Einstakt Gallerí - Gallerí list

Gallerí list hefur flutt í nýtt húsnæði þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Gunnar Helgason, eigandi gallerísins, segist loksins geta hengt upp stórar myndir.

Það er alltaf gaman að koma inn í gallerí þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja; þar sem listaverkin njóta sín í rýminu með réttri lýsingu og án þess að önnur verk, kannski eftir allt annan myndlistarmann, ræni athyglinni. Nú nýverið varð Gallerí List í Skipholti einmitt þannig gallerí, eftir að það flutti um þrjú hús, yfir í Skipholt 50A þar sem áður var pósthús.

Fjórtán tonn á haugana
Gunnar sem er viðskiptafræðimenntaður segir það aldrei hafa verið í framtíðaráformum sínum að reka gallerí. Málin hafi bara æxlast svona. “Upphaflega var galleríið keypt til að fá húsnæði þess fyrir Tónastöðina sem þurfti meira pláss, en ég sá fljótlega ákveðin tækifæri í rekstrinum,” segir hann. “Það var líka ljóst að galleríið þurfti meira pláss en það hafði haft. Ég hófst því handa við að leita að rétta húsnæðinu og fann það hér þremur húsum frá gömlu staðsetningunni. Ég var að leita að stærra húsnæði til að auka veggplássið. Á gamla staðnum höfðum við aldrei tækifæri til að hengja upp stórar myndir.
Hér þurfti að brjóta niður veggi og gera miklar breytingar. Þetta átti að taka mánuð en fjórtán tonnum og fjórum mánuðum seinna var opnað. Þetta tókst með hjálp góðra vina. Ég ákvað að það væri þá eins gott að gera þetta af fullri alvöru og fékk lýsingahönnuð (Heimi hjá Lýsingu og Hönnun) til að hanna lýsinguna og er mjög sáttur við galleríið eins og það lítur út í dag.”

Vil gera vel við mitt fólk
Auk þess að vera með umboðssölu fyrir listamenn, býður Gallerí List upp á einkasýningar einu sinni í mánuði. Hver sýning nær yfir tvær helgar og stendur því í níu daga. “Við gátum ekki boðið upp á slíkar sýningar áður en við fluttum hingað,” segir Gunnar. Þegar hann er spurður hvort hann sé ekki kominn með stóran hóp af listamönnum á sín snæri eftir flutninginn, segir hann svo ekki vera. “Galleríið hefur undanfarin ár verið með fastan kjarna af listamönnum sem ég er mjög ánægður með, það í sjálfu sér ekki verið neitt takmark að fjölga listamönnunum eftir að við fluttum, ég vildi frekar gera vel við þá listamenn sem ég var með fyrir.  En til að viðhalda fjölbreytni og ferskleika þá erum við alltaf með opin augun fyrir nýjum listamönnum.“  Gunnari finnst að það eigi að vera fjölbreyttni á milli gallería og það sé ekkert unnið fyrir listamenn að vera á mörgum stöðum í einu.

“Það eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi hér, hvort heldur um er að ræða smekk eða verð. Það er gaman að eiga fallegt listaverk. Það þarf ekkert að vera stórt eða dýrt. Við leggjum metnað okkar í að vera með þverskurðinn af íslenskri listsköpun í dag og erum með málverk, glerlistaverk, leirlistaverk, vatnslitamyndir og grafísk verk, svo eitthvað sé nefnt. Það liggur mikil pæling á bak við uppröðun á eyjunum sem eru í galleríinu. Ekki bara hvar þær ættu að vera staðsettar, heldur einnig hvernig væri best að koma listmunum fyrir á þeim. Eyjurnar verða að fá að njóta sín. Það sama má segja um málverkin. Þótt hægt sé að raða saman litlum málverkum – gildir annað lögmál um stór verk. Þau njóta sín hreinlega ekki nema þau fái að hanga ein og sér.”

Með góða tilfinningu
Það er óhætt að segja að öllu sé smekklega fyrir komið í Gallerí List og þegar Gunnar er spurður hvort hann hafi alltaf verið haldinn myndlistarástríðu, segir hann: “Alls ekki. Ég hafði áhuga og fylgdist með svona með öðru auganu. En það er nú þannig að hafi maður einhverja tilfinningu fyrir listum, þá lærist þetta smám saman.” En hvað hefur komið mest á óvart?
“Ég verð nú að segja að þessi fjögur ár hafa verið gríðarlega skemmtilegur tími. Ég hef kynnst fullt af skemmtilegu fólki og áhugaverðum listamönnum. Eins og aðrir hafði ég myndað mér steríótýpískar hugmyndir um myndlistarmenn – en svo eru þeir bara eins og við hin. Það kom kannski mest á óvart.”

.


Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga