Óforbetranleg jólabörn Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson


Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson segja einhvern ólýsanlegan kærleik felast í heimabökuðu bakkelsi. Fyrir jólin baka þeir mikið, skreyta mikið og njóta árstímans út í ystu æsar.


Óperusöngvaranum Bergþóri Pálssyni er margt til lista lagt – og uppátæki hans alltaf óvænt og skemmtileg. Fyrir stuttu kom út eftir hann bók sem ber heitið Vinamót og segir Bergþór hana fjalla um það hvernig hægt sé að hafa gaman í veislum. “Það fara allir í veislur, segir hann, “stundum skemmtum við okkur, stundum ekki. Mig langaði til að komast að því, smám saman, hvernig hugarfari maður gæti beitt til að hafa gaman.

Það að kunna að halda á hnífapörum, eða glasi, eða kunna að leggja á borð gerir okkur ekki að áhugaverðum eða skemmtilegum gesti, eða gestgjafa, þó að það sé þægilegast að kunna skil á venjum, því að annars kann maður ekki að brjóta þær. En langtum mikilvægara er andrúmsloftið sem fylgir okkur. Það er þetta sem bókin fjallar meira og minna um.
Okkur langar oft til að vera hrókur alls fagnaðar, kunna að segja skemmtilega frá, kunna marga brandara, vera gáfuð, vel lesin og inni í dægurmálunum. En þetta er svo mikill misskilningur. Við þurfum ekki að reyna svona mikið á okkur. Sá sem kann að hlusta á aðra og leyfa öðrum að njóta sín, er miklu vinsælli en sá sem t.d. segir frægðar- og skemmtisögur af sjálfum sér í heilt kvöld!

Svo eru líka í bókinni praktískar upplýsingar um siðvenjur í hátíðlegri boðum til þess að maður geti verið öruggur um sig. slakað á – og skemmt sér.”

Albert betri að baka Sörur
Sambýlismaður Bergþórs er Albert Eiríksson og þeir sem þekkja þá geta vitnað um að þeir eru með skemmtilegri og áhugaverðari mönnum sem hægt er að hitta, hvort sem er í boði eða ekki, þótt vissulega sé meiri glaðværð og hlátur í boðum sem þeir mæta í. Svo eru þeir óforbetranleg jólabörn og aðventan fer öll í jólaundirbúning, einkum þó bakstur, skreytingar.
“Þetta verður dálítið óvenjuleg aðventa út af bókinni,” segir Albert þegar hann er spurður hvernig þeir Bergþór skipuleggi sig fyrir jólin.
“Já,” bætir Bergþór við: “Ég hugsa að undirbúningurinn lendi dálítið á Alberti núna.
“Einsog oft áður,” skýtur Albert glettinn inn í. Og auðvitað hefur Bergþór skýringu á því: “Hann er skipulagðari og miklu rólegri en ég. Miklu betri í að baka Sörur og setja á þær kremið en ég.
Þessu er Albert sammála: “Best er ef hann er ekki heima þegar ég baka Sörurnar, sé helst úti á landi að lesa eða syngja á aðventukvöldi. Galdurinn við að gera Sörur er nefnilega að gera þær á þremur dögum. Fyrsta daginn er bakað og sett í frysti, annan daginn er kremið sett á frosnar kökurnar og það sett í frysti. Þriðja daginn er súkkulaðið sett á fryst kremið. Sörurnar verða fallegri ef kremið er sett á með rjómasprautum með sléttum stút frekar en teskeið. Og stærðin skiptir máli. Þetta er einn munnbiti.

Bergþór og Albert baka alltaf nokkrar tegundir fyrir jólin. “Mér finnst samt eins og þeim fækki með árunum,” segir Albert. “Enda er reynslan sú að þótt maður baki tíu tegundir, þá eru einhverjar þrjár sem allir eru brjálaðir í. Afhverju ekki að baka bara meira af þeim?”

Piparkökur með pipar

En þótt þrjár sortir séu vinsælastar, segjast Bergþór og Albert að öllum líkindum baka að minnsta kosti sjö sortir þetta árið. “Við ætlum að baka kökurnar núna í lok nóvember vegna þess að við ætlum að hafa það náðugt í desember,” segja þeir. Og að sjálfsögðu er byrjað á piparkökunum. “Við fundum uppskrift að piparkökum sem eru nefndar eftir hinni sænsku óperusöngkonu Anne Sofie von Otter. Þetta er besta piparkökuuppskrift sem við höfum smakkað – svo betrumbættum við hana aðeins, settum í hana smá pipar sem er annars aldrei settur í piparkökur – og þær eru algert ÆÐI. Við bökum venjulega fjórar tegundir sem við erum alltaf með, kornflekskökur og kókostoppa, súkkilaðibitakökur og Sörur og síðan höfum við alltaf leikið okkur og prófað einhverjar nýjar tegundir á hverju ári. Við borðum kökurnar á aðventunni – og svo klárast þær oft í boði sem við höldum á Þorláksmessu.”

En þar með er ekki öllum jólabakstri lokið. “Við höfum haldið kaffiboð á jóladag og þá skellum við í nokkrar vænar Hnallþórur. Okkur finnst nefnilega báðum gaman að baka – sem er viss kostur. Svo finnst öllum heimabakað bakkelsi svo gott. Það er einhver ólýsanlegur kærleikur sem fylgir  heimabökuðum kökum og brauði.

Aðventan er ávallt annatími hjá Bergþóri og Alberti og segja þeir hana dálítið mótast af boðinu sem þeir halda á Þorláksmessukvöld. “Það finnst mörgum skrýtið að hafa boð rétt fyrir jólin en það breytir engu fyrir okkur. Við erum bara búnir að gera allt sem þarf að gera hér einum degi fyrr en flestir. Það er það eina sem breytist. Það er svo skrítið að þegar maður setur sér markmið, þá er enginn vandi að uppfylla þau.”

Óformleg boð á Þorláksmessukvöldi
  “Eftir Þorláksmessuboðið er lítið mál að taka til á eftir,” segir Bergþór. “Það þarf bara að renna yfir gólfið og þá er allt orðið fínt aftur. Okkur finnst gaman að vera með þetta boð á Þorláksmessukvöld. Við búum niðri í bæ og fólki finnst gott að koma hér við. Sumir koma í tíu mínútur, fá sér flatköku með hangikjöti og glas af glögg, aðrir stoppa lengur. Það fylgir þessu  boði engin kvöð um að koma – en hingað hafa komið hundrað og fimmtíu manns á Þorláksmessu, en sá fjöldi dreifðist mjög vel yfir kvöldið. Þetta er óformlegt en heilmikill undirbúningur. Samt varð ég eiginlega alveg hissa um daginn þegar ég varð fimmtugur hvað það var miklu auðveldara. Ég hélt veisluna í Salnum í Kópavogi og það var alveg ótrúlega létt að undirbúa hana. Annars er almenna reglan sú að því fleiri gesti sem maður hefur, því einfaldari eiga veitingar að vera, sem og allur umbúnaður. Á Þorláksmessu miðum við allt að því að fólk geti stífað veitingarnar úr hnefa og svo eru einnota staup. Það þarf ekki að þvo neitt upp. Fyrr á árum var þetta oft mikið umstang hjá okkur – og kannski alltof margar tegundir. En við höfum lært af reynslunni.”

“Þetta er eins og með öll boð, bara spurning um skipulag,” segir Albert. Þegar við byrjum að undirbúa þorláksmessuveisluna, gerum við gátlista fyrir hvern dag, dagana fyrir. Það er dálítið merkilegt að þegar gátlistar eru mjög nákvæmir, þá er allt tilbúið í tæka tíð og maður situr og bíður í rólegheitum eftir gestunum. Það er mjög þægileg tilfinning. Svo reynum við að læra af fyrri veislum. Förum alltaf yfir veisluna eftir á. Hvað vorum við ánægðir með og hvað hefðum við viljað gera öðruvísi.

Eitt árið hópuðust gestir saman í eldhúsinu, sem er auðvitað mjög notalegt. En við komumst ekki þangað inn til að sækja veitingarnar. Eftir boðið skrifuðum við því á listann: Muna eftir að taka stóla úr eldhúsi. Annað árið uppgötvuðum við að allir söfnuðust saman i kringum veitingaborðið og svo var enginn í stofunni. Eftir það færðum við veitingaborðið inn í stofuna og eftir það dreifðist hópurinn betur um íbúðina. Annað sem er mikilvægt þegar maður á von á stórum hópi fólks heim til sín, er að hafa hitann ekki á. Þótt það sé þægilegt þegar aðeins heimilisfólkið er heima, þá verður bara alltof heitt þegar kemur stór hópur af fólki.”

Mörg hundruð ljósa skreytingar
Þegar talið berst að jólaljósum, segir Bergþór: “Við erum báðir miklir jólakarlar og skreytum mikið.... Eða eiginlega bara Albert. Hann er algert frík þegar kemur að jólaljósum.”
“Ég vil hafa mikið en einfalt,” skýtur Albert inn í.
Jú, Bergþór getur fallist á þá útgáfu og segir: “Albert er mjög sniðugur hvað seríurnar varðar. Hann er með greinilengjur sem hann er búinn að skreyta með seríum og alls konar skrauti, þannig að það er auðvelt að koma þeim fyrir, þá setur hann saman nokkrar seríur í stóran vönd. Hins vegar, mynda seríurnar sem eru í glugganum jólatré. Eitt jólatré eru 300 perur.”
“Já, en þegar skreytingarnar eru teknar niður, set ég einangrunarplötur á bak við þær, festi þær niður með pinnum og geymi þær þannig í svörtum plastpoka fram að næstu jólum. Þá er lítil fyrirhöfn að setja skreytinguna upp aftur.”
“Já,” segir Bergþór hlæjandi, “nema þegar til dæmis ein peran bilar. Þá þarf að finna út hvaða pera það er.”

Bergþór segir þá byrja snemma að undirbúa jólin. “Annars læt ég Albert um þetta. Hann er svo miklu flinkari.”
“Og svo er Bergþór er alltaf einhvers staðar að syngja,” bætir Albert við.
“Hins vegar er jólatréið mikið hjartans mál hjá mér,” segir Bergþór. “Ég vil hafa jólatréið alveg upp í loft, en Albert vill hafa það minna. Niðurstaðan hefur orðið sú að við erum með stórt jólatré annað hvert ár, og minna jólatré hitt árið, fáum okkar framgengt til skiptis. Maður getur ekki alltaf ráðið öllu.”
“Fólk getur alltaf séð hvort það eru Bergþórs jól eða mín jól þegar það kemur í heimsókn,” segir Albert kíminn.

“Bergþór á alltaf mjög annríkt við að syngja á jólunum og aðventunni og það hefur heilmikil áhrif á jólahaldið hjá okkur,” segir Albert. “Ég ólst upp við það að maður byrjaði að borða um leið og jólin voru hringd inn, á mínútunni klukkan sex. Þegar ég kynntist Bergþóri stóð ég hins vegar heima að skræla kartöflur og brúna þær milli sex og sjö þegar hann var einhvers staðar að syngja og það var auðvitað ekkert hægt að borða jólamatinn fyrr en fjölskyldan var öll komin heim.”

Messur og postulín 
Ein af hefðunum sem Bergþór og Albert hafa í heiðri er að fara í messu. “Í þetta skiptið ætlum við að fara kl. 6 á aðfangadag í Neskirkju. Bragi, sonur minn, er að syngja við messuna og við ætlum að fara þangað.”

Í fórum sínum eiga þeir Bergþór og Albert undurfagurt og óvenjulegt jólakaffistell – sem óhætt er að fullyrða að er einstakt vegna þess að Bergþór málaði það sjálfur. Þegar þeir eru spurðir út í jólakaffistellið, brosir Albert og segir: “Við fórum einu sinni í postulínsmálun – sem var óskaplega skemmtilegt og gefandi. Maður fer alveg inn í eigin heim við þessa iðju. Við máluðum og máluðum og meðal annars málaði Bergþór heilt jólakaffistell með íslensku jólasveinunum.”
“Þetta eru jólasveinarnir sem Halldór Pétursson teiknaði á sínum tíma,” bætir Bergþór við, “en ég færði þá hins vegar í fötin sem unnu í keppni sem Þjóðminjasafnið hélt fyrir nokkrum árum, um það hvernig íslensku jólasveinarnir ættu að líta út.”
Og stellið er auðvitað bara tekið fram á jólunum?
“Já, enda gaman að eiga svona stell sem er alspari-jóla. Það væri alveg ferlega asnalegt að rífa það til dæmis upp í júlí, bara til að grobba sig.” Þegar Bergþór er spurður hvort hann hafi ekki haldið áfram í postulínsmáluninni, neitar hann því.

Útsaumur í kappi við iðnaðarmenn
“Þetta er eins og mörg dellan sem ég hef fengið. Það koma svona tímabil þar sem er hespað af einverjum lifandis ósköpum og svo aldrei aftur í lífinu. Eins og allur saumaskapurinn,” segir Bergþór og bendir á safn af útsaumuðum myndum sem prýða heimili þeirra Alberts. “Þetta er allt saumað á sama árinu. Þegar baðherbergið var tekið í gegn, fór ég í keppni við iðnaðarmennina um að sauma Davíð eftir Michelangelo. Ég rétt hafði það af áður en þeir luku við baðherbergið. Það er svo mikið kapp í mér þegar ég tek upp á einhverju, ég vaknaði um nætur til að sauma út. Þetta er náttúrulega pínulítil klikkun. Þetta var líka svona þegar strákurinn minn, hann Bragi, fæddist. Þá var ég að vinna sem næturvörður og prjónaði dálítið mikið á hann. Síðan hef ég ekki prjónað. En kannski ég fari að huga að því aftur þar sem ég á von á barnabarni um áramótin. Það er alveg stórkostleg tilhlökkun sem fylgir því. Það er ekkert sem toppar þá tilhlökkun,” segir Bergþór og viðurkennir að hann sé mjög fegin að jólin séu að koma. Þá sé svo mikið að gerast að biðin verði ekki eins erfið.

Þeir Bergþór og Albert koma frá afar ólíkum heimilum. Albert kemur frá sveitaheimili austur á fjörðum, en Bergþór er alinn upp í Reykjavík.
“Jólahaldið var líka mjög ólíkt hjá okkur í bernsku,” segir Bergþór. “Pabbi var oft á vöktum á Veðurstofunni um jólin og mér þótti það oft mjög fúlt. Hann fékk stundum að skreppa heim í hálftíma til að fá sér að borða og svo var hann aftur rokinn í vinnuna. Mig langaði til að hafa jólin á mínu heimili eins og jólin hjá öðru fólki. Í aðra röndina langaði mig alltaf til að vera eins og fólk er flest – en – í hina röndina hef ég alltaf haft gaman af því að vera það ekki.”

Hangikjötslyktin eða Ajaxilmurinn
En þótt jólin hefðu venjulegri blæ á heimili Alberts, varð sveitastörfunum ekkert slegið á frest og fjölskyldan varð að sjálfsögðu að sinna gegningum á jólunum. Móðir hans bakaði á milli 15 og 20 smákökutegundir á aðventunni “Ég er alinn upp við það að það var mestallt gert á Þorláksmessu. Þá var öllu snúið við, pússað og penað, hangikjötið soðið og allt gert klárt. Það var alltaf keppni um það hvort hefði betur, hangikjötslyktin eða Ajax ilmurinn og undir ómuðu jólakveðjurnar í útvarpinu. Við erum sjö systkinin og það tóku allir til hendinni. Við vissum ekkert hvað þetta jólastress var, vegna þess að þau voru ekkert væntanleg fyrr en á Þorláksmessu. Jólakort voru ekki opnuð fyrr en á aðfangadagskvöldi. Það var mjög passað upp á það. Þegar maður er lítill, skilur maður ekki hvað foreldrarnir eru lengi að lesa jólakort, velta þessu fyrir sér fram og til baka og skoða myndir af einhverjum börnum, hvort þau líkist nú meira í móður- eða föðurættina o.s.frv. Það var helst á þessum stundum sem maður fann fyrir óþreyju.

Jólahreingerningin vefst ekki fyrir Bergþóri og Albert frekar en annað sem viðkemur undirbúningi jólanna. “Það er eitthvað skemmtilegt við að þrífa fyrir jólin,” segir Albert. “Maður setur þægilega jólatónlist á, tekur allt út úr eldhússkápunum og kemst í einhvern gír.”
“Já,” segir Bergþór hugsi. “Ég er allur í skipulagningunni, alltaf að skipuleggja í huganum og velta fyrir mér hvort er betra að skúra fyrst inni á baði eða einhvers staðar annars staðar – eða gera eitthvað allt annað. Skipulagið tekur alltaf svo langan tíma að þegar ég hef komist að niðurstöðu er Albert búinn að skúra og hreinsa og gera þetta allt.”

Jafnast ekkert á við íslensk jól
Bergþór og Albert gefa lítið fyrir allt tal um jólastress. “Mér finnst þessi tími svo mikið yndislegur á Íslandi,” segir Bergþór. “Kannski vegna þess að ég hef nokkrum sinnum dvalið í öðrum löndum yfir jólahátíðna – og mér finnst ekkert jafnast á við íslensk jól.”

“Við fórum einu sinni á sólarströnd um jólin,” bætir Albert við, “tókum með okkur appelsín og malt og hangikjöt til að upplifa stemmninguna. Svo opnuðum við út í garð og þar voru pálmatré og 19 stiga hiti... Það var ekki sama stemningin yfir maltinu og appelsíninu. Það er svo margt svona smátt sem gerir íslensku jólin að því sem þau eru.”

“Ég er sammála,” segir Bergþór. “Það er svo margt, eins og myrkrið og kuldinn og ljósin. Það jafnast einfaldlega ekkert á við það þegar verður heilagt á Íslandi. Ég hef verið í Ameríku á jólunum og það var bara asnalegt. Það voru sumir úti að hlaupa á meðan aðrir fóru á skyndibitastað. Einu sinni var ég líka einn í útlöndum vegna þess að ég var að syngja þar á jóladag. Og ég man þegar ég fór heim á aðfangadagsmorgunn eftir æfingu, að ég kom við í búð og keypti mér vandaða og fína skyrtu til að hugga mig. Mér fannst þetta svo einmanalegt.
 
Ekki náttfatatýpur
Fyrir utan þorláksmessuboðið, messu og kaffiboðið á jóladag, segjast þeir Bergþór og Albert ekki fastir í neinni hefð. “Við reynum bara að slaka á yfir jólahátíðina eins og við getum – lesum og borðum mikið” segir Albert og við það bætir Bergþór: “Og við erum ekki náttfatatýpurnar. Ég var alinn upp við það að klæðast sparifötum á jólunum – sérstaklega á jóladag.
Ef ég væri á náttfötunum á jóladag, fyndist mér eins og ég hefði misst af jólunum.”

Þegar maður hefur alist upp við eitthvað vill maður halda því allt lífið. Ég held að það sé engin tími ársins sem maður vil eins mikið hafa allt eins og hjá mömmu og ömmu. Þá er eins og lífið hlaupi ekki frá manni. Þetta er fastur punktur í tilverunni. Um leið leiðir þessi tími manni fyrir sjónir hvað tíminn flýgur, vegna þess að það eru alltaf að koma jól aftur.”


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga