Jólasveinanar uppi í Esju
Jólasveinarnir eru loksins komnir með sinn umboðsmann í byggð. Það er fyrirtækið Kraðak sem sér til þess að allir sem vilja hitta jólasvein – fái drauminn uppfylltan

Fyrirtækið Kraðak ehf. hefur ráðist í það stóra verkefni að vera umboðsskrifstofa jólasveinanna. Það eru Anna Bergljót og Andrea Ösp, sem reka fyrirtækið og ef einhvern langar til að hitta jólasvein, þá hefur hann bara samband við þær stöllur.
En hvernig virkar svona jólasveinaleiga?
„Jólasveinaleigur voru stofnaðar til þess að halda utanum öll þau jólaböll, skemmtanir og heimsóknir sem jólasveinar þurfa að fara í fyrir jólin. Sjálfir eiga jólasveinarnir erfitt með að halda utanum þetta. Þeir eru ekki með neinn síma og enginn póstur er borinn út til þeirra svo það er erfitt að koma til þeirra skilaboðum um að maður vilji fá þá í heimsókn. Við tókum því að okkur að vera tengiliður fólks við jólasveinana. Ef þú vilt þá til dæmis fá jólasvein til að kíkja á jólaballið í þínum skóla þarftu ekki annað en að hafa samband við okkur hjá Kraðaki ehf. og við sjáum til þess að jólasveinninn fái boð um að mæta á tiltekinn stað á tilteknum tíma.”

Gluggagægir með snúinn ökkla
Bjóðið þið upp á alla jólasveinana?
„Bíddu nú við... Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur og Kertasníkir…. Já þeir eru þarna allir!”
Hvernig funduð þið þá?
„Sagan af því er ansi skemmtileg. Þannig var að við ákváðum að klífa Esjuna í júní í sumar. Þegar við vorum komin nær alla leið upp á toppinn sáum við hvar tötrum klæddur maður lá á jörðinni og kveinkaði sér. Kom í ljós að hann hafði snúið sig um ökklann og gat því ekki gengið lengra. Við buðum honum því að bera hann niður aftur og keyra hann á spítala. Hann vildi þó ekki heyra á það minnst og bað okkur heldur að hjálpa sér að komast aðeins austar í fjallið, sem við og gerðum. Við þurftum að fara út af þeim göngustígum sem eru uppá toppinn og því sóttist ferðin heldur seint. Sem betur fer var hún þó ekki löng því eftir um það bil 500 metra labb bað hann okkur að nema staðar.
Við skildum auðvitað hvorki upp né niður í neinu en þá sagði maðurinn okkur að hann væri jólasveinn og héti Gluggagægir. Við ætluðum ekki að trúa honum í fyrstu enda var hann hvorki með sítt hvítt skegg né í rauðum fötum eins og þeir jólasveinar sem við erum vanar að sjá. Hann tjáði okkur að rauðu fötin væru hátíðarbúningur sem þeir bræðurnir færu ekki í nema fyrir jólin og að skeggið byrjaði ekki að spretta fyrr en upp úr miðjum nóvember, en þá yxi það líka eins og arfi. Þrátt fyrir þessar útskýringar vorum við enn nokkuð vantrúaðar.
Gluggagægir hóf þá upp raust sína og kvað „Inn í Grýluhelli vil ek ganga,“ Heyrðum við þá miklar drunur og við hlið okkar opnaðist í fjallinu stór hellismunni. Og nú gátum við ekki efast lengur, enda blasti heimili jólasveinanna við okkur. Gluggagægir bauð okkur inn og þar hittum við alla fjölskylduna. Það má því segja í stuttu máli fundum við þá uppi á Esjunni.”


Sprellfjörugir hæfileikasveinkar

Er hægt að panta þá í heimahús?
„Að sjálfsögðu. Jólasveinarnir vita fátt skemmtilegra en að sækja vini sína heim. Oftast þegar þeir kíkja í heimsókn eru börnin í fastasvefni enda er jólasveinninn þá á ferð á nóttunni að setja í skóinn. Það gleður þá því mikið þegar þeir fá að fara í heimsókn að degi til og koma þeir þá iðulega færandi hendi. Krakkarnir hafa nú ekki síður gaman af uppátækinu. Það er ekki á hverjum degi sem jólasveinn ber að dyrum hjá manni.”
Hvað koma þeir margir saman?
„Eins og flestir vita koma jólasveinarnir einn og einn til byggða og hver af öðrum lauma þeir gjöfum í skó barna. Þegar hins vegar kemur að jólaböllum eða öðrum mannamótum laumast samt jólasveinarnir oft niður í bæ áður en þeirra tími er kominn.
Algengast er að þeir séu tveir og tveir saman og er annar þá gjarnan með gítar eða harmonikku í höndunum. Það eru þó engin takmörk fyrir því hversu margir jólasveinar geti verið á sama stað. Það er að segja ekki önnur takmörk en þau að þeir eru nú ekki nema þrettán. Það er því smekksatriði sem ræður því hversu marga sveina er best að fá í heimsókn, einn jólasveinn færi jú létt með að skemmta hundruðum barna.”
Eru þeir jólaballsfærir?
„Hverjir ættu að geta talist jólaballsfærir aðrir en sjálfir jólasveinarnir? Það verður reyndar að viðurkennast að það eru oft svolítil læti í þeim þegar þeir mæta á staðinn. Þeir rífa til sín athyglina um leið og þeir stíga inn á ballið og hafa oftast einhverja stórmerkilega sögu að segja af þeim ævintýrum sem þeir lentu í á leiðinni. Síðan stíga þeir dansinn í gringum jólatréð með krökkunum. Þeir syngja manna hæst, kunna öll jólalögin og réttu hreyfingarnar við,” segir Anna Bergljót og stendur greinilega þétt við bakið á sínum sveinum. En skyldi Kraðak bjóða upp á einhverja aðra þjónustu sem tengist jólunum?

Fleira skemmtilegt í boði
„Já það gerum við! Við sjáum í rauninni um allt það sem tengist jólaskemmtuninni, alveg frá mandarínum í pokum sveinanna uppí stórhljómsveitir sem spila fyrir dansi. Við erum með fjöldann allan að listamönnum á skrá hjá okkur sem hafa útbúið sérstakt prógram bara fyrir jólin. Það er til dæmis hægt að panta atriði með þeim Stíg og Snæfríði úr Stundinni okkar. Þau eru nú aldeilis farin að hlakka til jólanna og syngja fyrir börnin jólalög. Þá eru Hérastubbur bakari og Bakaradrengurinn úr Dýrunum í Hálsaskógi farnir að undirbúa jólin og baka piparkökur í gríð og erg. Ekki má síðan gleyma því að við kynnum einnig sannkallaða jólaballahljómsveit sem sérstaklega er sett saman til að trylla lýðinn. Hana skipa bræðurnir Skyrgámur, Gluggagægir og Kertasníkir. Bræðrunum þessum er flest til lista lagt. Ekki nóg með að þeir syngi og dansi eins og jólasveinum einum er lagið heldur myndar þríeykið mjög frambærilega hljómsveit sem hentar á öll jólaböll. Geta þeir í sameiningu séð um sönginn, dansinn í kringum jólatréð og spilamennskuna allt á einu bretti,” Segir Anna Bergljót og bætir við:
„Þann 1. desember munum við svo frumsýna nýtt íslenskt jólaleikrit, Lápur, Skrápur og jólaskapið. Verkið fjallar um tvo Grýlusyni og leit þeirra að jólaskapinu. Sýningin er bráðfyndin og skemmtileg en felur jafnframt í sér fallegan jólaboðskap.
Samhliða leikritinu munum við gefa út jólaplötu. Á henni verður öll sagan og leikritið ásamt lögunum úr sýningunni.“
Þeir sem eru áhugasamir um starfsemi félagsins geta farið inn á heimasíðu þeirra; www.kradak.is, og kynnt sér hvað er í boði.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga