Það er svo gaman að koma að gagni

Bára Magnúsdóttir hjá JSB segir líkamsræktarstöðvar komnar til að vera og býður upp á einstakt tilboðskort til að stinga í jólapakkann hjá konum á öllum aldri.


„Ég er búin að  reka fyrirtækið í fjörutíu ár en mér finnst svo gaman að eiga eins árs afmæli og nú á ég eins árs afmæli hér á nýja staðnum,“ segir Bára Magnúsdóttir eigandi JSB í Lágmúlanum. Í fyrra keypti hún húsnæði vélaverkstæðis sem var á bak við líkamsræktarstöðina og hefur innréttað þar all-glæsilega æfingasali. „Ég hef reynt að innrétta stöðina þannig að þér finnst þú vera komin í klúbbinn þinn þegar þú kemur hingað,“ bætir hún við. Bára var barnung þegar hún stofnaði fyrirtæki sitt og leigði undir það húsnæði á efstu hæð við Hverfisgötu, þar sem áður var skattstofa. Síðan fluttist hún í Suðurver og rak einnig um tíma stöð í Hraunbergi. Árið 1994 fluttist JSB síðan í Lágmúlann – fyrir ári var vélaversktæðinu breytt í líkamsræktarsali. Þar með stækkaði stöðin um helming, eða 800 fermetra og heitir núna Lágmúli 7 og 9.
Starfsemi JSB er tvískipt. Annars vegar er boðið upp á listdans fyrir börn og unglinga og hins vegar, líkamsrækt  fyrir konur. „Við höfum haldið þeirri stefnu að hafa stöðina eingöngu fyrir konur. Þegar við vorum að stækka, veltum við því fyrir okkur hvort við ættum að hafa  bæði kynin en það varð ofan á að halda þessari sérstöðu. Við erum mikið í átaki fyrir konur; unga konan sem var að eiga fyrsta barnið, konan sem er búin að eiga þrjú börn – er að grenna sig og koma sér í form og  það er notalegt að geta gert það án þess að  vera að  hitta hann Gumma á móti.“

Til unga fólksins
JSB hefur boðið upp á átaksnámskeið í fimmtán ár og hafa þau verið sleitulaus síðan. Þau eru fyrir allan aldur, bæði fyrir konuna sem er hætt barneignum og þær sem eru í miðju kafi, því óneitanlega fylgir þetta barneignunum, eins og Bára segir. „Núna erum við líka að sinna ungu konunum. Við erum með sér átaksnámskeið fyrir sextán ára plús. Þetta er mjög ódýrt námskeið og felur í sér fræðslu um manneldi, hvernig á að þjálfa rétt og nærast rétt. Námskeiðið stendur í níu vikur í einu og kostar 10.900 krónur. Ástæðan fyrir verðinu er sú að við viljum koma til móts við unga fólkið og kenna því að stýra sínu holdarfari,  það er nefnilega hægt að læra það eins og annað, þetta eru ekki óumbreytanleg örlög þótt viðkomandi hafi keyrt fram úr sér í holdarfarinu.  Síðan erum við með námsmannakort, níu mánuði á 20.000 og fjóra mánuði á 12.000 – en þú þarft að sýna skýrt að þú sért námsmaður til að kaupa þau. Þessi kort til unga fólksins eru á sérstöku tilboðsverði.

Það er mikil  þörf fyrir þetta námskeið vegna þess að það fylgir því svo mikið vonleysi hjá ungum stúlkum að vera raunverulega of þung. Það er ofboðslega gaman að koma að gagni. Þetta er ekki námskeið þar sem fita breytist í vöðva. Þetta er námskeið þar sem óæskileg fita hverfur. Ég þarf ekki að senda þig í efnagreiningu til að vita hvort þú hefur grennst. Það sést. Við erum að gera hlutina í alvöru.
Fyrir konur á öllum aldri eru til dæmis TT-námskeiðin, eða frá “Toppi til táar”, sem eru fyrir konur í átaki og vilja læra manneldi og að stýra sínu holdarfari, í boði eru sjö flokkar á ýmsum tímum. Síðan geturðu verið með opið kort. Þá geturðu komið á hvaða tíma sem er á stundaskránni, nema í lokuðu átakstímana og rope-yoga. Einnig bjóðum við upp á tíma fyrir sextíu plús. Það námskeið er meira hugsað fyrir þær sem hafa aldrei þorað að koma og vilja byrja þar. En svo vill fólk geta valið sér tíma, geta valsað um alla stundatöfluna og komið þegar þeim hentar.“

Tilboðskort – líkamsrækt á tilboðsverði - tilvalið gjafakort
„Það nýjasta hjá okkur eru svo tilbiðskortin sem eru einstök í sinni röð. Þér býðst núna að kaupa tilboðskort fyrir tíu þúsund krónur. Kortið gildir í heilt ár og sú sem fær gjöfina, getur notað það t.d. upp í þriggja mánaða kort, TT1 eða Rope-yoga námskeið. Að því  loknu, getur hún notað það aftur í næsta námskeið eða kort og svo framvegis allt árið. Það eyðist ekki fyrr en eftir ár og því hægt að nota það sem innágreiðslu aftur og aftur þann tíma sem það gildir.“

Í Lágmúlanum er kennt í þremur sölum frá sex á morgnana til tíu á kvöldin. En þótt húsnæðið sé stórt og rúmgott, er ekki pláss þar fyrir allan  listdansinn. „Við þurfum að leigja tvo aðra sali vgna þess að dansskólinn er svo víðtækur. Þar eru um átta hundruð ungmenni. Þar með dugði þetta húsnæði ekki. Við leigjum sal í Laugardalshöllinni og annan sal í HK í Kópavogi. Námið  skiptist í almenna braut og listdansbraut. Flestir eru á almennri braut, bæði  strákar og stelpur, en almenna brautin er tómstundamiðað nám og þar er jazzballettinn allsráðandi.“

Þegar Bára er spurð hvort þessu líkamsræktaræði fari ekki að linna, segir hún að það sé af og frá. „Líkamsræktarstöðvar eru komnar til að vera, rétt eins og tannlæknar og hárgreiðslustofur. Þetta er þjónusta sem er engin bóla og við  þurfum margar stöðvar með fjölbreytta þjónustu. Það er hins vegar ekki hægt lengur að opna einhvern sal með engum sturtum og þjónustu í bara einhverju húsi á horninu. Líkamsræktarstöðvar hafa fest sig í sessi og eru rótgrónar alveg niður í botn. Svo rótgrónar og mikilvægar að læknar á Norðurlöndum eru farnir að vísa fólki í líkamsrækt í stað þess að láta það hafa pillur.“


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga