DesignEuropA í jólaskapi:

Gefa vefi til góðgerðamála

Nýir eigendur eru komnir að rekstri vefþjónustufyrirtækisins DesignEuropA og í brúna er kominn nýr stjórnandi.
Áherslum í rekstri fyrirtækisins hefur verið breytt með það að leiðarljósi að stórbæta þjónustu við viðskiptavinina og fullnægja öllum þeirra vefþörfum. Í tilefni tímamótanna, og jólanna,  hefur DesignEuropA ákveðið að að hanna og smíða þrjá fullkomna vefi með öllu tilheyrandi og gefa til félagasamtaka eða einstaklinga sem vinna að uppbyggilegum velferðarmálum.
DesignEuropA, www.de.is, var stofnað í Kaliforníu árið 1998 en hefur þó alla tíð verið alfarið í eigu íslenskra aðila. Undanfarin 6 ár hefur félagið haft höfuðstöðvar á Íslandi en DE er einnig með starfstöðvar víðar í Evrópu, Ameríku og Asíu. Allt frá stofnun hefur DE verið brautryðjandi í vefsíðugerð á Íslandi og hefur félagið hannað og smíðað hátt 1.000 vefi sem ýmist eru hýstir á Íslandi eða erlendis.

Stórbætt þjónusta
Fyrir rúmum mánuði tóku nýir eigendur við rekstri DE og í kjölfarið var Kristján J. Kristjánsson ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Hann segir ýmsar breytingar í farvatninu sem allar miði þó að sama markmiði. „Við ætlum að stórbæta þjónustuna við viðskiptavini okkar með það fyrir augum að hjá DE geti þeir fengið lausn allra sinna mála er snúa að Netinu og markaðssetningu í netheimum. Faglegur metnaður er það sem knýr okkur áfram og við munum tryggja að allir okkar vefir, og aðrar afurðir DE, fullnægi þörfum og kröfum viðskiptavina okkar,“ segir Kristján.
Stjórnendur DesignEuropa hafa jafnframt ákveðið að feta nýjar slóðir og bjóða upp á ýmsa þjónustu er lýtur að prentun svo sem auglýsingagerð, umbrot, hönnun firmamerkja, ljósmyndun og textavinnslu.

Starfstöð á Selfossi
DesignEuropA hefur um árabil haft höfuðstöðvar í Reykjavík en í kjölfar eigendaskiptanna var jafnframt opnuð starfstöð á Selfossi. „Þess utan erum við með sölufulltrúa víða um land og hyggjumst fjölga þeim enn frekar á næstu vikum. Það er stefna DE að bjóða upp á persónulega og nána þjónustu og því viljum við hafa sölufulltrúa sem víðast. Ég hvet þá sem hafa áhuga á samstarfi að hafa samband við okkur sem fyrst,“ segir Kristján.
Nýja starfstöð DesignEuropA á Selfossi er á Eyrarvegi 29 og símanúmerið er 482-1600.
Gefa þrjá vefi

Aðventan er á næsta leiti og í hugum flestra Íslendinga eru jól og áramót tími kærleika, friðar og gjafmildi. Starfsmenn DesignEuropA eru þar ekki undanskildir og í tilefni eigendaskipta, og komandi jóla, hyggst DE gefa þrjá vefi til aðila er vinna að góðgerðamálum. „Ég held að vel flestir landsmenn finni fyrir auknum náungakærleik þegar nær dregur jólum. Að sama skapi vex þörfin fyrir að styðja við þá sem höllum fæti standa og mér finnst viðeigandi að fyrirtækin láti ekki sitt eftir liggja í þessum efnum. Ég veit að mörg metnaðarfull fyrirtæki hafa nú þegar markað sér slíka stefnu og ég vona að framtak okkar verði enn fleiri fyrirtækjum til eftirbreytni. Ísland er lítið samfélag og í raun erum við öll ein stór fjölskylda. Því ber þeim sem þess eru umkomnir að huga að hinum er minna mega sín. Ef þetta innlegg okkar getur eflt starf þeirra sem vinna af hugsjón og elju að framgangi góðra og mannbætandi mála þá er tilgangi okkar náð,“ segir Kristján.
Allir þeir sem telja sig vinna að góðgerðamálum í víðum skilningi eiga þess kost að fá fulkomna vefi frá DesignEuropA. Gildir þá einu hvort um er að ræða einstaklinga eða félagasamtök en einu takmörkin eru að starf viðkomandi sé ekki rekið í hagnaðarskyni. „Það nægir að senda okkur tölvupóst á netfangið info@de.is fyrir 5. desember næstkomandi þar sem fram koma helstu upplýsingar um starfsemina og ósk um endurgjaldslausan vef. Þau félagasamtök sem hafa launaða starfsmenn á sínum snærum geta einnig tekið þátt, svo fremi að markmið viðkomandi sé ekki að hámarka ágóðann heldur láta gott af sér leiða. Allir þátttakendur fara í pott sem dregið verður úr með viðeigandi hætti í vitna viðurvist um miðjan desember,“ segir Kristján J. Kristjánsson, framkvæmdastjóri DesignEuropA.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga