Öll jól eru gítarjól
Tónastöðin í Skipholti var stofnuð og rekin í eldhúsi á Akranesi fyrir nákvæmlega tuttugu árum. Í dag er hún alhliða tónlistarverslun fyrir byrjendur jafnt sem atvinnumenn í tónlist


Hin glæsilega verslun,Tónastöðin, einn af uppáhalds viðkomustöðum tónlistarmanna og -nema varð tuttugu ára í ár. Og það merkilega er að hún hefur eiginlega vaxið og dafnað eins og barn frá því að hjónin Andrés Helgason og Hrönn Harðardóttir stofnuðu hana – og nú er hún fullorðin. Þó var ekki eins og þau Andrés og Hrönn ætluðu að opna verslun þegar þau stofnuðu Tónastöðina. Hún var eiginlega slysabarn.
“Ég var að kenna í Tónlistarskólanum á Akranesi,” segir Andrés, og Hrönn var heima með ungbarn.“Upphaflega ætluðum við bara að vera með nótnabækur og tilgangurinn með fyrirtækinu var að Hrönn hefði eitthvað að gera. Við ætluðum aldrei að opna verslun, en það smá hlóðst utan á þetta. Fyrst til að byrja með var fyrirtækið rekið í eldhúsinu, svo teygði það sig fram á gang, síðan í stofuna og að lokum í svefnherbergin á heimilinu okkar á Akranesi. Við áttuðum okkur á því að þetta gengi ekki þegar dóttir okkar sagði: Ekki fleiri hljóðfæri inn í mitt herbergi.”
Flutt á mölina
Fyrirtækið flutti til Reykjavíkur árið 1991 þegar Andrés og Hrönn opnuðu hana í húsnæði á Óðinstorgi þar sem áður var Ístónn. Enn var áherslan á nótur, en þó voru þau farin að daðra við hina og þessa hljóðfæraflokka, þá fyrst og fremst blásturshljóðfæri og strengjahljóðfæri.
“Þetta var mjög heimilislegur rekstur,” segir Andrés. “Við límdum bara pappa fyrir gluggana á vorin og settum miða út í glugga sem á stóð: “Sjáumst í haust.” Þegar við svo komum til baka á haustin, höfðu pappalufsurnar losnað hér og þar og héngu niður eftir gluggunum. Svona vorum við klár í þessum rekstri.”
Á Óðinstorginu var verslunin til ársins 1995. “Þá vantaði okkur orðið stærra pláss. Það var mjög gaman að vera með verslun niðri í bæ en það fór óskaplega í taugarnar á okkur að allir kúnnarnir okkar fengu bílastæðasektir. Viðskiptavinirnir þurfa oft að eyða löngum tíma í versluninni hjá okkur og það gekk ekki að hafa engin bílastæði fyrir þá.
Þegar við fórum að líta í kringum okkur eftir öðru húsnæði, var  okkur sagt frá húsnæðinu hér í Skipholti 50D. Við fórum að skoða og enduðum með því að opna þar 1995. Síðan höfum við stækkað búðina þrisvar. Síðasta sumar fór algerlega í þriðja og síðasta áfangann.”

Starfsfólkið vel menntað í tónlist

Í dag er Tónastöðin með alla hljóðfæraflokka, slagverkshljóðfæri, blásturshljóðfæri, strengjahljóðfæri, píanó, og meira að segja úrval af óvenjulegum hljóðfærum, meðal annars didjeré du, ukulele, okarínur, langspil, dulcimer – og allir geta fengið eitthvað við sitt hæfi, allt frá byrjendum í tónlistarnámi til atvinnumanna. “Við höfum lagt áherslu á að vera með starfsfólk sem er vel menntað í tónlist,” segir Andrés. “Við lendum svo mikið í ráðgefandi hlutverki gagnvart foreldrum og öðrum viðskiptavinum. Það getur verið dálítið erfitt fyrir viðskiptavininn að sjá í hvaða gæðaflokki hljóðfærin eru. Íslendingar vita til dæmis lítið um tré. Það er alveg eðlilegt vegna þess að hér er enginn skógur. Við vitum hvernig ýsa á að bragðast en við vitum ekki hvernig fiðla á að hljóma.”

Þau eru líklega ófá börnin sem eiga sér þá ósk heitasta að fá hljóðfæri í jólagjöf. Þau eru eiginlega alltaf besta og ógleylmanlegasta jólagjöfin úr æsku. Þegar Andrés er spurður hvort hljóðfæri séu vinsæl til jólagjafa, svarar hann: “Við segjum alltaf að öll jól séu gítarjólin. Gítarinn virðist alltaf vera vinsælasta jólagjöfin hjá okkur. Þá fáum við inn mikið af foreldrum sem eru að kaupa gítar í jólagjöf og þá er gott að hafa menn sem eru vel að sér og færir um að ráðleggja hvaða hljóðfæri hentar viðkomandi best. En börn langar oft í hljóðfæri áður en að því kemur að þau ráði við gítar. Þess vegna bjóðum við upp á ukulele, sem er alveg kjörið handa fjögurra og fimm ára börnum. Þetta er ódýrt og skemmtilegt hljóðfæri með fjórum nylonstrengjum sem krakkarnir geta ekki skorið sig á.“

Íslenska trommuskapgerðin
Ásláttarhljóðfæri hafa líka alltaf verið vinsæl, sérstaklega trommurnar. Íslendingar eru búnir að vera algerlega trommuóðir síðastliðin tvö ár og það hefur verið alger metsala í trommusettum.” En hver skyldi vera ástæðan fyrir því?
“Ég held að við Íslendingar fáum alltaf einhverjar dellur,” segir Andrés, “og kannski hentar það skapgerð okkar Íslendinga að spila  á trommur.”
Og tónlistargjöf þarf ekki að vera dýr gjöf. Hægt er að kaupa allt frá ódýrri munnhörpu upp í flygil í hæsta gæðaflokki. Flest hljófæri eru til í mörgum verðflokkum. Einnig selur Tónastöðin alla fylgihluti fyrir þá sem eru í tónlistarnámi. Andrés segir endalaust til af fylgihlutum fyrir öll hljóðfæri; stillitæki fyrir gítara,  nótna- statív, taktmælar, allt frá gömlu góðu og yfir í digital-taktmæla, svo eitthvað sé nefnt.
Einnig er til gríðarlegt magn af nótum fyrir öll hljófæri í versluninni, yfir tíu þúsund titlar af nótnabókum fyrir alla hljóðfæraflokka. Allt frá kennslubókum fyrir byrjendur og upp úr.

Mikið “bítl” í gangi
“Það var mjög lítið til af nótnabókum þegar við byrjuðum,” segir Andrés. “Þegar við hófum þessa starfsemi vorum við hjónin nýflutt heim frá Færeyjum þar sem ég var skólastjóri í þrjú ár. Þar kynntist ég miklu af efni sem ég hafði aldrei séð fyrr. Það varð kveikjan að því að við fórum að flytja inn nótur. Þarna voru kennarar frá öllum Norðurlöndunum, Hollandi og Þýskalandi. Þetta var alger suðupottur.”
Andrés segir mikinn áhuga á tónlist hér á landi og hann fari vaxandi. “En aðbúnaður fyrir tónlistarfólk hefur ekki vaxið að sama skapi. Framboð á kennslu hefur ekki heldur fylgt þróuninni. Það er rosaleg gróska hjá ungu fólki í sambandi við hljómsveitir í dag. Það er mikið “bítl” í gangi og það er virkilega gaman að sjá hvað ungt fólk er ófeimið við að koma fram með sína tónlist.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga