Ljúfur, hrjúfur, spriklandi og sprellfjörugur

Stúfur Pönnusleikir Leppalúðason lætur ljós sitt skína á fjölunum á Akureyri

„Þú ert nú meiri jólasveinninn“ er heiti á leiksýningu sem verður frumsýnd í Rýminu á Akureyri 2. desember næstkomandi.
Sýningin, sem er samstarfsverkefni leikhópsins Smilbliks og Leikfélags Akureyrar er ætluð eldri deildum leikskóla og yngri deildum grunnskóla – en svo mega aðrir auðvitað líka koma. Leiksýning er leiksýning og segir leikstjórinn, Ágústa Skúladóttir, að hún hafi nú þegar verið prufukeyrð á nokkrum unglinum. „Þeim fannst Stúfur hryllilega skemmtilegur. Svo viljum við auðvitað fá sem flesta fullorðna á sýninguna.“
Aðspurð um efni sýningarinnar, segir Ágústa: „Það má segja að þetta sé sögustund með Stúfi Pönnusleiki Leppalúðasyni. Hann lætur móðan mása um bræður sína í Dimmuborgum, nágrannaskessur og margt fleira. Hann hefur líka ferðast um heiminn og samið kynstrin öll af lögum. Hann ætlar að syngja sum þeirra fyrir gestina. Það má segja að jólasveinninn Stúfur sýni og sanni í þessari sýningu að hann er enginn venjulegur jólasveinn. Hann hefur unnið markvisst að því að útvíkka starfssvið sitt í von um fleiri „heils árs verkefni,“ og nú hefur hann kynnt sér leikhúsið til hlítar; lært að syngja, dansa og segja sögur í mismunandi leikstílum – og síðast en ekki síst, lært að hlusta á leikstjórann.

Hér birtist leikarinn, tenórinn, trúðurinn, heimsmaðurinn og eineltisbarnið Stúfur eins og við höfum aldrei séð hann áður; geislandi af hæfileikum, ljúfur, hrjúfur, spriklandi og sprellfjörugur. Hann segir áhorfendum sannar sögur af sjálfum sér og samferðar“fólki“ í bland við frumsamin, krassandi ævintýri sem ættu að gleðja jafnt börn, unglinga, foreldra, afa og ömmur – og jafnvel hina geðvondu og sípirruðu móður sína, sjálfa Grýlu.“
Þegar Ágústa er spurð hvort Stúfur sé svo mikið séní að hann hafi bara getað samið handritið og allt hjálparlaust, segir hún: „Hann hefur notið leiðsagnar og aðstoðar einvala leikhúsfólks af láglendinu, meðal annars Margrétar Sverrisdóttur leikkonu og leikskálds, Sævars Sigurgeirssonar leikskálds og söngtextahöfundar, Odds Bjarna Þorkelssonar tónskálds, söngtextahöfundar og leikhúsmanns, Katrínar Þorvaldsdóttur leikmynda- og búningahönnuðar, Gunnars Benediktssonar tónlsitarstjóra og Arnars Ingvarssonar ljósahönnuðar.“
Og víst er að leikstjórinn, Ágústa Skúladóttir, hefur alveg lagt honum lið sem munar um – því varla hefur þessi æringi mætt með þann sjálfsaga sem til þarf á leiksviði.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga