Jólastemning í Norræna húsinu

 Barnadagskrá með söng og sögum, norrænt jólahlaðborð og hönnunar- og handverksmarkaður.
Norræna húsið býður upp á norræna jólastemningu á aðventunni með jóladagatali, jólamarkaði, barnadagskrá og jólahlaðborði.

Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni að halda hönnunar- og handverks jólamarkaður Norræna hússins í sýningarsölunum í kjallara hússins helgarnar 1. og 2. Desember, 8. og 9. desember og 15. og 16. desember. Alls munu um tuttugu hönnuðir taka þátt í markaðinum en um hverja helgi verða þar fjórtán til fimmtán hönnuðir með söluborð. Flestir hönnuðurnir eru íslenskir og má segja að þeir bjóði upp á alla flóruna í hönnun og handverki, gripi úr leir og textíl, skrartgripi, roðvörur, ofna nytjahluti, sjöl og slæður, jólakort, heklaðar töskur, kökuform, þæfða ull og lampa, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess verður Norræna húsið sjálft með einn bás, þar sem seldar verða finnskar vörur, sem tengjast Alvar Alto, til dæmis servíettur, pottaleppa og bakka.
 
Lifandi dagatal
Helena Árnadóttir sem sér um jólamarkaðinn fyrir hönd Norræna hússins segir hann tengjast annarri jólahátíð sem verður í húsinu. „Við verðum með lifandi jóladagatal. Við opnum einn glugga á því klukkan 12.34 á hverjum degi og þá verður einhver skemmtilegur viðburður hér í húsinu. Hugmyndin er að fólk geti komið hingað og gleymt jólaamstrinu, fengið sér gott að borða og upplifað eitthvað skemmtilegt.“ Helena neitar að upplýsa hvað komi út úr glugganum –það eigi að vera óvænt á hverjum degi, eins og vera ber með jóladagatal. 

Um helgar verður síðan boðið upp á jólahlaðborð sem og barnadagskrá. „Við erum með danskan matreiðslumann, Mads Holm, sem sérhæfir sig í nýnorrænum mat. Hann ætlar að bjóða gestum upp á norrænt jólahlaðborð  - virkilega girnilega norrænar jólakræsingar – þar sem lögð verður áhersla á lífrænt hráefni, eins og stefnan er hér á veitingastaðnum okkar, Alvar-A matur og drykkur.“

Ævintýri og jólalög
Barnadagsrkáin segir Helena að verði býsna fjölbreytt. „Hingað koma barnakórar og við verðum með upplestur, auk þess sem verður aðstaða fyrir börnin til að lita og teikna. Þá hefst dagskráin á því að Aðalsteinn Ásberg les norræn jólaævintýri sem hafa verið þýdd á íslensku og sungin verða vinsæl norræn barnajólalög. Síðan eiga krakkarnir að teikna eitthvað í tengslum við sögurnar og myndirnar verða svo hengdar upp hérna í húsinu, í anddyrinu og á jólamarkaðinum í kjallaranum.
Barnadagskráin verður bæði laugardaga og sunnudaga og hefst klukkan 13.00. Hugmyndin er sú að fólk geti komið hingað og fengið sér gott að borða. Eftir matinn geta börnin síðan tekið þátt í jóladagskrá  á meðan fullorðna fólkið dundar sér við að skoða jólamarkaðinn í rólegheitum.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga