Langstærst í jólum

Ásdís Ragnarsdóttir rekstrarstjóri Blómavals í Skútuvogi segir jólin alltaf hafa byrjað í Blómavali sem býður upp á hið óviðjafnanlega Jólaland – jólatrésskóg og skreytingar úr efni, formi og litum sem hæfa öllum.

Það er mikið um dýrðir í Blómavali í Skútuvoginum. Nokkuð er síðan ótal jólaljós tóku að lýsa upp umhverfi verslunarinnar í Skútuvoginum, svona eins og til að minna okkur á að þessi langvarandi regngráa tíð muni ekki vara að eilífu. Senn koma jólin með allri sinni birtu.

Ég held að Blómaval sé fyrirtæki sem alltaf kemur upp í hugann þegar jólin nálgast,“ segir Ásdís Ragnarsdóttir rekstrarstjóri Blómavals í Skútuvoginu. „Jólin byrja í Blómavali, er slagorð sem við áttum alltaf þótt aðrir hafi tekið það upp seinna og tileinkað sér það. Blómaval var stofnað árið 1970 og er fyrirtækið því orðið þrjátíu og sjö ára gamalt. Það hefur alltaf átt sér mjög skýra sérstöðu. Sem dæmi um það er Jólalandið sem við höfum alltaf átt og setjum upp á hverju ári. Í ár er það alveg einstaklega glæsilegt. Við bætum við nýjum jólakörlum á hverju ári, þannig að þessi fallegi ævintýraheimur fer sístækkandi. Önnur hefð sem við höfum haldið er jólatrésskógurinn okkar. Við erum með kaldan skála þar sem við hengjum upp jólatré og búum til skóg – þar sem fólk getur gengið um og valið sitt tré. Jólatréssalan byrjar yfirleitt í annarri viku í desember, þótt fyrstu tréin séu komin fyrstu aðventuhelgina.“

Smiðir jólasveinanna

Það eru einhverjar vikur síðan jólavörur tóku að streyma í verslunina og nú má þar finna kerti og kertastjaka, servíettur, kúlur, skálar, potta og alls seríur og skraut í hefðbundnum jólalitum sem og tískujólalitum. „Fyrsta helgin í aðventu er okkar tromp,“ segir Ásdís, „því þá er búðin orðin sneisafull, allar vörurnar komnar og okkar undirbúningur búinn. Þá leggjum við allan okkar metnað í að taka vel á móti fólki og veita góða þjónustu.

Jólalandið er tuttugu ára í ár og það er orðinn hluti af jólaundirbúningnum hjá börnum að koma að heimsækja Jólalandið.Við höfum fengið til liðs við okkur leikmyndahönnuð, Margréti Ingólfsdóttur, til að hanna það og setja það upp. Í Jólalandinu eru bæði jólasveinar og hreyfifígúrur sem eru orðnar þjóðþekktar jólapersónur, eins og jólakarlinn sem liggur og sefur og bakarakonan okkar.  Eins og ég sagði, erum við alltaf að bæta nýjum fígúrum við. Í ár bættum við í Jólalandið nokkrum smiðum vegna þess að hér í Skútuvoginum erum við í samkrulli við Húsasmiðjuna. Hingað kemur, um hverja einustu helgi, mikill fjöldi af börnum. Annað nýnæmi hjá okkur í Jólalandinu í ár er lítið svið, sem við höfum bætt við Jólalandið. Þar höfum verið með uppákomur  fyrir börnin frá því að Jólalandið var opnað og ætlum að halda þeim áfram allar helgar til jóla. Þetta er gömul hugmynd sem við höfum ekki komið fyrr í verk – en er að virka alveg ótrúlega vel.
Meðal þess sem við höfum boðið upp á nú þegar eru Tóta tannálfur úr Benedikt búálfi og atriði úr Abbababb. Einnig hefur Jógvan komið og sungið fyrir börnin. Þegar nær dregur jólum koma svo jólasveinar í heimsókn. Við verðum áfram með leikin atriði og söng – en hver helgi verður eins konar óvænt uppákoma, þannig að við ætlum ekki að upplýsa hverjir munu mæta.“

Sóldísarjól
Hvað sérstöðu í jólavörum áhrærir, segist Ásdís vilja byrja á því að nefna Sóldísi. „Þetta er frábær viðbót  við það sem við höfum verið með. Sóldís selur eingöngu silkiblóm sem eru nú þegar orðin mjög vinsæl meðal íslenskra kvenna. Þetta eru afar vandaðar og fallegar vörur og jólavörurnar í Sóldísi eru alveg sérstakar. Sérstaða Sóldísar felst í því að silkiblómin eru mjög lík lifandi blómum og síðan er bara svo flott yfirbragð á öllu skrauti sem kemur frá þeim.  Þetta er svona klassavara.“
Núna þegar aðventan er að nálgast er verslunin ekki aðeins orðin fleytifull af fallegri vöru, heldur er hún sjálf komin í jólabúning. „Við skreytum alla staði verslunarinnar,“ segir Ásdís. „Græna torgið okkar, sem hefur einnig nokkra sérstöðu, fer líka í jólabúning. Þar er aðeins selt lífrænt ræktað grænmeti og jólafötin í græna torginu byggjast á piparkökum, eplum og trönuberjasafa. Til að byrja með er pottaplöntudeildin lögð undir jólastjörnuna, síðan koma amarillisinn og jólakaktusinn og  á aðventunni er það svo hyasinturnar.“
 
Stærst í jólum
„Annars tekur blómadeildin hjá okkur á sig alveg nýjan svip á aðventunni, vegna þess að við bjóðum upp á gríðarlegt úrval af jólaskreytingum. Við erum með jólaverkstæði við Héðinsgötu, þar sem sjö eða átta manns vinna alfarið við það að framleiða jólaskreytingar fyrir Blómavalsbúðirnar, sem í þessum mánuði eru að verða átta talsins. Núna 22. nóvember erum við að opna  nýja verslun á Egilsstöðum. Hún er sú fyrsta á Austurlandi, en fyrir eru Blómavalsverslanir í Keflavík, á Selfossi og Akureyri, auk þess sem fjórar verslanir eru á Reykjavíkursvæðinu; í Grafarholti, Kringlunni og Smára-lind og svo auðvitað flaggskipið hér í Jólaversktæðið okkar framleiðir allar skreytingar sem við seljum í þessum átta verslunum, allt frá aðventuskreytingum, dagatalaskreytingum, kertaskreytingum, hyasintuskreytingum, leiðisgreinum og –krossum, svo eitthvað sé nefnt. Það er alltaf mikið gleðiefni fyrir okkur sem vinnum hér þegar verkstæðið með sínu skreytingarfólki og þeirra aðstoðarmönnum, opnar. Það er svo mikil stemmning og fjör á verkstæðinu.
Ég fullyrði að við erum langstærst í jólum. Búðirnar okkar fara allar í jólabúnign. Svo erum við hluti  af Húsasmiðjunni, sem einnig fer í jólabúning. Það sem tengir okkur er búsáhaldadeildin sem er á milli okkar og þar er líka kaffitería þar sem fólk getur sest niður, fengið sér heitt súkkulaði og kökusneið.“

Plöntuskreytingar sífellt vinsælli

„Við höfum alltaf verið rosalega stór í seríum. Núna seljum við seríurnar inni í Húsasmiðju til að tengja fyrirtækin betur. Við erum alltaf að verða meiri heild en við vorum upphaflega. Eins og við segjum, þá erum við frábær saman.  Það er alveg einstaklega góð og ánægjuleg samvinna á milli þessarra tveggja fyrirtækja.
En þó að við séum með verkstæði, erum við að gera helling af stærri og vandaðri skreytingum hér. Það er fagfólkið okkar í blómadeildinni sem sér um þær, því verkstæðið er meira í fjöldaframleiddu skreytingunum. Í blómadeildinni eru búnar til allar tegundir af skreytingum, allt frá aðventuskreytingum að sjálfum jólaskreytingunum. Það er alltaf að færast meira og meira í vöxt að nota fremur sprittkertaskreytingar en skreytingar með stóru kubbakertunum. Ég held að það sé aðallega vegna eldhættunnar sem fylgir kubbakertunum. Við höfum lagt mikla áherslu á að nota sprittkerti í skreytingarnar sem við erum að gera. Það hefur líka verið að færast dalítið í vöxt  að fyrirtæki  og stofnanir kaupi fremur jólaplöntuskreytingar en kertaskreytingar, til dæmis jólastjörnu og jólacyprus. Þessar plöntuskreytingar njóta líka mikilla vinsælda hjá þeim sem kaupa skreytingar sem eiga að fara inn á spítala þar sem kerti eru einfaldlega ekki leyfð. Við ætlum að reyna að vera dálítið sterk í plöntuskreytingum þessi jólin þannig að allir geti fengið eitthvað við sitt hæfi.“

Tískustraumar og hefðir

„Um leið og við hin erum búin að njóta jólahátíðarinnar, hefst jólaundirbúningurinn fyrir næstu jól í Blómavali. „Strax eftir jól er farið á sýningar erlendis og keypt fyrir næstu jól. Það er raunverulega búið að ganga frá öllum jólakaupum í janúarlok,“ segir Ásdís. „Þá eru jólin í fersku minni hjá okkur og því liggur beint við að velja fyrir næstu jól. Við erum með innkaupastjóra og vörustjóra sem sjá algerlega um jólainnkaupin. Það er mikið atriði fyrir okkur að hafa smekklegan og flottan innkaupastjóra í jólavörum, til að fylgjast með stefnum og straumum hverju sinni.“
Þegar Ásdís er spurð hverjir séu jólalitirnir í ár, segir hún að núna séu jólin að færast aftur í gamla farið. „Það er að koma inn gyllt og bronslituð vara, auk þess sem rauði liturinn er að koma inn aftur, sem og svolítið af fjólubláu – sem er aðventuliturinn. Þetta svarta og silfraða er aðeins að víkja, en alls ekki búið að vera. Svart og kopargyllt er til dæmis mjög smart saman. Síðustu fimm árin hefur einhvers konar minimalismi í skreytingum verið alls ráðandi en ég held að það sé að breytast.
Miðað við það skraut sem við erum að fá núna, þá erum við að færa okkur aðeins nær þessu gamla, góða – verða aftur dálítið gamaldags. En svo er alltaf flott að blanda þessu saman. Það er fullt af fólki sem hendir sínu skrauti eftir jólin og fær sér nýtt á hverju ári, en flestir halda samt sínu gamla skrauti og poppar það upp með einhverju nýju, bætir við litum og munum. Hvað skrautmuni varðar, þá hafa seinustu árin einkennst af alls konar kúlum, gleri og seríum, ásamt alls konar ljósalengjum sem eru settar í vasa. Þetta hefur verið gríðarlega vinsælt og mun halda áfram.“

Fortíðarþrá og nýjungagirni
„Eitt sem er alveg svakalega vinsælt núna, eru jólahúsin með ljósunum. Sumir búa sér til heilu jólaþorpin. Það hefur verið hægt að kaupa hluti inn í þetta í Húsasmiðjunni. Núna erum við með hús, með ljósum og kannski skautasvell fyrir framan. Ég held að þetta snúist eitthvað um að maður sjái barnæsku sína í þessu. Þetta er einhver fortíðarþrá. Það finnst öllum þetta fallegt.“
Hvað kerti og servíettur varðar, segir Ásdís þá vöru alltaf fylgja þeim litum sem eru í tísku hverju sinni. Rautt, hvítt og gyllt eru litir sem alltaf tilheyra jólum, en svo núna koma fjólublátt og svart með. Þótt fjólublátt sé aðventulitur, þá er hann jólatískuliturinn að þessu sinni.

Rauðir túlípanar
„Við erum með gríðarlegt úrval af kertum og jólaservíettum,“ segir Ásdís. „Þar erum við ekki eingöngu með tískulitina, heldur seljum við alveg ótrúlegt magn af serviettum með hefðbundnum jólamyndum.
Þetta hefur allt stíganda. Við byrjum á því að fylla búðina af jólavörum. Jólastjarnan er fyrst. Hún er það fyrsta sem minnir á jólin, síðan er aðventan og eftir hana er það grenið og jólatréin og hyasintuskreytingarnar og endapunkturinn er jólatréið. Svo er farið að færast dálítið í vöxt að fólk  noti túlípana til skreytinga. Þeir eru stór þáttur í jólaskreytingunni hjá býsna  mörgum. Þegar rauðu túlípanarnir koma, þá eru að koma jól.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga