitthvert visst spil sem ég á ekki, reyni ég að hafa upp á því erlendis.
 
Spilafólki leiðist sjaldan
Aðspurð hvort Íslendingar hafi almennt gaman af því að spila, segir Svanhildur að spilamenning sé alltaf að aukast. Það sé nú einu sinni þannig hér eins og annars staðar að aukning á spilamennsku haldist í hendur við menntunarstig þjóðarinnar.
“En svo held ég að það séu margir orðnir kúguppgefnir á öllum þessum hraða og spennu sem hefur ríkt helst til of lengi, að ekki sé talað um tengslaleysi. Fólk er farið að leita í spilin vegna þess að þau þjálfa alla í samvinnu og bjóða upp á yndislega samverustund með fjölskyldunni.  Þetta er reyndar að gerast úti um allan heim. Það fylgir því mikil værð að spila.

Ef þú ferð inn á heimili fyrir eldri borgara, þá sérðu að þar er mikið spilað og það er alltaf fjörugasta og skemmtilegasta fólkið sem er að spila. Það vaknar jafnvel snemma á morgnana til að spila og spilar svo út í eitt allan daginn. Yfir spilunum spjallar það við félaga sína og það skiptir miklu máli. Líf þeirra er miklu ríkara fyrir vikið og spilafólki leiðist afar sjaldan.”

Ekkert kynslóðabil
“Spil þurfa ekkert að vera stór, dýr og flókin til að hægt sé að eiga góðar stundir. Þú getur keypt einn spilastokk á 250 krónur og ert komin með óendanlegt úrval af spilum og óendanlegum samsetningum af spilafélögum. Ég er núna að láta prenta fyrir mig spilaskrifblokkir, þar sem verða leiðbeiningar um stigagjafir fyrir hin ýmsu stokkaspil. Einnig spjöld með leiðbeiningum um reglur í algengum spilum. Svo kenni ég bara spil hér yfir borðið, stend oft hér og spila við viðskiptavinina, vegna þess að auðveldasta leiðin til að læra spil, er bara að spila þau. Það eru nefnilega ekki lengur til neinar bækur um spilareglur. Ég man eftir slíkum bókum þegar ég var krakki. Þá var hægt að fá bækur með spilum og gátum. Ég finn stundum slíkar bækur á fornsölum og bókasöfnum en það er ekkert verið að gefa þær út í dag. Samt eru þetta stórgóðar bækur sem gætu létt svo mörgum lífið.

Spil hafa gefið mér svo mikið í samskiptum við foreldra mína og ömmu, sem og aðra ættingja og vini. Vinahópurinn minn bara styrktist. Við höfum haldið hópinn frá sextán ára aldri. Núna erum við öll komin með börn og þau koma með okkur að spila. Ég spilaði mikið við ömmu og vinkonur hennar þegar ég var krakki. Í spilum er kynslóðabilið ekki til. Þetta eru samskipti í gegnum tíðina sem eru gefandi, laus við hraða og stress. Ef þú ert með spilastokk, þá ertu bara í eigin heimi og tíminn er ekki til.”


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga